138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka fram við hæstv. forseta að ég gleðst yfir öllum skrefum sem tekin eru til þess að bæta hag íslensku þjóðarinnar. Ég gleðst yfir öllu sem vel er gert og sem vel hefur tekist til en í þessari ræðu ætla ég að leyfa mér að gagnrýna það sem misfarist hefur og ég tel vera gagnrýni vert af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Ég vonast til þess að ég geti flutt ræðu mína án þess að fá yfir mig endalaus sjónarmið um að maður sé alltaf með svartsýnisraus. Þetta vildi ég segja strax í upphafi.

Mig langar til að spyrja hæstv. forseta hvort hann geti upplýst okkur um á hvaða leiðangri íslenska þjóðin er með þessa ríkisstjórn sem situr í þessu landi? Hvert erum við eiginlega að fara á Alþingi Íslendinga núna 14. desember? Í hvaða veruleika er verið að ræða fjárlög íslenska ríkisins árið 2010 í 2. umr.? Í hvaða formi er þetta fjárlagafrumvarp nú þegar það kemur inn í þingið til 2. umr.? Þegar fjárlögin voru lögð fram 1. október fannst mér okkur vera nokkur vandi á höndum að ræða það frumvarp sem fyrir lá. Við vorum með til umfjöllunar drög að frumvarpi þar sem stóra liði vantaði inn í og aðrir voru óútfærðir, allir tekjuliðir fjárlagafrumvarpsins voru óljósir og við vissum ekkert hvað um þá yrði eða hvaða tillögur hæstv. ríkisstjórn mundi koma með í kjölfarið til að útskýra þá. Síðan hafa þær tölur sem settar voru inn í tekjuhlið þessa fjárlagafrumvarps breyst gríðarlega, menn hafa horfið frá ákveðnum sköttum og gert breytingar á málinu og það hefur gerst afar seint.

Í þessu fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram 1. október var sú stefnuyfirlýsing kynnt að það skyldi leggja fram öll frumvörp sem um þetta mál fjölluðu fyrir miðjan nóvember. Mörgum þótti það nú harla seint að sex vikum eftir framlagningu fjárlagafrumvarpsins skyldi lokahnykkur lagður á að leggja fram nauðsynleg frumvörp til fyllingar fjárlagafrumvarpsins. Raunin hefur því miður orðið önnur því þær mikilvægu skattatillögur sem ríkisstjórnin boðaði voru ekki lagðar fyrir þingið fyrr en í byrjun desember og fóru síðan í kjölfarið til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd þar sem ég hygg að sé ærið verkefni að fá botn í þær.

Í þessum veruleika tók hv. fjárlaganefnd fjárlagafrumvarpið út til 2. umr. í tvígang í síðustu viku. Í fyrra skiptið var komið í ljós að ekki var hægt að taka frumvarpið til umræðu vegna þess að tekjuhlutinn var í ósamræmi miðað við upphaflegu tillögurnar og því neyddist meiri hluti fjárlaganefndar til þess að taka málið aftur inn í nefndina og afgreiða það aftur. Það vafðist auðvitað ekki fyrir meiri hlutanum sem einhenti sér í það á 20 mínútum eftir að hafa heyrt sjónarmið fulltrúa efnahags- og skattanefndar, það sem ég vil kalla bráðabirgðaskoðun á skattahlið frumvarpsins. Enda kemur í ljós þegar nefndarálitin frá þessum þremur minni hlutum efnahags- og skattanefndar eru lesin að menn eru enn þá í miðju kafi að taka á móti gestum. Sumir fulltrúar í efnahags- og skattanefnd neyddust til þess að skrifa álit sín á miðjum fundum, gestir voru enn að streyma inn og umsagnir höfðu ekki borist. Með slíkar upplýsingar í farteskinu var ekkert vandamál fyrir meiri hluta fjárlaganefndar að afgreiða þetta mál til 2. umr. Þess vegna segi ég að staðan sé sú að við erum enn að ræða drög að fjárlagafrumvarpi en núna 14. desember erum við komin í 2. umr.

