138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er kannski spurning að skíra þessa nefnd Dags B. Eggertssonar 25/25 úr því að hann fær 25 millj. kr. í þetta. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar menn eru hér að slást um hverja krónu ef verkefni eins og þetta sem menn eru augljóslega búnir að setja í algjöran forgang er ekki kynnt fyrir fjárlaganefnd þótt það kosti milljónir. Svo er verið að reyna að bjarga mjög viðkvæmri þjónustu úti um allt.

Það kemur vægast sagt á óvart að heyra að fjárlaganefnd hafi ekki verið búin að fara ítarlega yfir þetta stóra mál, flutning á hjúkrunarheimilunum, hvorki meira né minna. Það á að flytja hluta heilbrigðisþjónustunnar yfir í félags- og tryggingamálaráðuneyti. Rökin hafa verið þau að þjónustan sé fyrst og fremst við þá eldri — það er að vísu alrangt, það er líka yngra fólk á hjúkrunarheimilum — en sú hugsun að aldursskipta heilbrigðisþjónustunni er vægast sagt varhugaverð. Því eldra sem fólk verður þarf það almennt meira á heilbrigðisþjónustu að halda en ég held að það hvarfli ekki að nokkrum manni að skipta upp spítölum eða heilsugæslu eftir aldri.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er alfarið á móti þessu. Þeir tóku það upp hjá sjálfum sér að senda umsögn af því að þeir fréttu þetta, ekki vegna þess að þetta hafi verið kynnt fyrir þeim og ekki vegna þess að beðið hafi verið um umsögn. Þeir benda á að hér er farið þvert gegn því sem er búið að vinna að mjög lengi, m.a. því að hafa faglega og fjárhagslega stjórnun á sama stað. Og það liggur alveg fyrir að heildaryfirsýn í þessum málaflokki verður ekki lengur til staðar þegar menn stíga þetta skref. Það er ótrúlegt að heyra það (Forseti hringir.) upplýst hjá hv. þingmanni að þetta hafi ekki verið rætt í fjárlaganefnd.