138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir góða og kröftuga ræðu. Hann fór yfir mjög margt að vonum og ég verð að viðurkenna að þótt það séu ekki stærstu upphæðirnar þótti mér athyglisvert að heyra að kostnaður við varaformann Samfylkingarinnar sé 25 millj. kr. og að verkefnið, sem ég man ekki alveg hvað heitir og veit ekki til þess að neinn viti hvað er, hafi ekki fengið neina umræðu í fjárlaganefnd. (Gripið fram í: 20/20.) Það segir kannski eitthvað um vinnubrögðin. Ég ætla að spyrja hv. þingmann af því að hann kom ekki alveg inn á það. Í þessari miklu vinnu sem við erum í núna, í endurreisninni, er talað um að verið sé að færa hjúkrunarheimili fyrir alla aldurshópa, þrátt fyrir að menn hafi talað um að það væri bara fyrir eldri borgara, úr heilbrigðisráðuneytinu yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Ég hitti forustumenn Félags eldri borgara og enginn hafði rætt við þá um þetta mál. Heilbrigðisnefnd ræddi um þetta eftir að búið var að ganga frá þessu úr fjárlaganefnd og ég held að ég taki ekki djúpt í árinni þegar ég segi að menn hafi átt erfitt með, eiginlega með engu móti getað fundið fagleg rök fyrir þessu. Því getur ekki annað verið en að fjárlaganefnd hafi rætt þetta í þaula. Þið hljótið að hafa fengið umsagnir frá fagaðilum áður en mjög stór hluti heilbrigðisþjónustunnar var færður undir félags- og tryggingamálaráðuneyti.

Ég vil fá að vita, virðulegi forseti, frá hvaða fagaðilum þið fenguð umsagnir og hvernig þið rædduð þetta í nefndinni.