Það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hvað næsti dagur beri í skauti sér og eiga von á því að þetta fjárlagafrumvarp muni taka verulegum breytingum á milli 2. og 3. umr. Ég er nánast fullviss um að svo verði vegna þess að þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar eru þess eðlis að hæstv. fjármálaráðherra hlýtur að þurfa að taka ákveðnar ákvarðanir til þess að reyna að rétta þær ákvarðanir af. Það er náttúrlega ófært að við stefnum inn í árið 2010 með mun meiri halla en hæstv. fjármálaráðherra lagði upp með í sínu frumvarpi 1. október sl. Allt veldur þetta manni verulegum áhyggjum.

Enginn veit hvaða tíma það mun taka fyrir stjórnkerfið að koma þessum skattahugmyndum sem efnahags- og skattanefnd hefur hjá sér í framkvæmd. Ég verð bara að skrifa það á minn reikning, herra forseti, að ég skuli ekki skilja það. Ég á mjög erfitt með að skilja að ríkisstjórn sem ég hygg að ætli sér að sitja í fjögur ár þurfi að ráðast strax í allar þær hugsanlegu hugmyndir sem hún hefur haft á örfáum mánuðum. Mér finnst það mjög undarlegt. Ég hefði t.d. haldið að hvað varðar skattabreytingar og þrepaskipt skattkerfi, sem hefur verið áhugamál margra í þeim flokkum sem hér ráða ríkjum þótt Samfylkingin hafi reyndar ekki talað mikið um það í kosningunum í vor — hún talaði þeim mun meira um það í fyrri kosningabaráttu en það skilaði ekki tilætluðum árangri. Þess vegna hvarf hún frá því að ræða þetta þrepaskipta skattkerfi en var ekki fyrr komin í ríkisstjórn en farið var að tala um það. Það liggur svo óskaplega mikið á að koma þessu á að það þarf ekki að tala við nokkurn mann um það. Það þarf ekki að tala við aðila vinnumarkaðarins, það liggur náttúrlega fyrir enda sáum við í sumar í stöðugleikasáttmálanum að það borgar sig ekki að eyða allt of mörgum orðum í þá. Sama á við um embættismenn sem eiga síðan að glíma við þetta. Hvað með þá sem vinna í þessum fyrirtækjum um allt land og þurfa að breyta öllum sínum kerfum til að koma þessu á? Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin vill ekki taka aðeins meiri tíma í þetta?

Ég er ekki mikill talsmaður skattahækkana og það þarf ekki að koma hæstv. forseta á óvart en ég held að ég hafi tekið fram í hvert einasta skipti sem efnahagsmál hafa verið til umræðu hér í þinginu á þessu kjörtímabili að sjálfstæðismenn hækkuðu skatta um síðustu áramót. Þeir hækkuðu tekjuskatta og neysluskatta og gerðu ýmsar skattalagabreytingar til þess að mæta þeim vanda sem að okkur steðjar. Við teljum þó jafnframt að lengra verði ekki gengið að sinni. Ég vil samt spyrja hæstv. ríkisstjórn, sem er mjög ákveðin í því að nauðsynlegt sé að skattleggja þjóðina, hvort það væri ekki ráð að reyna að gera það í núverandi kerfi og gefa sér ögn tíma og andrúm til þess að fara í þessar stórmerku breytingar á skattkerfinu sem boðaðar eru. Það má alveg nota árið 2010 í það. Hvers vegna liggur svona mikið á? Það mætti halda að ríkisstjórnin héldi að hún lifði árið 2010 ekki af út af þessu, að það þurfi að koma öllu að fram til áramóta. (Gripið fram í.) Það þarf að fara í stjórnlagaþing. Það þarf að fara í þjóðaratkvæði. Það þarf að fara í persónukjör. Það þarf að fara í þrepaskipt skattkerfi. Það þarf að gera allan andskotann, herra forseti. Ég biðst forláts, (Forseti hringir.) stundum hleypur manni kapp í kinn.

(Forseti (ÁÞS): Forseti tekur afsökunarbeiðni þingmannsins fyllilega til greina.)

(Gripið fram í: Af hverju gerðirðu það ekki við stjórnarþingmanninn áðan?)

