138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga ársins 2010 sem er eitt af mikilvægari málum á haustþingi sem Alþingi tekur fyrir hverju sinni. Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða, frú forseti, að það frumvarp sem við ræðum hér er það frumvarp til fjárlaga sem hefur hvað verst verið unnið á seinni árum í sögu Alþingis. Af því að formaður fjárlaganefndar þingsins er kominn í salinn vil ég rifja upp þau ummæli hans sem hann viðhafði við fjölmiðla og ég held að ég hafi lesið í einhverju morgunblaðinu í morgun þar sem hv. þingmaður sagði að trúlega hefði fjárlagafrumvarp aldrei verið unnið eins vel og það frumvarp sem við ræðum hér. Ég spyr hv. þm. Guðbjart Hannesson, formann fjárlaganefndar, hvort hann ætli í alvörunni að standa við þessi ummæli sín. Ef svo er er hv. þingmaður því miður að gengisfella sig herfilega í almennri umræðu á Íslandi í dag. Ég tek stórt upp í mig með það og mig langar að nefna hér af hverju ég segi það. Þetta frumvarp er eitt það verst unna sem ég hef a.m.k. upplifað og er þetta sjöunda fjárlagafrumvarp sem ég hef unnið að. Ég bendi hv. þingmanni á að meiri hluti fjárlaganefndar tók málið út án þess að hafa fengið umsögn um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins sem hv. efnahags- og skattanefnd átti að veita. Eftir að meiri hlutanum var bent á að þetta verklag gæti ekki gengið, því að þetta er sá hluti sem snertir innkomuna í ríkissjóð, hætti meiri hlutinn við að taka málið út, tók málið aftur inn og kallaði til sýndarfundar með fulltrúum í efnahags- og skattanefnd sem þá voru reyndar rétt hálfnaðir að hitta þá aðila sem áttu að veita umsögn um tekjuhlið frumvarpsins. Það var til málamynda, stuttum fundi skotið á, og að sjálfsögðu gat nefndin ekki veitt fullnægjandi álit um tekjuhlið frumvarpsins í ljósi þess að við vorum vart búin að hitta helminginn af þeim aðilum sem áttu að veita umsögn um tekjuhlið frumvarpsins. Það voru mikilvægir aðilar, m.a. aðilar vinnumarkaðarins, þar sem allt virðist því miður vera komið í háaloft í samskiptum ríkisins og aðila vinnumarkaðarins eins og ég mun benda á seinna í ræðunni.

Málamyndafundur var haldinn þrátt fyrir að efnahags- og skattanefnd væri ekki búin að klára sína vinnu við það að meta tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Það hefur ekki gerst í mörg ár, frú forseti. Ég man ekki eftir vinnulagi sem þessu og þegar hv. formaður fjárlaganefndar segir í heyranda hljóði við fjölmiðla að trúlega hafi frumvarpið aldrei eða sjaldan verið eins vel unnið og nú vil ég meina að hv. þingmaður fari sannarlega með rangt mál sem hann verður að leiðrétta úr ræðustól Alþingis. Staðreyndin er sú að sé allrar sanngirni gætt getur efnahags- og skattanefnd í raun og veru ekki, meira að segja ekki í dag, lagt mat á það hver áhrifin eru er snerta tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins vegna þess að við erum enn að vinna að því að skoða grundvallarbreytingar á tekjufyrirkomulagi ríkisins sem eru breytingar á skattkerfinu.

Nú skulum við tala um vinnulag, frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sem ég sé glitta í í hliðarsölum lagði til gríðarlegar breytingar, grundvallarbreytingar er snerta íslenskt launafólk, atvinnulíf, íslenskt samfélag, og efnahags- og skattanefndar beið að klára þær á 13 virkum dögum fyrir áramót. Þvílíkt vinnulag. Enda hafa umsagnaraðilar, þá sérstaklega aðilar vinnumarkaðarins, gagnrýnt þetta vinnulag harðlega, að við tölum ekki um endurskoðendur sem vita hversu flókin skattalöggjöfin er. Þeir hafa lýst algjörri andstöðu við þetta vinnulag stjórnarmeirihlutans.

