138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:18]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi eru ekki eingöngu aldraðir í hjúkrunarrýmum. Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þm. Þuríði Backman, þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra er í hennar flokki, varðandi það þegar talað er um þessi 360 rými sem á að byggja, 60 ný og 300 sem á að breyta úr fjölbýli í einbýli. Sveitarfélögin taka það að sér með 100% láni úr Íbúðalánasjóði, síðan á Framkvæmdasjóður aldraðra að koma að því að sjá um reksturinn í einhvern tíma, sem er náttúrlega bara tilfærsla úr hægri vasanum yfir í þann vinstri. Mig langar að spyrja hv. þm. Þuríði Backman hvort það hafi verið rætt með hvaða hætti sveitarfélögin ættu að taka þetta 100% lán til þess að byggja hjúkrunarheimilin, hver ætti að borga vaxtakostnað af slíku láni. Eru það sveitarfélögin eða ætlar ríkið að hlaupa þar undir bagga með sín 85% í byggingu hjúkrunarheimila? Hefur þetta verið rætt? (Forseti hringir.) Veit hv. þm. Þuríður Backman til þess, þar sem hún hefur hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) í sínum ranni?