138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um það síðasta. Auðvitað er okkur ætlaður lítill tími til þessa og ég hef gert grein fyrir því að það eru þær sérstöku aðstæður sem við búum við. Það er auðvitað eitthvað sem við kysum að hafa meiri og betri tíma fyrir en við höfum farið með ítarlegum hætti, eins og hv. þingmaður þekkir, í gegnum þessi frumvörp í efnahags- og skattanefnd. Við höfum farið í gegnum umsagnir aðila í heyranda hljóði með öllum nefndarmönnum til að tryggja að allar efnislegar athugasemdir komist á framfæri við nefndarmenn og að eftir þeim sé tekið. Það hafa verið miklar gestakomur og langar fundarsetur þar sem menn hafa farið yfir þær. En auðvitað hefði verið ákjósanlegt að hafa betri tíma til þeirrar umfjöllunar.

Hvað atvinnulífið varðar eiga þær breytingar sem hv. þingmaður vísar til á neyslusköttum eða virðisaukaskattinum sem lúta að kerfisbreytingu, ekki að taka gildi núna 1. janúar heldur 1. mars þannig að það er ekki þannig að menn hafi bara tvær vikur til að undirbúa það. Það er einfaldlega sett inn á árið. Hvað varðar auðlinda- og umhverfisgjöldin er það kunnara en frá þurfi að segja að alveg frá 1. október hafa stjórnvöld verið í viðræðum við þessi atvinnufyrirtæki um útfærslur á þeim skattgreiðslum og með hvaða hætti þeim verði best fyrir komið og hvaða fjárhæðir sé þar um að ræða. Ég held að á endanum hafi tekist a.m.k. bærileg sátt um það. Ég vek athygli á því að til að hlífa fólki við hækkun á tekjuskatti er mikilvægt að sótt sé á skattstofna sem sannarlega eru þeir einu í landinu sem fara vaxandi, eins og tekjur í útveginum og í stóriðjunni sem njóta góðs af gengishruninu sem eiginlega allir aðrir gjalda fyrir.