Það er ekkert nýtt að ríkisstjórnin hafi þurft að leita leiða til að auka skatttekjur. Það eru 13 eða 14 mánuðir síðan bankahrunið íslenska varð og það er einfaldlega ekki ásættanlegt að hálfum mánuði, í virkum dögum, fyrir áramót komi það fyrir efnahags- og skattanefnd að breyta lögum um tekjuskatt einstaklinga, tekjuskatt fyrirtækja, virðisaukaskatt, sérstaka tekjuöflun í öðrum flokkum og almennar hækkanir á þeim liðum er snerta innkomu og tekjur ríkissjóðs. Að ætla efnahags- og skattanefnd þennan stutta tíma til að klára það er gjörsamlega óviðunandi. Eftir að hafa hlýtt á hagsmunaaðila vinnumarkaðarins, skattstjóra o.fl. sem hafa unnið í tengslum við íslenska skattkerfið á undangengnum árum vil ég meina að þær grundvallarbreytingar sem hér eru lagðar til í andstöðu við fjölmarga hagsmunaaðila í samfélaginu, sem á að kýla í gegn á nokkrum dögum — ég ætla að segja að vinnubrögð sem þessi eru aðför að innviðum íslensks samfélags. Þetta eru stór orð, en ég segi þau hér vegna þess að Alþýðusamband Íslands hefur fordæmt samráðsleysi ríkisstjórnarinnar við vinnslu þessa frumvarps. Samtök iðnaðarins hafa gert það líka og Samtök atvinnulífsins, og við okkur í stjórnarandstöðunni sem erum fyrir löngu orðin vön því að hæstv. ríkisstjórn hlusti ekkert á okkur hefur heldur ekkert samráð verið haft.

Ég hef því miður afskaplega takmarkaðan tíma til að fara yfir þessar umfangsmiklu breytingar sem ríkisstjórnin leggur til en ég ætla að gera það eins vel og ég get á einungis 30 mínútum. Við erum að tala um mál sem snertir grundvallargerð íslensks samfélags, um það hvernig við ætlum að rísa úr öskustónni og hefja nýja sókn hér á landi, sókn fyrir atvinnulífið, fjölgun starfa þannig að það verði búsældarlegt á Íslandi framtíðarinnar. Það sem ríkisstjórnin leggur hér til og snertir tekjuöflun ríkissjóðs og mig langar að gera að umtalsefni, enda er ég í efnahags- og skattanefnd þingsins, er að verið sé að fara úr því staðgreiðslukerfi sem Íslendingar hafa búið við frá því á 9. áratug síðustu aldar, einu einfaldasta og gegnsæjasta skattkerfi í heimi þar sem 90% af launamönnum hafa einungis þurft að ýta á „enter“-takkann þegar skattframtalið hefur komið með rafrænum pósti. Við höfum á síðustu 2–3 árum næstum náð fullkomnum árangri í þessu kerfi er varðar auðvelt aðgengi og skilning almennings á kerfinu. Þessu kerfi á að varpa fyrir róða og til þess að umbylta því á að verja 150–200 millj. af íslensku skattfé. Það væri ágætt ef formaður fjárlaganefndar gæti upplýst okkur um það, og hæstv. heilbrigðisráðherra sem er hér, hvort ekki hefði mátt nota þessar 200 millj. til að efla starfsemina á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Hvað er verið að fara út í, algjörlega án samráðs við aðila vinnumarkaðarins og stjórnarandstöðuna? Það á bara að gera þetta á nokkrum dögum, nokkrum dögum fyrir áramót. Þessum vinnubrögðum hafna ég algjörlega og við höfum rökstutt það í efnahags- og skattanefnd að það væri hægt að ná svipuðum árangri í núverandi tekjuskattskerfi einstaklinga með því að hækka persónuafsláttinn og hækka tekjuskattsprósentuna. Við getum svo, án þess að ég vilji útiloka einhverjar breytingar á íslensku skattkerfi, tekið næstu mánuði í samráði við aðila vinnumarkaðarins, okkar helstu skattkerfissérfræðinga, til að fara mjög vandlega ofan í það hvernig við viljum breyta þessu kerfi. Nei, ríkisstjórnin hlustar ekki á það. Þetta skal í gegn á örstuttum tíma. Þurfum við að rifja það upp hér, hv. þingmenn, hvernig síðustu 13–14 mánuðir hafa verið í störfum Alþingis? Frumvörpin hafa komið inn í sali þingsins á leifturhraða undir mikilli tímapressu,. þingmönnum verið stillt upp við vegg og menn skulu gjöra svo vel og afgreiða viðkomandi mál á eins stuttum tíma og hægt er.

