138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var um margt áhugaverð ræða hjá hv. þingmanni en það sem ég hjó eftir hjá honum var það sem hann sagði um að fjárlögin væru í raun og veru ekki verk örfárra embættismanna í Reykjavík og menn ættu að njóta sannmælis um allt land. Hann nefndi að það væri klíkuskapur í þessu frumvarpi og nefndi sérstaklega brids og skák og þar fram eftir götunum. Honum hefur væntanlega sést yfir þessa 20/20 áætlun sem er 25 millj. kr. en hann kom líka inn á Göran Persson og vitnaði til þess að það ætti ekki að fresta vandanum heldur taka á honum.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Finnst honum að menn séu að taka á vandamálum ríkisins með þessu fjárlagafrumvarpi (Gripið fram í: Nei.) og hvers vegna, eftir því sem hv. þingmaður segir að þetta fjárlagafrumvarp sé með fullt af klíkuskap, styður hann það þá í þessari mynd sem það er? Af hverju beitir hann sér ekki fyrir því að breyta þeim áhersluatriðum sem hann telur að falli klárlega undir svokallaðan klíkuskap? (Gripið fram í: Góður.)