Hæstv. forseti. Það er algjörlega ófært fyrir þessa ríkisstjórn að ætla sér að taka öll þessi mál til afgreiðslu, sem ég held að margar þjóðir mundu taka 10 ár í að gera, og gera það á örfáum mánuðum á sjálfri aðventunni. Þegar örfáir virkir dagar eru til áramóta á að keyra í gegn þessar óskaplegu breytingar. Ég ætla ekki að fara mikið út í það að þessu sinni en það fylgir eitt aukamál í farteskinu. Eitt lítið mál til viðbótar þarf að afgreiða, þetta svokallaða Icesave-mál sem hæstv. forseti segir að komi ekki því dagskrármáli við sem hér er til umfjöllunar. Ég fullyrði að Icesave-málið hefur afdrifarík áhrif á fjárlög íslenska ríkisins og er órjúfanlegur hluti af umræðu um fjárlög.

Mér hefur líka þótt ansi kúnstugt í vinnu fjárlaganefndar við þetta fjárlagafrumvarp að alltaf er okkur sagt að það borgi sig ekki að setja vexti út af Icesave inn í fjárlagafrumvarpið núna vegna þess að það sé ekki búið að samþykkja það. Síðan þegar spurt er hvers vegna alls kyns ákvæði í frumvörpum sem ekki hafa verið samþykkt séu sett inn í þetta fjárlagafrumvarp er það náttúrlega vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur þingmeirihluta og mun koma öllum málum í gegn sem varða þetta fjárlagafrumvarp. Þau fara öll í gegn, skattalagahugmyndirnar og breytingar á Atvinnuleysistryggingasjóði og Fæðingarorlofssjóði. Mér heyrist að í félags- og tryggingamálanefnd séu vöflur á mönnum um hvernig fara með skuli það. Það er náttúrlega sjálfsagt að hafa þetta allt með í fjárlagagerðinni vegna þess að ríkisstjórnin hefur þingmeirihluta en þegar kemur að Icesave-málinu, ríkisstjórnarmálinu — þrátt fyrir að Alþingi hafi í sumar tekið ákvörðun um að þessar byrðar skuli lagðar á þjóðina með vissri lagasetningu er samt ekki hægt að setja það inn í fjárlagafrumvarpið vegna þess að ekki er búið að samþykkja lagasetninguna. Mér þykir þetta mjög athyglisvert og reyndar stórundarlegt. Auðvitað eru þessi fjárlög afskaplega ískyggileg þegar við bætum 40 milljörðum til viðbótar og það er ekki gaman á sokkabandsárum ríkisstjórnarinnar að kynna slík fjárlög en hjá því verður ekki komist. Hjá því munu menn ekki geta vikið sér, þannig er hlutunum háttað núna.

Mér er mjög hugstætt á hvaða leiðangri við erum með þetta. Ég held að þessi skoðun hafi heyrst áður en mikið óskaplega þætti mér vænt um ef við gætum reynt að komast að samkomulagi um einhverja hluti til þess að koma okkur lengra upp úr þessu. Ég hygg að sá vandi sem á íslensku þjóðinni hefur dunið á þessum stutta tíma hafi, þótt óveðursský hafi verið á lofti, komið mörgum svo í opna skjöldu að við erum enn þá í fárinu miðju og höfum ekki enn náð þeim þroska að tala saman þannig að það gagnist okkur Íslendingum. Það finnst mér mjög dapurlegt. Við eigum að halda áfram að reyna að koma því þannig fyrir að við náum samkomulagi um eitthvað sem til framþróunar er fyrir íslenska þjóð. Þess vegna segi ég og ætla að segja það aftur, frú forseti, að auðvitað gleðst maður yfir öllu því sem vel er gert, annað er ábyrgðarleysi. Á sama tíma hef ég þó fullt leyfi og fulla ástæðu til að gagnrýna þetta vinnulag sem hér ríkir á Alþingi. (Gripið fram í: Fara yfir það sem …)

Alls staðar þar sem ég hef rekist á umsagnir um þessi skattafrumvörp hafa menn gríðarlegar áhyggjur og þær eru réttmætar. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur miklar áhyggjur, frú forseti. Hann segir svo í pistli sem hann ritar á heimasíðu Alþýðusambands Íslands, með leyfi forseta:

„Í því samráði sem fram fór við undirbúning tekjulagafrumvarps ríkisstjórnarinnar lagði ASÍ áherslu á þrennt. Í fyrsta lagi að tekið yrði upp lægra þrep á lægri tekjur, í öðru lagi að hægt yrði að verja tímabundna frestun á verðtryggingarákvæði persónuafsláttar um ein áramót vegna upptöku lægra skatthlutfalls á lægri tekjur og í þriðja lagi að samkomulag ASÍ við gerð kjarasamninganna í febrúar 2008 um sérstaka 7.000 króna hækkun persónuafsláttar í þremur áföngum héldi gildi sínu. Þótt ASÍ hefði viljað hafa lægsta þrepið einu prósentustigi lægra lýstum við því yfir, á grundvelli fréttatilkynningar ríkisstjórnarinnar, að komið hefði verið til móts við kröfur okkar varðandi útfærslu tekjuskattsins, enda hafði ekkert af þessum áformum verið kynnt sérstaklega. Nú hefur komið í ljós að ríkisstjórnin hafði fyrir löngu ákveðið að taka ekkert tillit til afstöðu ASÍ, brjóta gegn ákvæðum gildandi kjarasamninga og svíkja þar með yfirlýsingar fyrri ríkisstjórna. Það er áleitin spurning fyrir okkur hvaða gildi slíkir samningar hafi. Langtímaáhrifin af þessari framgöngu ríkisstjórnarinnar eru ekki síður alvarleg. Í raun er verið að undirstrika að það sé mjög varasamt fyrir launafólk að treysta á aðkomu stjórnvalda við gerð kjarasamninga — slíkt sé stundarfyrirbrigði sem hafi lítið langtímagildi. Þetta er mikið hættuspor að mínu mati. Með þessu er ekki einungis verið að brjóta áratugalanga hefð fyrir nánu þríhliða samstarfi um mótun og viðhald stöðugleika heldur hitt að áframhaldandi samstarf er sett í uppnám við aðstæður þar sem fyrirsjáanlegt er að það muni einmitt reyna á slíkt samstarf á næstu árum á meðan við glímum við afleiðingar fjármálakreppunnar.“

Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Ég vona að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna leggi við hlustir. Ég hygg að þeir hafi gjarnan tekið orð þessa manns alvarlega og ég vona að þeir geri það líka núna. Ég vona svo sannarlega að í þeirri vinnu sem eftir er í efnahags- og skattanefnd reyni menn að gera þær lagfæringar á þessu sem hægt er og ég býst við að enn þá sé tími til að gera það. Það er tími fram til áramóta og menn eiga að nýta hann vel til þess að reyna að koma eins miklu lagi á þetta og hægt er.

Ég ætla að snúa mér að nokkrum atriðum sem varða þetta fjárlagafrumvarp og hvernig vinnu þess hefur verið háttað. Mig langar í fyrsta lagi að nefna að við þessar aðstæður sem nú eru hefði verið ástæða fyrir ríkisstjórnina og hæstv. fjármálaráðherra til að meta sérstaklega hvaða verkefni það eru sem ríkið þarf að sinna og hvaða verkefnum það þarf ekki að sinna, fara í svokallaða núllstillingu á fjárlagagerðinni. Þetta hefur verið rætt hér áður í tíð fyrri ríkisstjórna. Það hefur ekki tekist að fara í slíka vinnu en ég hygg að þegar svo mikill samdráttur er í þjóðartekjum sem nú er — það er oft á tímum umbreytinga að slíkir hlutir eru skoðaðir — sé ástæða til þess að skoða hvað sé nauðsynlegt fyrir ríkið að gera og hverju sé hægt að fresta. Á þessum stutta tíma sem fjárlagagerðin hefur í þinginu frá 1. október gefst ekki mikið tækifæri til að fara í slíka vinnu. Það þarf að hefja þessa vinnu, frú forseti, strax í upphafi árs. Það er mjög brýnt að menn átti sig á því hvaða hlutum er hreinlega hægt að sleppa tímabundið, hvað er hægt að sameina, hvaða verkefni er hægt að færa frá ríkinu og hvað er hægt að gera til að draga saman.

Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessum halla sem hefur vaxið hjá okkur. Við höfðum gert ráð fyrir því að árið 2010 yrði þyngsta hallaárið í rekstri ríkissjóðs en því miður eru skýrar vísbendingar um að árið 2011 muni verða okkur fjarska þungbært. Í því sambandi held ég að það sé nauðsynlegt að menn fari nú í þann nauðsynlega sparnað í ríkisrekstrinum sem óumflýjanlegur er. Menn reyndu að skera niður töluvert fyrir árið 2009 en hugðu á meiri niðurskurð á árinu 2010. Þetta fjárlagafrumvarp ber það með sér, og þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert, að það er ekki verið að skera nægilega niður í rekstri ríkissjóðs. Það er verið að taka hluti af sem eru svokallaðar einskiptisaðgerðir, það leiðindaorð, en ekki er tekið á í rekstri ríkissjóðs. Það eina sem gerist ef menn draga þetta er að það verður sársaukafyllra og sársaukafyllra. Það er miklu betra að fara í þetta fyrr en síðar.

Ég get sagt fyrir hönd okkar fulltrúa sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd að við erum reiðubúin til slíkra verka. Við höfum lagt fram breytingartillögu milli umræðna þar sem lagt er til að farið verði í frekari niðurskurð á gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins um átta milljarða króna og viljum þar með leggja inn milli umræðna hvort hægt sé að ná slíkum sparnaði fram. Ég er þess fullviss að það er hægt. Ég veit að þetta eru ekki vinsælar aðgerðir en það er engin vinsældakeppni í gangi og ég held að enginn í þessum sal telji að svo sé. Mjög mikilvægt er að menn einhendi sér nú í að fara í þessar nauðsynlegu sparnaðaraðgerðir. Það eina sem gerist ef menn ganga ekki nógu langt núna er að gríðarlega erfitt verður að semja fjárlagafrumvarp fyrir árið 2011. Þá verða menn jafnvel búnir að hækka skattana gríðarlega á grundvelli þessara skattahugmynda en hafa ekki tekið nógu vel á í niðurskurðinum og þá ætla menn kannski að snúa sér að þeim tillögum sem sjálfstæðismenn hafa haft um skattlagningu á séreignarsparnað. Það held ég sé öfug röð. Það þarf að gera þetta núna og snúa þessari röð við. Við þurfum að fá súrefni inn í íslenskt atvinnulíf og það þarf að nýta þá fjármuni sem eru til staðar til þess að ná þeim árangri. Við höfum líka lagt fram okkar tillögur um séreignarsparnaðinn og að það verði sú aðgerð sem verði farið í á tekjuhliðinni. Auk þess leggjum við til ýmiss konar minni aðhaldsaðgerðir til þess að reyna að mæta þeim vanda sem að okkur steðjar. Ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir þær í þessari ræðu, til þess er tíminn of skammur, en ég held að ástæða sé til að nefndin gefi sér tíma á milli 2. og 3. umr. til þess að fara yfir alla hugsanlega möguleika sem fyrir hendi eru til þess að auka sparnað hjá ríkissjóði þannig að við getum betur tekist á við þennan vanda.