Hver hefur afleiðing þess verið? Fjölmörg mistök höfum við gert í lagasetningu á Íslandi á umliðnum mánuðum, og hverjir munu bera skaðann af því, af þeim mistökum sem við erum að gera vegna þess að tíminn sem við ætlum okkur í að vinna mikilvæg mál er svo stuttur? Það er íslenskur almenningur. Það eru framtíðarkynslóðir okkar Íslendinga og er þá rétt að minnast þess hvernig stjórnvöld hafa haldið á umdeildu Icesave-máli frá upphafi vega, frú forseti.

Í ljósi þess að íslenskir skattborgarar munu fara að greiða skattinn eftir á er það sannað, og kerfið frá 1986 hefur sannað það, að heimturnar í eftirágreiðslukerfinu í stað staðgreiðslukerfis eru miklu minni. Með því að fjölga skattþrepum líkt og í virðisaukanum og í tekjuskattinum eigum við á hættu mun meiri skattundanskot en við höfum upplifað í núverandi kerfi. Hvað þýðir þetta fyrir ríkissjóð? Hvað þýðir það að heimtur í eftirágreiddum sköttum verða mun minni fyrir ríkissjóð, að undanskot verði miklu meiri vegna þess að kerfið er flóknara? Þetta mun einfaldlega þýða að milljarðar munu tapast sem annars hefðu farið í ríkiskassann til að reka velferðarsamfélag okkar. Er það norræn velferðarstjórn sem hér hefur tekið við sem hagar málum með þessum hætti? Ég mótmæli þessum vinnubrögðum og við erum ekki ein í því í stjórnarandstöðunni. Ég ætla að fara aðeins yfir það að Samtök atvinnulífsins hafa mótmælt þessu mjög harðlega og Vilhjálmur Egilsson segir m.a. í pistli á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins, með leyfi forseta:

„Því miður hefur ríkisstjórnin oft verið að vinna gegn sinni eigin stefnu og þannig komið fram sem sinn versti óvinur.“ Síðan segir, með leyfi forseta: „Mikil vinna fór í að ná niðurstöðu um það hvernig tekjuöflun ríkisins frá atvinnulífinu skyldi háttað og náðist mikill árangur í því þrátt fyrir að út af standi t.d. nýtt virðisaukaskattsþrep sem er óásættanlegt. […]

Nú hefur komið nýtt útspil frá ríkisstjórninni í skattamálum þar sem hún hyggst á nokkrum dögum nánast samráðslaust keyra í gegn veigamiklar breytingar á skattareglum atvinnulífsins. Nokkrar þessar breytingar eru afar skaðlegar og draga þannig úr tekjuöflunarhæfni skattkerfisins til lengri tíma.“

Að lokum segir Vilhjálmur Egilsson, með leyfi frú forseta:

„Samtök atvinnulífsins geta vart annað en litið svo á að ríkisstjórnin sé að vísa þeim frá stöðugleikasáttmálanum verði þessi mál knúin fram í fullkominni ósátt. En hvort ríkisstjórnin vill eiga samstarf við Samtök atvinnulífsins eða ekki er í sjálfu sér aukaatriði miðað við það stóra hagsmunamál að starfsskilyrði atvinnulífsins verði með þeim hætti að Íslendingar komist út úr kreppunni á næsta ári en þurfi ekki að búa við hana til margra ára.“

Frú forseti. Alþýðusamband Íslands gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir þetta vinnulag og það samráðsleysi sem blasir við okkur. Mig langar að taka niður í orð Gylfa Arnbjörnssonar sem komu fram á mbl.is, með leyfi frú forseta:

„Nú hefur komið í ljós, að ríkisstjórnin hafði fyrir löngu ákveðið að taka ekkert tillit til afstöðu ASÍ, brjóta gegn ákvæðum gildandi kjarasamninga og svíkja þar með yfirlýsingar fyrri ríkisstjórna. Það er áleitin spurning fyrir okkur hvaða gildi slíkir samningar hafa. […] Í raun er verið að undirstrika að það sé mjög varasamt fyrir launafólk að treysta á aðkomu stjórnvalda við gerð kjarasamninga — slíkt sé stundarfyrirbrigði sem hafi lítið langtímagildi. Þetta er mikið hættuspor að mínu mati. Með þessu er ekki einungis verið að brjóta áratugalanga hefði fyrir nánu þríhliða samstarfi um mótun og viðhald stöðugleika heldur hitt að áframhaldandi samstarf er sett í uppnám …,“ segir Gylfi.

