138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:35]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir fjárlaganefnd að það samkomulag sem gert var á milli stjórnar og stjórnarandstöðu verði uppfyllt í hvívetna og mjög mikilvægt að hv. efnahags- og skattanefnd fái tækifæri til að fara yfir þau álitaefni sem fjárlaganefnd fól henni að taka til athugunar nú milli umræðna.

Ég verð að viðurkenna að það tók töluverðan tíma fyrir fjárlaganefnd að koma erindi sínu til efnahags- og skattanefndar eftir að samkomulag var gert á mánudagskvöldið. Ég hygg að bréfið hafi borist efnahags- og skattanefnd á fimmtudag eða föstudag. Þar fór því miður tími til spillis en það er alveg klárt að þegar samkomulagið var gert var það í ljósi þess að efnahags- og skattanefnd hefði tök á því að fara rækilega yfir þau álitaefni sem að henni snúa.

Ég sit í fjárlaganefnd og við berum miklar vonir í brjósti um að efnahags- og skattanefnd fái tækifæri til að koma með (Forseti hringir.) vitræna og vel ígrundaða niðurstöðu.