138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:06]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir þessar ágætu spurningar sem eiga rétt á sér. Í ræðu minni var ég reyndar að vísa til fjárlagagerðar síðustu ára þar sem klíkuskapur og vinargreiðar hafa verið áberandi. Á þessu ber að taka. Fjárlagagerð þarf að vera í mun fastari skorðum en verið hefur og ég veit að þar erum við sammála, við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson.

Ég get tekið undir þau orð hans að það má gera miklu betur í niðurskurðinum. Ríkið hefur á síðustu árum þanist út og hefur tekið að sér verkefni sem það á sannarlega ekki að vera í. Þar erum við væntanlega sammála, ég og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson. Ríkið á miklu fremur að einbeita sér betur að því sem það á raunverulega að gera. Þar nefndi ég grunnþjónustuna sem má ekki vera skiptimynt í hvert einasta sinn sem við skerum niður.