Frú forseti. Okkur hlýtur öllum að vera það ljóst í ljósi orða þessara aðila sem skipta svo miklu máli þegar kemur að þjóðarsátt og uppbyggingu íslensks atvinnulífs til lengri tíma litið að ríkisstjórnin teflir með þessu framferði sínu hér þeirri uppbyggingu sem við mörg viljum sjá í íslensku samfélagi í hættu, og það einfaldlega með samráðsleysi, samráðsleysi og aftur samráðsleysi. (Fjmrh.: Já?) Ég heyri að hæstv. fjármálaráðherra segir já við því, enda er það rétt, samráðsleysi við okkur í stjórnarandstöðu hefur verið algert og samráðsleysi við helstu hagsmunaaðila á vinnumarkaði er með þeim hætti að Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson hafa á síðustu dögum gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega. Er þetta einhver tilviljun? Nei, þetta er engin tilviljun, frú forseti.

Að lokum langar mig að nefna pistil frá 14.12. eftir Helga Magnússon, formann Samtaka iðnaðarins. Þar segir, með leyfi frú forseta:

„Stórtæk áform ríkisstjórnarinnar um mestu skattahækkanir síðustu áratuga brenna nú á okkur Íslendingum.

Ef við stóraukum skatta í kreppu þá lengjum við kreppuna og dýpkum hana. Það er mjög hættulegt að þyngja um of skattbyrði fólks og fyrirtækja á tímum síminnkandi ráðstöfunartekna. Keðjuverkunaráhrifin í ranga átt eru mikil og mér er til efs að stjórnvöld hafi metið þau til fulls í útreikningum sínum.“

Síðar segir, með leyfi frú forseta:

„Ég vil fremur sjá vaxtarstefnu og aukna verðmætasköpun sem skilar auknum tekjum í sameiginlega sjóði en ekki kyrkjandi ráðstafanir sem draga okkur niður sem þjóð í stað þess að stýra okkur upp úr kreppunni. Ég vil fremur sjá ný störf sem skila skatttekjum og draga úr kostnaði við atvinnuleysisbætur heldur en að fyrirtæki neyðist til að segja upp fólki vegna ósanngjarnrar og íþyngjandi skattlagningar.“

Að lokum segir Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, með leyfi frú forseta:

„Þá er brýnt að menn geri sér ljóst að boðaðar fyrirvaralausar skattkerfisbreytingar munu valda glundroða við skattaframkvæmd á næsta ári.

Fórnum ekki einföldu skattkerfi fyrir vanhugsaða hugmyndafræði.“

Það er þungt í manni eftir að hafa setið á fundum í efnahags- og skattanefnd í tugi klukkustunda undir því að heyra málflutning af þessu tagi þegar ríkisstjórnin segist í hinu orðinu hafa víðtækt samráð við aðila vinnumarkaðarins. Hér er hlutunum gjörsamlega snúið á haus og ég held að ríkisstjórnin verði að taka sér tak, setjast niður með okkur í minni hlutanum sem höfum ekkert fengið að koma að þeirri hugmyndafræði sem hér er rætt um, og jafnframt að setjast niður með þeim aðilum sem gerðu stöðugleikasáttmálann, þ.e. Samtökum atvinnurekenda, sveitarfélögunum og launafólki sem gerðu samstarfssamning um stöðugleika við ríkisstjórnina sem ríkisstjórnin hefur þverbrotið. Þá vil ég segja sérstaklega í þeim efnum að þær skattálögur sem fjárlagafrumvarp næsta árs felur í sér eru u.þ.b. 50 milljarðar kr. á fyrirtæki og heimilin í landinu.

Mér er til efs, frú forseti, að heimilin og stórskuldug íslensk fyrirtæki séu undir það búin að greiða þennan dýra reikning. Í því samhengi, frú forseti, langar mig að vitna til mjög vandaðrar umsagnar Hagsmunasamtaka heimilanna. Hagsmunasamtök heimilanna hafa m.a. talað fyrir leiðréttingu á lánum skuldugra íslenskra heimila. Það höfum við framsóknarmenn líka gert. Ríkisstjórnin hefur á undangengnum mánuðum beitt sér gegn því að sú hugmyndafræði næði í gegn. Við höfum talað fyrir því að það væri svigrúm til að koma til móts við skuldug íslensk heimili, og hvað kemur nú á daginn? Arion banki býður íslenskum almenningi skuldaleiðréttingu af húsnæðislánum sínum vegna þess, eins og við framsóknarmenn sögðum allan tímann, að það var og er svigrúm til að koma til móts við skuldug íslensk heimili. Maður veltir því í alvörunni fyrir sér hver framtíðarsýn stjórnvalda sé gagnvart heimilunum í landinu.

