138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:29]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær fjárupphæðir sem vitnað er til sem á að vera hægt að ná með því að koma kragaverkefninu á nákvæmlega eins og það var lagt fram standast ekki alveg þegar þær eru skoðaðar betur. Sú kostnaðargreining sem var gerð núna miðast við árið 2008. Á þessu eina ári, 2009, og í þeim hagræðingarkröfum sem gerðar hafa verið hefur margt breyst. Samanburðurinn er því ekki sá sem kragaverkefnið miðaðist við. Nú þegar hefur verið hægt að færa til 60 millj. kr. innan núverandi skipulags. Það er byrjunin. Það verður haldið áfram að skoða þetta út frá áframhaldandi kostnaðargreiningu á fleiri verkefnum og það verður á grundvelli þess sem ákvarðanir verða teknar um hvernig megi hagræða og skipuleggja heilbrigðisþjónustuna hér á höfuðborgarsvæðinu.