138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:06]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að hv. þm. Bjarni Benediktsson hafi lýst því yfir í ræðustól, gengist við því eins og hv. þm. Helgi Hjörvar orðaði það, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hækkað skatta í desember. Mér er ekkert að vanbúnaði að gangast við þeim skattahækkunum. Ég get upplýst að sumum okkar var þungbært að þurfa að gera það en að mati flokksins var nauðsynlegt að fara í slíkar hækkanir við þær aðstæður sem uppi voru.

Það hefur jafnframt verið skoðun okkar að ástæða sé til að leita annarra leiða núna vegna þess að við hækkuðum skatta um síðustu áramót, vegna þess að við hækkuðum tekjuskatta, vegna þess að við hækkuðum álögur á bensín og fleiri hluti — við værum sem sagt komin að ákveðnum þolmörkum með skattahækkanir og teldum ástæðu til að leita annarra leiða til að afla tekna í ríkissjóð. Við höfum bent á ákveðna leið sem hv. þm. Helga Hjörvari er vel kunnugt um — ég vil taka það fram að hann hefur verið mjög jákvæður gagnvart þeirri hugmynd að skoða séreignarsparnaðinn og mér þykir gott að hafa fundið það hjá hv. þingmanni.

Hv. þingmaður segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki tilbúinn að taka þær nauðsynlegu ákvarðanir sem þarf að taka við þessar aðstæður. Ég vil svara því til að ég tel að þær breytingartillögur sem sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd hafa lagt fram, og ég get nefnt tillögur um að ganga þurfi lengra í að skera niður í ríkisútgjöldum, beri ekki vott um einhverja vinsældakeppni af hálfu þingmanna flokksins. Það væri kannski auðveldara að koma með tillögur sem gengju í þveröfuga átt. Það gerum við ekki. Við komum þvert á móti með tillögur um að hægt sé að fara í frekari sparnað og bendum á aðrar leiðir í tekjuöflun. Ég get því ekki verið sammála hv. þm. Helga Hjörvar um þetta atriði.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir upplýsingar um þá vinnu sem unnin hefur verið í efnahags- og skattanefnd. Það er mikilvægt að heyra að það gangi vel. Ég vona jafnframt, frú forseti, að tekið verði tillit til þeirra alvarlegu athugasemda sem þar hafa komið fram hjá umsagnaraðilum.