Mig langar að grípa niður í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem talað er um að þau verðlagsáhrif sem skattahækkanir ríkisstjórnarinnar muni hafa á skuldir íslenskra heimila á næsta ári muni hækka skuldir heimilanna um 11.900 millj. kr. Er það nú ekki á bætandi, frú forseti, þar sem íslensk heimili eru ein þau skuldugustu í heiminum.

Mig langar að vitna í þessa umsögn, með leyfi frú forseta:

„Það er mat Hagsmunasamtaka heimilanna að nærri helmingur heimila beri ekki auknar álögur vegna verulegrar kaupmáttarskerðingar og gríðarlegra hækkana á höfuðstól skulda. Hagsmunasamtök heimilanna hafa fullan skilning á aukinni tekjuöflunarþörf ríkisins í þessari stöðu en það er algjört forgangsverkefni að rjúfa bein tengsl skatta og verðlagsbreytinga við þróun höfuðstólshækkana lána heimilanna vegna áhrifa á verðbætur.

Allir þeir þættir sem fjallað er um munu með beinum eða óbeinum hætti leiða til hækkunar á höfuðstól verðtryggðra lána heimilanna og koma þannig af tvöföldum þunga við heimili landsins, bæði til skerðingar á kaupmætti og leiða til hækkana á lánum heimilanna, sem er ólíðandi fyrir heimilin og til verulegs tjóns fyrir hagkerfið í heild.“

Áfram segir, frú forseti:

„Það er skoðun Hagsmunasamtaka heimilanna að það sem hagkerfið þarf sé aukin innanlandseftirspurn. Allar tillögur ríkisstjórnarinnar virðast miða að því að draga úr þessari eftirspurn. Sjá samtökin fyrir sér að samdrætti fylgi aukinn samdráttur þar sem minni innanlandseftirspurn dregur úr veltu fyrirtækja og leiðir af sér fækkun starfa. Hvort tveggja veldur minni skatttekjum fyrir ríki og sveitarfélög, þessi hringur endurtekur sig svo lengi sem innanlandseftirspurnin dregst saman.“

Þetta eru eðlilegar áhyggjur sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa af þeim áformum sem ríkisstjórnin leggur hér upp í með tugmilljörðum í aukna skatta og álögur á heimili og fyrirtæki.

Við höfum bent á leiðir sem við vildum skoða að fara sem aðrir stjórnmálaflokkar hafa einnig bent á, eins og að skoða hvort ekki beri að skattleggja inngreiðslu séreignarsparnaðar og lækka þannig álögurnar með einhverjum hætti á heimilin og fyrirtækin, lækka þann mikla reikning upp á 50 milljarða kr. sem blasir við þessum aðilum á næsta ári. Ég vek athygli á því í þessu samhengi að vextir af Icesave-samningunum eru ríflega 40 milljarðar kr. þegar við tökum heildarsamhengi hlutanna til skoðunar. Ekki er því óeðlilegt að við á hv. Alþingi viljum skoða alla möguleika þess hvernig unnt sé að íslensk þjóð komi sem hagstæðast út úr þeim samningaviðræðum þar sem samninganefndir ríkisstjórnarinnar hafa því miður ekki náð tilhlýðilegum árangri. Okkur í stjórnarandstöðunni hefur algjörlega verið haldið utan við þær viðræður sem þar hafa farið fram.

Ég vil líka með skattkerfisbreytingum horfa til þess að við myndum gegnsætt, einfalt og réttlátt skattkerfi. Hvaða réttlæti er í því ef áform ríkisstjórnarinnar ganga fram að hjón sem búa í sömu götu, búa í húsum hlið við hlið og hafa nákvæmlega sömu tekjur, að önnur hjónin þurfi að greiða hærri skatt en hin hjónin, fólk sem býr hlið við hlið? Það er allt vegna þess að á öðru heimilinu er karlmaðurinn heimavinnandi og konan með ágætar tekjur en á heimilinu við hliðina eru báðir aðilarnir útivinnandi og millitekjufólk. Nei, þá fara þau hjón verr út úr skattkerfinu þó að þau séu með nákvæmlega sömu tekjur þar sem einungis annar aðilinn er úti á vinnumarkaðnum.