Það eru nefnilega blikur á lofti, frú forseti. Það eru blikur á lofti í heiminum og á Íslandi. Við höfum ekki séð alveg fyrir endann á þessum vanda. Mér hugnast mjög illa þær fréttir sem berast frá sveitarfélögum í landinu og það veldur okkur verulegum áhyggjum á næsta ári ef svo fer fram sem horfir að sveitarfélögin á Íslandi muni lenda í vaxandi greiðsluvanda. Það voru slæmar fréttir að heyra að Álftanes skuli vera komið í þennan mikla greiðsluvanda. Þetta mun skila sér beint inn í Lánasjóð sveitarfélaga og þarna er vandi sem þarf að taka á. Þess vegna finnst mér mjög leiðinlegt að verið sé að leggja álögur á sveitarfélögin, gríðarlega þungar álögur í tryggingagjaldi og fleiri hlutum. Það var ekki rætt við sveitarfélögin um hvernig menn ætli að mæta þessu. Hins vegar hafa borist spurnir af því, og það kom reyndar fram í virðulegri fjárlaganefnd, að hæstv. fjármálaráðherra hygðist mæta þessu með einhverjum hætti en þær tillögur hafa bara ekki komið fram. Komið hefur fram í umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga að þar eru menn furðu lostnir yfir þessu öllu saman. Menn eru furðu lostnir yfir að lesa fréttatilkynningar frá ríkisstjórnarheimilinu vegna þess að enginn veit hvað kemur næst. Menn eru alltaf að láta sér detta eitthvað nýtt í hug. Skattar á heitt vatn, skattar á þetta og skattar á hitt, allt án þess að talað sé við nokkurn mann. Það er afskaplega dapurlegt. Ég hélt á tímabili að þetta snerist bara um að tala ekki við stjórnarandstöðuna en það hefur komið í ljós að það er ekki bara stjórnarandstaðan sem ekki er ástæða til að tala við heldur einnig hálft atvinnulífið og sveitarfélögin í landinu.

Það er ekki hægt að halda svona áfram, frú forseti. Þessu þarf að breyta og hæstv. ríkisstjórn verður að taka höfuðið upp úr sandinum, líta í kringum sig og fara að tala við fólk. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson orðaði það skemmtilega í dag þegar hann sagði að ríkisstjórnin ætti kannski að hafa samráð við skattgreiðendur þegar spurt er að því hvernig samráði við lífeyrissjóði hafi verið háttað. Ég segi þetta til gamans en líka með ákveðna alvöru í huga vegna þess að þegar menn ætla að fara í byltingarkenndar breytingar á þjóðfélaginu á örskammri stundu verður það ekki gert — í alvöru talað á ekki að gera það en ef menn ætla að reyna það er lágmark að þeir sem málið varðar fái upplýsingar um málið áður en þeir lesa um það í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar.

Ég held líka að ýmislegt þurfi að laga í þessari fjárlagagerð. Mér þótti mjög athyglisvert að hv. þm. Guðbjartur Hannesson skyldi lýsa því yfir í Morgunblaðinu í dag að hér hefði farið fram glimrandi góð fjárlagavinna og sjaldan hefði vinnan verið jafnvönduð og nú. Hann virðist ekki hafa nokkrar áhyggjur af því að við erum bara með hálft frumvarp. Ég held að það sé ástæða til þess að benda á ákveðna þætti sem þarf að laga í þessari fjárlagagerð og ég hygg að menn hefðu átt að vera búnir að því fyrir löngu. Ég tel að við sjálfstæðismenn hefðum átt að gera það þegar við vorum í ríkisstjórn. Það var ekki gert en það breytir ekki því að þetta þarf að breytast, þ.e. hvernig haldið er á gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Þingsköpin gera ráð fyrir því að tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins sé send til hv. efnahags- og skattanefndar til umræðu og meðferðar. Hv. efnahags- og skattanefnd fær síðan til sín sérfræðinga til þess að meta tekjuhlið fjárlaga heildstætt en á gjaldahliðinni er engin slík heildstæð athugun gerð. Á gjaldahliðinni hefur sú hefð skapast að fjárlaganefnd tekur á móti gestum sem jafnan fara fram á ákveðnar breytingar á fjárveitingum en það er ekki gerð heildstæð athugun á gjaldahlið frumvarpsins. Ég held að þarna sé ástæða fyrir menn að breyta um verklag. Ég held að menn ættu með nokkuð sambærilegum hætti og gert er á tekjuhliðinni að rýna gjaldahliðina í heild sinni og fá sérfræðinga, hvort sem er úr háskólasamfélaginu eða greiningarfyrirtækjum eða hvernig sem það verkast til, til þess að fara yfir og meta gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins og ríkisins í heild sinni. Undir slíka vinnu gæti fallið þetta sem ég nefndi fyrr í ræðu minni, að menn velti fyrir sér hvert hlutverk ríkisins sé á einstökum sviðum. Hvort fjármunum ríkisins sé varið með sambærilegum hætti og hvort hægt sé að gera einhverjar lagfæringar til hagsbóta fyrir ríkisreksturinn. Ég held að við þurfum að gera breytingar á þessu fjárlagaferli og fá fram betri vinnubrögð og meiri rýningu en verið hefur.

