138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:41]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fjárlög fyrir árið 2010, fjárlög næsta árs, en segja má að það hafi ekki verið nein venjuleg fjárlagagerðarsmíð sem sú fjárlaganefnd sem nú situr hefur þurft að taka að sér. Eins og hefur mátt skilja á ræðum sumra þingmanna, sem hér hafa talað á undan mér, hafa margir þeirra áhyggjur af því að núverandi ríkisstjórn geri með þeim tillögum sem hér koma fram fjárhagsstöðu fjölskyldna, atvinnufyrirtækja og þjóðarbúsins erfiðari en þyrfti að vera.

Hæstv. forseti. Við erum í pólitík vegna þess að við höfum mismunandi lífssýn, mismunandi skoðanir, mismunandi áherslur og mismunandi stefnu og setjum þar af leiðandi mismunandi áherslur inn í fjárlögin. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur lagt á það áherslu, eins og hægt er með fjárlagagerð, að koma á meiri jöfnuði, koma á meira réttlæti, reyna eftir fremsta megni að reisa efnahagslífið við, verja hag fjölskyldna og verja velferðarþjónustuna. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Það sem ríkisstjórnin gerði aftur á móti ekki, og þá allra síst sú hreyfing sem ég starfa fyrir og er þingmaður fyrir, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, var að eiga aðild að því hruni sem við erum að reyna að koma þjóðinni upp úr. Það er verkefni okkar að koma þjóðinni í gegnum þá erfiðleika sem við blasa og að því verkefni ættum við öll að standa, sama hvar í flokki við erum. Þó svo að við höfum mismunandi skoðanir á því hvernig eigi að gera það, hvaða leiðir eigi að fara, tel ég það vera siðferðislega skyldu okkar, sama hvar í flokki við erum, að standa saman í því að lýsa skoðunum okkar og greiða síðan fyrir því að sitjandi ríkisstjórn geti komið áhersluatriðum sínum í gegn og unnið að þeim. Það er ábyrg pólitík að mínu mati.

Hrunið kom skyndilega, það skall í andlitið á okkur. Aftur á móti þýðir ekkert að tala um það að við eigum að lifa í fortíðinni. Við verðum að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem hefur bent okkur á afleiðingar þeirrar efnahagsstjórnunar sem ríkti hér um árabil. Ef við rifjum það ekki upp reglulega og förum yfir það er hætt við því að við endurtökum sömu mistökin. Það voru gerð mistök, hér ríkti mikil frjálshyggja, það ríkti mikil markaðshyggja, það var pólitísk stefna að hafa afskipti og eftirlit hins opinbera í lágmarki. Það greip um sig ákveðin mikilmennska í þjóðfélaginu, oftrú á snilld okkar Íslendinga. Við blinduðumst í græðgi og við eigum að muna eftir því og læra af því. Við eigum að koma okkur niður á jörðina, viðurkenna hvar við stöndum, viðurkenna þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, viðurkenna að við þurfum að ná jafnræði í ríkisbúskapnum á mjög skömmum tíma — of skömmum tíma að mínu mati, en það er það sem við verðum að gera. Við höfum svo aftur mismunandi sýn á það hvernig við eigum að ná því.

Núverandi ríkisstjórn og stjórnarflokkar hafa valið að fara blandaða leið, þ.e. að hækka skatta og draga úr ríkisútgjöldum. Hv. formaður fjárlaganefndar hefur gert grein fyrir fyrirhuguðum skattabreytingum og tekjustofnum og undirstöðum fjárlaga þannig að ég ætla ekki að fara yfir það.

Hæstv. forseti. Ljóst er að framlög til heilbrigðismála eru drjúgur hluti af fjárlögum ríkisins. Heildarútgjöld til heilbrigðismála eru tæpir 99 milljarðar kr. samkvæmt A-hluta fjárlaga. Sértekjur heilbrigðisráðuneytisins eru um 5,38% af heildarútgjöldum þess ráðuneytis. Útgjöld til heilbrigðismála vega því þungt í útgjöldum ríkissjóðs og skiptir miklu máli að vel sé haldið utan um þann málaflokk, faglega, fjárhagslega og ekki síst út frá öryggis- og byggðasjónarmiðum. Ég mun aðallega ræða hér um þá liði sem snúa að heilbrigðisnefnd og tala fyrir áliti meiri hluta heilbrigðisnefndar þar sem ég gegni formennsku.

Fyrir nefndina komu fjölmargir gestir og fóru yfir fjárlagafrumvarpið eða þær tillögur sem þá lágu fyrir. Við kölluðum til okkar þær stofnanir sem mest mæðir á, eins og Landspítalann og aðrar stofnanir sem hafa átt í rekstrarerfiðleikum. Við reyndum að fá góða heildarmynd af þessum stærstu þáttum sem koma fram á sviði heilbrigðisráðuneytisins og heilbrigðisnefndar.