Hvers lags réttlæti er í þessu? Er þetta hin norræna félagshyggjustjórn sem gumar sig alltaf af velferðinni og réttlætinu? Það er ekkert réttlæti að hjón með sams konar tekjur séu meðhöndluð ólíkt af skattinum, það er ekkert réttlæti í því. Það eina sem við förum fram á í þessari umræðu er að vera höfð með í ráðum. Við útilokum ekkert að koma til móts við ríkisstjórnina í þeim efnum, að auka skatttekjur með einhverjum hætti, en að umbylta skattkerfinu á einungis nokkrum dögum með ófyrirséðum afleiðingum er Alþingi Íslendinga ekki samboðið og ekki íslensku þjóðinni. Við þurfum að innleiða vinnubrögð á hv. Alþingi þannig að þinginu sé sýndur einhver sómi. Það eru 13 eða 14 mánuðir síðan efnahagshrunið átti sér stað og það að fá skattbreytingatillögur ríkisstjórnarinnar örfáum dögum fyrir áramótin er náttúrlega ekki viðunandi. Það er ekki boðlegt gagnvart okkur í stjórnarandstöðunni og það er ekki boðlegt gagnvart þeim aðilum sem hafa reynt að semja við ríkisstjórnina á undangengnum mánuðum eins og aðilar vinnumarkaðarins sem hafa því miður verið sviknir um það samráð sem þeim var lofað.

Frú forseti. Eins og ég segi fyndist mér það vel koma til greina — reyndar hefur bara gefist of lítill tími til að fara heildstætt yfir þessi mál — að við sammæltumst hér um þriggja ára áætlun um tekjur ríkissjóðs sem væri þá sambland af því að nýta á hverju ári eða dreifa á þrjú ár þeim tekjum sem gætu komið af skattlagningu á inngreiðslu séreignarsparnaðar og einhverra annarra skattahækkana. Ríkisstjórnin hefur enga tilraun gert til að nálgast okkur í stjórnarandstöðunni til að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þessi vinnubrögð eru óásættanleg. Í Reykjavíkurborg, þar sem meiri hluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er, get ég ekki betur séð en að það sé ágætt samstarf á milli meiri hluta og minni hluta, til að mynda þegar kemur að fjárhagsáætlunargerð. (GuðbH: Betri minni hluti.) Í mörgum öðrum sveitarfélögum vinna meiri hlutar og minni hlutar sameiginlega að fjárhagsáætlunargerð og þar ná menn einhverri niðurstöðu.

Nei, hér skal meirihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar ráða þessu ein, skítt með það sem stjórnarandstaðan segir hér, hvað þá Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands eða Samtök iðnaðarins. Er það nokkuð undarlegt þótt það sé farið að fjara undan þessari ríkisstjórn? Ríkisstjórn sem viðhefur vinnubrögð af þessu tagi verður aldrei langlíf og af skrifum aðila vinnumarkaðarins sýnist mér að framtíðarsátt á innlendum vinnumarkaði sé ógnað með þessu framferði ríkisstjórnarinnar. Því segi ég enn og aftur: Þetta háttalag og þessar starfsaðferðir eru aðför að innviðum íslensks samfélags á þeim tímum þar sem við höfum aldrei, hæstv. heilbrigðisráðherra, þurft eins mikið á samvinnu að halda í íslensku samfélagi, hvort sem það er í þessum sal eða á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin getur haldið áfram að vera í sínum draumaheimi, í sínu einræði og fara sínu fram alveg sama hvað tautar og raular. En staðreyndirnar tala sínu máli. Aðilar vinnumarkaðarins hafa megnustu óbeit á því hvernig ríkisstjórnin hefur hagað störfum sínum að undanförnu og ríkisstjórnin verður að gera svo vel að fara að taka sér tak og fara að hlusta á fólkið í landinu.

Að lokum bendi ég á þann regingalla sem mér finnst vera, sem er reyndar ákveðin málamiðlun hjá aðilum vinnumarkaðarins, þessa miklu hækkun á tryggingagjaldinu sem m.a. hefur það í för með sér að íslensk sveitarfélög þurfa að greiða 2 milljarða aukalega til ríkissjóðs vegna þeirrar hækkunar, sveitarfélög sem mörg hver eru að reyna að koma í gegn fjárhagsáætlun. Oftar en ekki voru meiri hlutinn og minni hlutinn að vinna að því saman en nú er ljóst að með því að hækka tryggingagjaldið þurfa sveitarfélögin að greiða 2 milljarða aukalega. Mér heyrðist á hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fjárlaganefndarmanni í dag að hann teldi sig hafa vissu fyrir því að fjármálaráðherra hefði lofað að koma til móts við þennan kostnað sem sveitarfélögin yrðu fyrir.

