138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:14]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa herhvöt úr munni hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þetta er einmitt tónn sem þarf að heyrast mun oftar í þingsölum, að menn tali sig að niðurstöðu hvar í flokki sem þeir eru. Það getur ekki verið svo að flokkarnir geti ekki komið sér saman um einhverja hluti. Þegar við erum stödd frammi fyrir slíku ógnarverkefni sem við blasir í efnahagsmálum þurfum við sem aldrei fyrr á samstöðu í veigamiklum atriðum að halda. Við getum ekki, og ég endurtek það, farið hranalega í þennan niðurskurð. Við þurfum á niðurskurði að halda en hann getur ekki verið á þeim stöðum sem viðkvæmast er að skera og þar sem kannski verður ekki aftur snúið hvað varðar mjög viðkvæma og sérhæfða þjónustu sem hámenntaðir sérfræðingar höndla með.