138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:09]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur kemur hv. þm. Ásbjörn Óttarsson með ágæta spurningu sem á vissulega rétt á sér og hefur jafnframt verið ofarlega í huga mínum. Ég er ekki skattaglaðasti maður í mínum flokki, ef ég þekki mig rétt, og ég hef ekki verið talsmaður þess að leggja svo miklar álögur á sveitarfélögin að þau ráði ekki við þær. Við þekkjum öll stöðu þeirra. Hins vegar þurfum við að afla tekna og það kemur niður á öllum sem þurfa að reiða þær tekjur af hendi.

Ég hef hins vegar verið talsmaður þess um langt árabil að efla til mikilla muna það stjórnsýslustig sem sveitarfélögin eru. Það má þess vegna snúa hlutföllunum við, 70/30%, og færa æ fleiri verkefni til sveitarfélaganna, til nærþjónustunnar þar sem þau eiga miklu betur heima, einfaldlega sakir lýðræðiskröfunnar.