138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson beindi til mín fyrirspurn í upphafi máls síns. Honum kom á óvart að ég hefði komið með yfirlýsingu um að aldrei hefði verið betur unnið að fjárlagafrumvarpi en núna eða a.m.k. hefði það verið með betra móti. Hann sá ástæðu til að vefengja þetta og kannski hefur hann upplýsingar um það frá sínum fulltrúa í fjárlaganefnd.

Það sem ég átti við, og skýrði m.a. í ræðu minni hér í byrjun, er að það var óvenjulegt á þessu ári að unnin var mikil undirbúningsvinna og gerð skýrsla um ríkisfjármálin og jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013. Þessi skýrsla var lögð fram á Alþingi, hún var rædd og skapaði raunar forsendur fyrir fjárlagafrumvarpið. Það er í fyrsta skipti sem það er gert, a.m.k. í mjög langan tíma. Þessu til viðbótar var haft mjög víðtækt samstarf í sambandi við stöðugleikasáttmálann og mikil vinna lögð í það. Mér er líka til efs að slík vinna hafi átt sér stað með svipuðum hætti, a.m.k. á síðastliðnum árum. Það var þetta sem ég vísaði til þegar ég talaði um að hér hafi verið betur unnið.

Það er rétt sem þingmaðurinn segir að sum af þeim frumvörpum sem hér komu fram varðandi skatttekjurnar komu seint fram og það hefur m.a. verið skýrt af hverju, þar sem hér varð löng umræða um annað mál. Varðandi afgreiðslu fjárlaganefndar er það rétt hjá hv. þingmanni að við tókum málið til afgreiðslu tvisvar sinnum. Það er alvanalegt og það hefur verið staðfest af þeim sem hafa lengri reynslu. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Birkir Jón Jónsson geti staðfest að menn hafa stundum og nokkuð oft komið með tekjuhluta fjárlagafrumvarps beint inn í 3. umr. Það höfðum við ætlað okkur að gera að þessu sinni til þess að flýta fyrir en þurftum síðan ekki á því að halda þar sem umsagnir frá efnahags- og skattanefnd lágu fyrir. Málið var því afgreitt með eðlilegum hætti til 2. umr með (Forseti hringir.) þeim tekjuáætlunum sem lágu fyrir miðað við þau frumvörp sem liggja fyrir.