138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:26]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verkefni sem fyrrverandi forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss vann að, hið svokallaða kragaverkefni, var mjög góð vinna og greining. Í framhaldi af þeirri skýrslu og úttekt á tillögum var unnin, eins og ég lýsti áðan, kostnaðargreining og kortlagning sem mun nýtast hæstv. heilbrigðisráðherra mjög vel til að vinna áfram að skipulagsbreytingum, ekki bara á þessu svæði heldur eftir því sem tilefni er til úti um allt land. Þótt kragaskýrslan hafi sýnt ákveðna hagræðingu við ákveðinn flutning er það ekki gert bara einn, tveir og þrír eins og hv. þingmaður veit. Það þarf aðdraganda (Forseti hringir.) og aðlögun og að því verður unnið, hvort sem það verður einmitt á þennan hátt eða annan.