138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega áhrifamikla ræðu sem var kannski einum of leikræn fyrir minn smekk en kom inn á hluti sem eiginlega klingja bjöllum í mínum huga og eru englasöngur, þ.e. um aga í ríkisfjármálum. Fyrir þessu hef ég barist mjög lengi og ég er mjög ánægður með að hv. þingmaður tekur undir það. Hann sagði reyndar að mikil aukning hefði orðið á velferðarmálum, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið velferðarflokkur í 12 ár, hækkað laun kennara og bætur öryrkja og stóraukið fjármagn til málefna fatlaðra.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann fyrst við erum að tala um aga í ríkisfjármálum: Af hverju í ósköpunum er tónlistarhúsið ekki nefnt á nafn? Dettur það af himnum ofan, er enginn að borga það og er engin skuldbinding fólgin í þessu gífurlega mikla mannvirki sem er verið að reisa hérna niður við höfn og menn komast ekki hjá að sjá? Ég hefði viljað kalla það „2007“ eða bara „Eyðslusegg“.