Hvað varðar kröfu um niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni hefur verið settur upp ákveðinn rammi við forsendur fjárlaga en í rammanum kom fram að ráðuneytinu og stofnunum sé ætlað að draga saman rekstur um 10% frá fjárlögum 2009 til þess að unnt sé að ná þeirri áætlun sem sett hefur verið fram í efnahagsmálunum. Hvað varðar síðan málaflokka heilbrigðisráðuneytisins fer 10% lækkun til stjórnsýslu og eftirlitsstofnana en velferðarstofnunum og velferðarþjónustunni er hlíft og eru niðurskurðarkröfur vægari þar eða um 5% og falla sjúkrahúsin þar undir. Krafan til heilsugæslunnar er enn minni þar sem krafan um niðurskurð er um 2,8%. Mikilvægt er að hafa í huga að þarna er um ákveðna forgangsröðun að ræða og vísað til forgangsröðunar ríkisstjórnarinnar.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir töluverðri yfirfærslu verkefna frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Nemur lækkun útgjalda heilbrigðisráðuneytis vegna reksturs öldrunarheimila tæplega 19 milljörðum kr. og 431,5 milljörðum kr. vegna sjúkratrygginga, þ.e. greiðslna daggjalda fyrir hjúkrunarrými. Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að vandað verði til þessara skipulagsbreytinga svo að yfirfærsla allrar öldrunarþjónustu til sveitarfélaga megi takast vel, eins og stendur í nefndarálitinu.

Ég ætla ekkert að leyna því, hæstv. forseti, að heilbrigðisnefnd hefur rætt þennan hluta frumvarpsins töluvert og hefur af því nokkrar áhyggjur að undirbúningur þessarar yfirfærslu virðist ekki vera langt kominn. Við hefðum talið að við lokaafgreiðslu fjárlaga hefðu átt að liggja fyrir frekari upplýsingar um það hvernig útfæra ætti þessa breytingu. Því miður liggur það ekki fyrir í dag en nefndin hefur fundað nokkrum sinnum með verkefnastjórn sem sett hefur verið, verkefnastjórn fulltrúa frá heilbrigðisráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti, til að útfæra þennan verkefnaflutning. Ég geri ráð fyrir að innan skamms komi yfirlýsing frá viðkomandi ráðherrum um það hvernig ganga eigi frá þessari útfærslu.

Það er líka ljóst, og einhugur virðist vera um það hjá öllum nefndarmönnum, að stefna ber að því að nærþjónustan, þar með öldrunarþjónustan, þjónusta við íbúa hvers sveitarfélags, sama hvort það eru aldraðir, fatlaðir eða langveikir, sé sem mest í nærþjónustunni og þá mest í heimahúsum. Undir það tökum við og nefndin leggur áherslu á að til þeirrar yfirfærslu verði vandað og fylgst með því á komandi ári, ef af verður, hvernig til tekst, bæði faglega og eins hvað varðar framlögin. Nefndin leggur einnig mikla áherslu á að þess verði gætt að það fjármagn sem losnar út úr kerfinu við það að hjúkrunarrýmum fækkar færist yfir til heimahjúkrunar sem tekur þá í raun við af þessari stofnanaþjónustu.

Vísað er til Finnlands sem fór þá leið fyrir um tveimur árum að fækka markvisst hjúkrunarrýmum og færa stofnanaþjónustuna yfir í manneskjulegri og nútímalegri búning, getum við sagt, yfir í annan hugsunargang. Með fækkun hjúkrunarrýma var sett aukið fjármagn í heimahjúkrun og heimaþjónustu og það verðum við líka að gera þannig að það fylgist að. Sú ákvörðun að færa öldrunarmál yfir til félagsmálaráðuneytis var tekin í stjórnarsáttmálanum árið 2007 og skilaði sér að hluta til inn í fjárlögin fyrir þetta ár, 2009. Í fjárlagafrumvarpinu var síðan stigið það skref að færa hjúkrunarrýmin yfir og hefur hv. heilbrigðisnefnd nokkrar áhyggjur af því og hefði viljað sjá það betur útfært en komið er í dag.

Á þessu ári var gerð aukin hagræðingarkrafa, núna á miðju árinu. Eins og fram kom í ræðum í dag, þegar fram kom gagnrýni á undirbúning fjárlaga næsta árs, voru fjárlög þessa árs, 2009, unnin undir mikilli pressu og við mjög erfiðar aðstæður. Varla var búið að dreifa fjárlögum fyrir 2009 þegar hrunið reið yfir þannig að endursemja varð öll fjárlögin. Þegar leið á árið kom svo í ljós að bæta varð í niðurskurðinn til að ná fram aðhaldskröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir að í ljós kom að aðhaldsaðgerðir stofnananna höfðu ekki staðist áætlun.

