138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:11]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni þessar tvær mikilvægu spurningar. Mig langar að svara þeirri síðari fyrst. Hvað flutning á þjónustu hjúkrunarheimila frá heilbrigðisráðuneyti yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytis varðar þykir mér það miður, og segi það hér og nú, að það mál hafi ekki komið inn til fagnefnda. Ég skil hreinlega ekki hvers vegna það gerðist ekki vegna þess að þetta mál á heima hjá fagnefndum og það ber að fjalla um það hjá fagnefndum. Ég hef ekki sannfærst í þessu máli, ég get ekki séð þau rök sem mæla með því að þessi flutningur verði framkvæmdur.

Hvað kragasjúkrahúsin varðar tel ég mjög hættulegt að fara í flatan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Ég tel að við eigum að taka innan úr því. Það eru miklir hagræðingarmöguleikar á þeim 50 km bletti sem Reykjavíkursvæðið er þar sem við erum með fjölda sjúkrahúsa, og hvert einasta þeirra getur ekki verið sérfræðisjúkrahús. Þess vegna eigum við að taka innan úr kerfinu (Forseti hringir.) og hagræða með þeim hætti, en flatur niðurskurður í heilbrigðiskerfi eyðileggur smám saman mjög viðkvæma þjónustu.