138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:58]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að höggva í sama knérunn nema ég ætla að fara frá hinu opinbera og kostnaðinum sem fellur á það og líta til fyrirtækjanna. Við fengum á fund til okkar félagsskap sem heitir Félag viðurkenndra bókara, eða eitthvað á þá leið, og þar voru tvær mætar konur sem bentu á að launakerfi fyrirtækja þyrfti að uppfæra í kjölfar þessarar innleiðingar á þrepaskatti. Þær mátu það svo að uppfærslan á slíku kerfi mundi kosta u.þ.b. 100 þús. kr. á hvert fyrirtæki sem er með tölvukeyrt launabókhald. Það er einfalt að sjá fyrir sér að ef u.þ.b. 2.000 fyrirtæki eru með svoleiðis launabókhald er kostnaðurinn bara við uppfærslu á tölvukerfinu í kringum 200 milljónir. (Forseti hringir.) Það er á engan hátt gerð grein fyrir því í neinum greinargerðum með frumvarpinu (Forseti hringir.) hvaða kostnaður leggst á atvinnulífið. Telur hv. þingmaður að það sé eðlilegur (Forseti hringir.) framgangsmáti að leggja málið svona fram?