Nú sé ég að hv. þingmaður er í salnum og hann má gefa mér smávink ef þetta er rétt eftir haft. Og svo er rétt. Þá spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Á að bæta sveitarfélögunum sem mörg hver berjast í bökkum, geta varla haldið úti skólaþjónustu, grunnþjónustu í sveitarfélögum sínum, þetta tekjutap líkt og hæstv. fjármálaráðherra hefur áður gefið í skyn? 8,6% tryggingagjald er gríðarlega há skattlagning á íslenskt atvinnulíf. Ef við horfum á stöðu margra millistórra fyrirtækja í dag, já, og þar sem vinnur fjöldi fólks, er verið að leggja aukalega gríðarlegar álögur á atvinnulífið í landinu á mjög erfiðum tímum. Þess vegna hefur mér dottið í hug, án þess að sú umræða hafi verið leidd til lykta, hvort mögulega mætti lækka þetta tryggingagjald með því að nota hluta af skattlagningu inngreiðslu séreignarlífeyrissparnaðarins til að íslenskt atvinnulíf geti veitt fleiri Íslendingum störf á næsta ári. Það er spáð að atvinnuleysi nái hámarki á næsta ári, 10,6%, sem er náttúrlega allt of mikið atvinnuleysi. Við verðum, frú forseti, að gera allt til að stuðla að sókn á íslenskum vinnumarkaði til að fjölga störfunum í þessu landi. Ef það verður ekki gert er hætta á að fólk leiti annað, til annarra landa rétt eins og þetta ár hefur sýnt okkur þar sem fjöldinn allur af Íslendingum hefur flutt burtu, sérstaklega til Norðurlandanna til að starfa þar. Við þurfum að koma í veg fyrir þetta.

Frú forseti. Mig langar líka að ræða um bensíngjaldið sem verið er að hækka enn eina ferðina og hvenær verði komið nóg í þeim efnum. Á landsbyggðinni þar sem ég þekki sérstaklega til er bíllinn einfaldlega fætur fólks. Fólk þarf að fara langar vegalengdir og er upp á samgöngur komið. Þar eru ekki almenningssamgöngur og þar þarf fólk til sjávar og sveita að reiða sig á einkabílinn. Það er enn og aftur seilst í vasa þessa fólks með því að hækka olíuna og bensínið. Einhvers staðar liggja þessi mörk og í raun og veru er þessi hækkun ekkert annað en skattur, m.a. flutningsskattur á landsbyggðina, og það er gaman að horfa framan í hv. þm. Guðbjart Hannesson sem hefur í undangengnum kosningum talað fyrir því að lækka þennan kostnað. Hér er hins vegar beinlínis verið að hækka eldsneytisverð á heimilin, jafnt á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður á landsbyggðinni. Það er því eðlilegt að spurt sé, og það væri ágætt ef hv. þm. Guðbjartur Hannesson gæti svarað því, hvar mörkin liggi. Hvar á bensínlítrinn að enda? Í 200 kr., 250 kr., 300 kr.? Hvar endar þetta? (GuðbH: Hann er kominn langt …) Við verðum, frú forseti, að fara að setjast niður og horfa á heildarsamhengi hlutanna, hvernig þessar skattahækkanir koma út fyrir heimilin í landinu.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um daginn og fékk ekki svar við því hvort þeir hefðu gert úttekt á því hvort íslensk heimili gætu staðið undir öllum þessum hækkunum á sköttum og gjöldum sem nú eru í sigtinu. Mér er til efs að almennt séð verði það hægt. Þetta eru slíkar ofurhækkanir ofan á mjög erfitt landslag sem blasir við okkur hér.

