138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst nota tækifærið og leiðrétta það hjá hv. þingmanni og biðst undan því ef á að gera okkur sjálfstæðismenn að guðfeðrum og -mæðrum þess að flytja heilbrigðisþjónustuna í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Allir sem kunna að lesa geta séð að heilbrigðisþjónusta var alltaf undanskilin þegar talað var um að flytja málefni aldraðra á milli. Ég rétt leyfi mér að vona að hv. þingmenn í stjórnarliðinu fari rétt með það.

Virðulegi forseti. Hér er verið að tala um forgangsröðun og að reyna að halda uppi þjónustunni. Ég veit að hv. þingmaður ber hag heilbrigðisþjónustunnar fyrir brjósti. Ég heyri að hv. þingmaður ætlar að gefa eftir varðandi heilbrigðisþjónustuna í félags- og tryggingamálaráðuneytið en þá spyr ég varðandi kragaverkefnið. Þar er nú enn og aftur búið að reikna út og skoða málið. Þessi ríkisstjórn er búin að skoða það núna í 11 mánuði í samráði við alla aðila eftir því sem maður best veit. Það kemur í ljós að við getum haldið uppi (Forseti hringir.) sömu þjónustu og sparað gríðarlega fjármuni. Hvað finnst hv. þingmanni um þá leið, hvað ætlar hv. þingmaður (Forseti hringir.) að gera með það?