138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ítarlega yfirferð yfir þann mikilvæga málaflokk sem heilbrigðismálin eru. Hv. þingmaður hefur, ásamt þeim sem hér stendur, haft mikinn áhuga á þeim málaflokki og að fjárframlög til hans séu með þeim hætti að íslensku samfélagi sé sómi að.

Nú kemur það hins vegar fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 að lækka eigi fjárveitingar til Landspítala um tæpa 2 milljarða kr., lækka eigi framlög til heilbrigðisstofnana, og þá kannski ekki síst á landsbyggðinni, um 920 milljónir og um 273 milljónir til heilsugæslunnar. Þetta gerir um 2,65 milljarða kr. Ef við setjum það í samhengi við þá greiðslubyrði sem er á ári vegna vaxta af Icesave, sem eru ríflega 40 milljarðar kr., væri hægt (Forseti hringir.) að verja þeim fjármunum 15 sinnum á ári í þetta verkefni. Hvernig í ósköpunum getur hv. þingmaður samþykkt þá samninga (Forseti hringir.) á þeim vaxtakjörum sem blasa við?