Við höfum gengið í gegnum mikið fjárhagshrun og fjárlögin endurspegla það og fjárlagagerðin og rekstrarstaða stofnana ber þess auðvitað merki. Ekki bætir úr skák að mjög margar heilbrigðisstofnanir og aðrar opinberar stofnanir voru með hallarekstur eftir árið 2008 og reyndist þeim mjög erfitt að fara inn í þetta ár, 2009, með skuldir. Enda hafa vaxtagreiðslur margra stofnana verið þeim þungar og eins hefur neikvæð gengisþróun íslensku krónunnar verið sérhæfðustu stofnununum, og þá sérstaklega Landspítalanum, mjög þung. Margar vörur eru keyptar að utan, lyf og fleira, þannig að þetta bætist við erfiðleika þessara stofnana sem er þá fyrir utan þær aðhaldskröfur sem gerðar eru í dag. Þrátt fyrir allt góðærið sem við erum búin að tala mikið um, sem var holt að innan, komu margar heilbrigðisstofnanir út í miklum rekstrarerfiðleikum eftir árið 2008.

Það er líka ljóst að þegar svo miklar breytingar verða og kröfur um niðurskurð og aðhald, sem bæði voru á miðju þessa árs, fyrir næsta ár og greinilegt er að árið 2011 verður erfitt líka, getum við ekki haldið uppi óbreyttri þjónustu. Við þurfum að finna aðrar leiðir, þurfum að endurskipuleggja, ná samstarfi og sameiningu heilbrigðisstofnana til þess að ná niður kostnaði en standa um leið vörð um öryggi. Ekki er hægt að gera þá kröfu til hverrar og einnar stofnunar að hún sé rekin með lægri rekstrarkostnaði en haldi starfsemi óbreyttri.

Við þessar aðstæður þarf líka að fylgjast mjög vel með því að sparnaður á einu sviði leiði ekki til útgjalda á öðru sviði. Er ég þá að hugsa til þess að breytingar á heilbrigðisþjónustu, sem er viðkvæm þjónusta, geta leitt til þess að álag verði meira á félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég tel því mjög mikilvægt að um mitt árið fylgist velferðarvaktin, sem sett hefur verið á stofn, vel með því hvort hugsanlega hafi orðið tilfærsla á verkefnum, að niðurskurður í heilbrigðisþjónustu leiði til aukins álags á félagsþjónustuna ef hægt er að greina það. Því þarf að mínu mati að yfirfara reksturinn og þjónustuna, fara yfir fjárlagagerðina og meta næsta vor.

Í samningum eins og við stöndum frammi fyrir skapast vissulega tækifæri og möguleikar til nýrrar hugsunar. Segja má að tækifæri til sameiningar eða samstarfs, sem ekki hefur verið mögulegt áður, sé nú inni í myndinni þegar menn sjá það sem einu hugsanlegu leiðina til að ná niður kostnaði og það er gott. Eitt af þeim verkefnum sem menn hafa verið að skoða er svokallað kragaverkefni, þ.e. sjúkrahúsin hér á höfuðborgarsvæðinu með Landspítalann sem flaggskip, frá Akranesi og suður í Keflavík — þar var skoðað hvort hægt væri að hagræða, flytja til verkefni eða flytja verkefni út af Landspítalanum.

Í framhaldi af þeirri vinnu var í september settur niður vinnuhópur sem tók við skýrslu Huldu Gunnlaugsdóttur, sem gekk undir heitinu „Frá orði til athafna – Radíusverkefnið“, til að fara í frekari greiningu, kostnaðargreiningu og greiningu á verkefnum, sem í síðustu viku skilaði af sér mjög ítarlegri og góðri skýrslu. Hópurinn hefur að mínu mati unnið frábæra vinnu og ber að þakka þeim sem þar stóðu að verki. Þessi greining nefndarinnar getur skilað sér til annarra stofnana, inn á önnur svæði, þar sem hægt er að gera samsvarandi greiningu og samstilla kostnað við ákveðna verkþætti og gera samanburð á því í hverju kostnaðurinn liggur og reyna þá að vinna að því að taka niður óþarfa- eða umframkostnað ef það stendur út af. Þetta er verkefni sem verður unnið frekar með en hefur skilað sér inn í fjárlögin núna með tæplega 60 millj. kr. tilfærslu.