Ég hygg líka að það sé bráðnauðsynlegt að framkvæmd fjárlaga verði með öðrum hætti en verið hefur. Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við framkvæmd fjárlaga og athugasemdir Ríkisendurskoðunar fyrir fyrstu 10 mánuði þessa árs liggja fyrir. Síðan kemur Ríkisendurskoðun og endurskoðar ríkisreikning. Hún lýkur ekki þeirri endurskoðun fyrr en á miðju ári en í lok ársins koma alls konar athugasemdir um ríkisreikninginn eftir að Ríkisendurskoðun hefur áritað reikninginn. Ég held að þarna þurfi líka að gera lagfæringar. Mér finnst þetta mjög einkennilegt vinnulag. Hvernig stendur á því að komið er með athugasemdir um ríkisreikninginn í lok árs þegar löngu er búið að árita hann? Reyndar finnst mér of seint að koma með þær í júní en þetta keyrir nú um þverbak. Ég er ekki að skammast út í Ríkisendurskoðun með þetta, ég veit að þar leggja menn sig fram. Ég er einvörðungu að benda á þetta vegna þess að þarna hefur viðgengist verklag sem þarf að taka til athugunar. Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að snúa sér að þessu. Í stað þess að snúa þjóðfélaginu við á nokkrum vikum ætti hún að einbeita sér að verkefnum sem eru þess eðlis að hægt væri að ráða við þau á þessum tímum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir eftirlitshlutverk þingsins að menn fari betur yfir framkvæmd fjárlaga. Ég vil líka sjá að fjárlaganefnd fari yfir hvernig gangi mánaðarlega, að við fáum að vita fyrir hvern mánuð hvernig rekstur ríkisins gengur. Ég vonast til þess að ríkisstjórn samráðsins muni nú snúa sér að þessu verkefni og ég held að stjórnarandstaðan verði reiðubúin til að leggja henni lið vegna þess að þarna er um að ræða hluti sem munu gagnast okkur. Það er nauðsynlegt fyrir hv. fjárlaganefnd að hafa góða tilfinningu fyrir því sem er að gerast í ríkisrekstrinum. Alþingi hefur veigamiklu hlutverki að gegna varðandi þetta og þessi knappi tími sem hefð er fyrir að fjárlagagerðin taki í lok ársins er ekki til þess að vekja manni von í brjósti um að þetta gangi allt ljómandi vel. Það er líka nokkuð sem ég hef verulegar áhyggjur af, frú forseti, í þessu verklagi sem hér er undir.

Gallar í lagasetningu eru alltaf fyrir hendi. Það er alltaf hætta á að það komi fyrir villur í lagasetningu og menn hafa alltaf töluverðar áhyggjur af því að það geti orðið en sú óvissa sem nú er uppi veldur manni verulegum áhyggjum um að það verði villur í þeirri lagasetningu sem nú er fram undan. Það er ekki búið að rýna þessa hluti enn þá. Vitum við að við fáum þá skatta út úr þessu sem að er stefnt? Erum við viss um að það sé búið að rýna þessar greinar þannig að þar séu engar villur og ekkert rekist á? Það þarf að gefa sér nánari tíma í þetta. Þetta kerfi sem á að vera með hér, þrepakerfi og eftirágreiðsla skatta — reynslan kennir okkur að heimturnar eru ekki eins góðar með svona kerfi. Væri ekki ágætt fyrir hæstv. ríkisstjórn að skoða þetta nánar og koma síðan á næsta ári með þessar tillögur fullbúnar og tilbúnar en fara frekar í að nýta núverandi skattkerfi og hækka þá bara skattana, vegna þess að ég veit að hún hefur áhuga á því? Hún getur gert það algjörlega sjálf og óstudd og þarf ekki aðstoð við það. Það væri mun betra ef menn færu í slíka hluti.

