138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hvað varðar fundarstjórn forseta fannst mér þetta inngrip með bjölluslætti nú rétt áðan mjög sérkennilegt. En í ljósi þeirra umræðna sem eru að verða undir þessum lið, herra forseti, um áhyggjur fulltrúa í efnahags- og skattanefnd, þá er eftir því sem ég best veit — best að hafa það alveg á hreinu — ágætt samkomulag um það hvernig málin eru unnin í fjárlaganefnd, því hefur verið komið í þokkalegan farveg. Mjög mikilvægt er, herra forseti, að efnahags- og skattanefnd verði ekki til þess að hleypa upp því samkomulagi sem gert var um það að setja Icesave-umræðuna í ákveðinn farveg.

Ég vil beina því til herra forseta að hann beiti sér fyrir því að þessu verði kippt í liðinn því að ég trúi því, herra forseti, að um sé að ræða einhvers konar misskilning sem hægt er að eyða með einföldum hætti. Ef ekki er mikilvægt að hv. formaður efnahags- og skattanefndar útskýri málið.