Þegar verið er að tala um frekari sparnað í heilbrigðisþjónustunni tel ég mjög mikilvægt að lögð verði áhersla á að vinna áfram að rafrænni sjúkraskrá. Hún er forsenda þess að hægt sé að halda áfram að samræma og samhæfa stofnanir. Með rafrænni sjúkraskrá sem stofnanir hafa aðgang að þarf ekki endilega að tala um sameiningu, hægt er að ná mikilli hagræðingu og sparnaði með samstarfi og flutningi gagna.

Hæstv. forseti. Ég vil geta þess að í þessum niðurskurði hef ég helst áhyggjur af litlum stofnunum vítt og breitt um landið sem eru það litlar að rekstrargrunnurinn er viðkvæmur. Ef verið er að fækka hjúkrunarrýmum án þess að til komi þessi nærþjónusta samhliða, heimahjúkrun á viðkomandi stað, sem tekur þá við og léttir á stofnuninni — ég tel að fylgjast þurfi mjög vel með rekstri lítilla heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið, að fjárframlög til þeirra verði ekki skert það mikið að gengið verði á nærþjónustu viðkomandi svæðis.

Hæstv. forseti. Fjárlögin endurspegla það að meiri hlutinn telur að gera eigi átak í eflingu heilsugæslunnar, halda því áfram, og jafnframt að huga að tilvísunarkerfi til sérfræðinga að norrænni fyrirmynd. Við höfum leyft okkur mörg undanfarin ár að byggja hér upp mikla sérfræðiþjónustu, langt umfram það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Það á sér margar skýringar en m.a. þá að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki fylgt íbúaþróun eftir. Til þess að líkjast þeirri þjónustu sem er á Norðurlöndunum er mikilvægt að efla heilsugæsluna, efla nærþjónustuna og koma á tilvísunarkerfi til sérfræðiþjónustunnar.

Við nefnum í áliti heilbrigðisnefndar hallann sem er á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og eins halla Landspítalans og leggjum til að sérstaklega verði tekið tillit til þessara stofnana og annarra sem eru með uppsafnaðan vanda. Orðið verður við því og sérstaklega verður tekið á skuldahala Landspítalans og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Þrátt fyrir þann gífurlega efnahagsvanda sem þjóðin stendur frammi fyrir verður að gæta þess að verja velferðarþjónustuna, þ.e. félagsþjónustu sveitarfélaga, heilsugæslu og öryggis- og bráðaþjónustu. Enn fremur verður að hafa í huga að aukið ofbeldi, m.a. kynferðisofbeldi, er líklegur fylgifiskur djúprar efnahagslægðar. Til þess þarf að taka sérstakt tillit í heilbrigðisþjónustu á komandi árum.

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt um að breyta skuli vinnulagi þingsins við undirbúning og gerð fjárlaga. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við endurskoðun þess verði afgreiðslu safnliða breytt. Telur meiri hlutinn að í stað safnliða sé æskilegt að styrkja til þess bært sjóðakerfi að taka við núverandi safnliðum. Við afgreiðslu fjárlaga verði tryggt að sjóðirnir geti staðið undir þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna, ef ekki, leitar afgreiðsla styrkbeiðna aftur í sama farið. Úthlutun úr viðkomandi sjóðum ætti að fara eftir faglegu mati og forsendum sem ekki eru til staðar hjá fagnefndum í dag. Þrátt fyrir framangreinda galla fer meiri hlutinn að núverandi verklagi og leggur til skiptingu safnliðs 08-399-1.90 samkvæmt beiðni fjárlaganefndar. Við afgreiðslu safnliða í fjárlaganefnd telur meiri hlutinn að skoða verði sérstaklega stöðu Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, Ljósið, og Mænuskaðastofnunar Íslands. Meiri hlutinn telur rétt að vísa erindi Miðstöðvar foreldra og barna til heilbrigðisráðuneytisins til úrlausnar enda er um að ræða fyrirtæki sem ætlað er að sinna brýnum meðferðar- og forvarnaverkefnum, þjónustu sem meiri hlutinn telur mikilvægt að verði aðgengileg fyrir starfsmenn heilsugæslu og skóla.

Álitinu fylgir tillaga nefndarinnar um skiptingu safnliða en undir það skrifa: Þuríður Backman og Sigmundur Ernir Rúnarsson, með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd, Valgerður Bjarnadóttir, með fyrirvara. Aðrir hv. nefndarmenn eru Þórunn Sveinbjarnardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Anna Pála Sverrisdóttir.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að rekja safnliðina, þeir liggja fyrir í nefndaráliti. Ég hef hlaupið aðeins yfir helstu atriði nefndarálits meiri hluta hv. heilbrigðisnefndar.