138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:20]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þessa góðu spurningu vegna þess að ég hef í þessum ræðustól áður sett spurningarmerki við smíði og lokafrágang tónlistarhússins við Reykjavíkurhöfn sem nú hefur reyndar fengið nafnið Harpa. Mér finnst forgangurinn þegar kemur að ríkisframkvæmdum ekki vera niðri við höfn, að reisa sér slíkt húsnæði yfir menninguna sem raun ber vitni. Ég tel að þessum fjármunum væri mun betur komið annars staðar, svo sem eins og í þeim öryggisþáttum samfélagsins sem ég nefndi í framsöguræðunni. Ég vek enn og aftur athygli á því að ég hef áður gagnrýnt þessa smíði í þessum ræðustól og tel þetta ekki vera part af því sem við þurfum helst að gera þegar verst árar í efnahag landsmanna.