138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ágætar ábendingar um ýmislegt sem betur mætti fara í vinnubrögðum. Ég vek þó um leið athygli á því að sú mikilvæga nýbreytni var tekin upp í sumar að lögð var fram í þinginu áætlun til nokkurra ára, um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum, grundvallargagn við hagstjórn í landinu. Kallað hefur verið eftir því árum saman að slíkt plagg liggi fyrir, þ.e. langtímaáætlun í ríkisfjármálum, og það er mikið fagnaðarefni að það liggur fyrir.

Hvað varðar áhyggjur af vinnunni í efnahags- og skattanefnd er hægt að upplýsa hv. þingmann um að nefndin hefur lokið gestakomum vegna þeirra mála sem hér um ræðir. Það er mitt mat og meiri hlutans að málin séu í öllum aðalatriðum með þeim hætti að þau muni ná fram að ganga og allar líkur séu á því að þær áætlanir sem liggja fyrir um tekjuöflun muni einnig ganga eftir. Þó verður að hafa í huga að við búum við mjög óvisst umhverfi. Ég tel líka að í frumvarpinu felist mjög miklar og jákvæðar framfarir, m.a. í jöfnun á skattbyrðinni, og gríðarlegur áfangi næst í því að brúa það gat sem hér er.

Ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp er sú að hv. þingmaður er sá eini sem ég man eftir úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem gengst við því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi líka hækkað skatta. (Gripið fram í.) Ég stóð að því að hækka skatta með Sjálfstæðisflokknum í desembermánuði. Þá átti Sjálfstæðisflokkurinn ekki í neinum sérstökum vanda með vinnubrögðin eða hraðann sem málin þurftu að fara í gegn á, eða með það að hækka þyrfti skatta í kreppu. Það er áleitin spurning hvort afstaða Sjálfstæðisflokksins hafi helgast af því að þá var flokkurinn í meiri hluta og (Forseti hringir.) þurfti að axla ábyrgð. Málflutningur hans hér er þá ósköp hefðbundin íslensk stjórnarandstaða, að vera á móti til að vera á móti, í algeru ábyrgðarleysi í ríkisfjármálum.