Milli umræðna voru gerðar breytingar á sjóðstreymi ríkissjóðs og þær voru gerðar rétt áður en málið var tekið og afgreitt út úr fjárlaganefnd. Þarna er um að ræða tölur í sjóðstreymi sem eru lykilkennitölur í ríkisreikningnum. Það er afskaplega vont að þetta skuli hafa verið gert með svona litlum fyrirvara. Ég hef samúð með því að það sé hreyfing á tölum ríkissjóðs um þessar mundir. Ég hef skilning á því að það sé ið á hlutunum en ég held að þrátt fyrir það geti ekki legið svo mikið á í afgreiðslu fjárlaganefndar að það megi ekki gefa sér sólarhring til þess að ígrunda þær tölur sem fram koma þannig að menn geti betur gert sér grein fyrir afleiðingunum. Þetta gerði náttúrlega að verkum að það var nokkuð snúið fyrir minni hluta fjárlaganefndar að koma saman nefndaráliti sem væri þess eðlis að við gætum verið stolt af því að leggja það fram og það hefði einhverjar tillögur í för með sér. Það var nokkuð erfitt þegar tölur frá ríkisstjórninni bárust svo seint sem raun bar vitni. Samt sem áður var það veruleikinn hjá okkur í þetta skiptið en ég vonast til þess að þetta muni ekki ganga svona mikið lengur. Ég ætla samt að ítreka þær áhyggjur sem ég hef af árinu 2011 þegar svona skammt er gengið í þessu núna. Við megum ekki horfa upp á að hallinn verði meiri en orðið er. Það þarf að grípa í taumana.

Mig langar í lokin, virðulegi forseti, að nefna heimildarákvæði fjárlagafrumvarpsins. Ég var ekki komin á þessa virðulegu samkomu þegar ákvarðanir voru teknar um tónlistarhúsið en ég veit að það hefur verið verulega gagnrýnt að heimildarákvæðin séu notuð þannig að stórar fjárskuldbindingar ríkisins séu settar inn í 6. gr. ákvæðið. Ég hygg að þetta sé réttmæt gagnrýni og ég tel líka að það sé ástæða fyrir þá sem hafa gagnrýnt það mjög að láta af slíku verklagi og gera sér grein fyrir hvaða fjárskuldbindingar ríkið tekur á sig þegar um er að ræða 6. gr. ákvæði. Ég nefni þetta vegna þess að ég get ekki betur séð en að um sé að ræða verulegar væntanlegar fjárskuldbindingar út af Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi. Það þarf að fá betri skýringar á því á milli umræðna hvaða skuldbinding þarna er að baki og jafnframt hvort ekki þurfi að gera grein fyrir því í frumvarpinu sjálfu en láta það ekki standa í heimildargrein. Ég held að við verðum að komst út úr þessu vinnulagi aftur og þótt menn hafi einhvern tímann tekið ákvarðanir sem orka mjög tvímælis skulum við reyna að koma í veg fyrir að slíkar ákvarðanir séu teknar slag í slag. Ég held að við öll hér inni hljótum að vera sammála um það.

Að lokum vonast ég til þess að sú vinna sem hv. fjárlaganefnd fer í núna á milli 2. og 3. umræðu verði árangursrík og að menn geti reynt að ná saman um að bæta úr þessu frumvarpi. Ég vona einnig að þegar hv. efnahags- og skattanefnd lýkur sinni umfjöllun um tekjuliði frumvarpsins höfum við í hv. fjárlaganefnd tækifæri til þess að fjalla um það mál og gera síðan grein fyrir því hvað það merkir en það sé ekki drifið í hasti inn í 3. umr., þessi mikilvæga lagasetning sem fjárlagafrumvarp og fjárlög ríkisins eru. Hér er um að ræða stefnumarkandi plagg af hálfu hverrar ríkisstjórnar. Það er auðvitað ekkert launungarmál að stjórnarandstaðan er ekki sammála þeirri stefnumótun sem þarna kemur fram, enda snýst málið ekki um það. Þetta er stefnumótandi plagg. Það þarf að gefa því mikinn tíma og það þarf að þroskast. Þær tillögur sem þar liggja fyrir þurfa að fá umræðu í hv. fjárlaganefnd þannig að menn geti komist að vitrænni niðurstöðu um hvernig málinu skuli fram halda.