Að allra síðustu, frú forseti, vek ég athygli á því aftur að hér er að öllu óbreyttu verið að kasta fyrir róða mjög einföldu kerfi þar sem hægt hefði verið að hækka persónuafsláttinn allverulega og skattprósentuna og ná þannig svipuðum árangri og það kerfi sem hér er lagt til að taki gildi í miklum flýti. Mig langar að grípa niður í umsögn ríkisskattstjóra um skattalegu hliðina á fjárlagafrumvarpinu sem er tekjuhliðin, með leyfi frú forseta:

„Ríkisskattstjóri vekur athygli á að upptaka á nýju virðisaukaskattsþrepi, 14%, eykur flækjustigið við framkvæmd laganna og eykur hættu á mistökum við tekjuskráningu, fyrst og fremst við innslátt í sjóðsvél. Þá aukast jafnframt möguleikar á undanskotum vegna freistingar til að færa veltu í lægsta þrep virðisaukaskatts. Allt eftirlit verður því erfiðara en ella.“

Eins og ég minntist á áðan verður kostnaðarauki ríkissjóðs af þessari breytingu sem á að gera í miklum flýti 150–200 millj. kr.

Mig langar líka að vitna í umsögn skattstjóra Suðurlandsumdæmis þar sem segir m.a., með leyfi frú forseta:

„Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar séu á virðisaukaskattskerfinu þurfi aðlögun á tölvukerfum og kerfishlutum skattsins, og að útbúa þurfi ný framtalseyðublöð. Einnig að leggja þurfi í auglýsinga- og kynningarkostnað við kerfisbreytinguna.

Bent er á að skattkerfið verður nokkuð flóknara eftir breytinguna en nú og að vinna við skattframkvæmd og eftirlit verði eitthvað umfangsmeiri en nú er.“

Að lokum segir Steinþór Haraldsson, skattstjóri Suðurlandsumdæmis:

„Þeim fylgir veruleg hætta á skattundandrætti og ýmis óvissa fyrir gjaldendur, sem og erfiðleikar fyrir þá sem gæta þurfa reglna á vettvangi skattamálanna.“

Frú forseti. Hér hafa okkar færustu sérfræðingar, skattstjórar um landið, ríkisskattstjóri, bent á að það frumvarp sem fylgir fjárlagafrumvarpinu, þ.e. tekjuöflun þess, um að gera miklar breytingar á skattkerfinu muni kosta íslenska skattborgara 150–200 millj. kr. Samfélagslegur kostnaður fyrirtækja og heimilanna mun skipta milljörðum króna, fullyrði ég, þær kerfisbreytingar sem hér um ræðir og þau áhrif sem minni innkoma í ríkissjóð mun hafa vegna kerfisbreytingarinnar. Nú getur vel verið að hæstv. fjármálaráðherra sé ósammála þessu, en fram hefur komið hjá þeim aðilum sem hafa komið á fund efnahags- og skattanefndar að þetta sé einfaldlega staðreynd málsins. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Geta menn ekki sæst á að falla frá þessari breytingu, að hún verði unnin betur fram eftir vormánuðum í tengslum við helstu sérfræðinga í þessum efnum og að við náum þeim áformum sem ríkisstjórnin ætlast til í núverandi skattkerfi? Er engin leið að hæstv. fjármálaráðherra geti fallist á það í ljósi þess hrikalega litla tíma sem við höfum til að innleiða þessar breytingar?

Mig langar að lokum að vitna aftur til þess ágæta manns, Steinþórs Haraldssonar, sem er skattstjóri Suðurlandsumdæmis, þar sem hann segir um þrepaskiptan tekjuskatt og hækkun persónuafsláttar, með leyfi frú forseta:

„Hin fjögur skattþrep sem hér eru boðuð munu hafa í för með sér alls kyns flækjur og skattframkvæmdin verður dýr í rekstri.“

Síðan segir:

„Eftirákröfur og umsýsla þeim fylgjandi eru þreytandi og á margan hátt jafnvel mannskemmandi og alls ekki í anda þess velferðarkerfis sem hér tjáðist ríkja.“

Frú forseti. Þetta hefur verið nokkuð hörð ræða, ég skal játa það. Það er búið að vera gríðarlegt álag í efnahags- og skattanefnd og það hefur verið rauður þráður hjá þeim aðilum sem hafa veitt umsögn um þetta mál að hér sé verið að gera kerfið ógagnsærra og flóknara, sem muni að öllum líkindum skila ríkissjóði minni tekjum en ella og muni kosta skattgreiðendur gríðarlega fjármuni úr ríkissjóði við að innleiða. (Forseti hringir.) Þá er ósköp eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra sé spurður nokkurra spurninga hér (Forseti hringir.) í þessari umræðu þegar maður fjallar um tekjuhlið fjárlagafrumvarps ársins 2010.