138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni skáldlega ræðu og vel uppbyggða þar sem hann fór mjög vítt um sviðið. Ég get þá alveg játað það hér úr ræðustóli að mér þótti hann á stundum vera kominn til liðs við okkur í stjórnarandstöðunni í fjárlaganefnd. Það er vel og því ber að fagna. Ég tók eftir því að hann vildi forðast pólitískar skotgrafir en engu að síður kom fram í máli hans ýmislegt sem má tengja við þær. Hann lýsti því ágætlega við upphaf máls síns að hann hefði orðið fyrir því að verkstjórnin í málefnum fatlaðra 2007 hefði verið með þeim hætti að þegar hann kom á sambýli var ekki til kaffivél og síðan var ekki til kaffi.

Af því tilefni langar mig að spyrja hv. þingmann þeirrar spurningar varðandi verkstjórnina í þessum málaflokki hver hafi verið ráðherra félagsmála árið 2007.