138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að áherslumunur og ágreiningur sé á milli sjálfstæðismanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna þegar kemur að þessum þáttum í ríkisrekstrinum, hvernig leggja eigi álögur á menn og hvernig eigi að auka verðmætasköpun hverju nafni sem hún nefnist í samfélaginu. Ég er þeirrar skoðunar að sú kreppa sem er á Íslandi, sem hefur reynst okkur ansi erfið og verið býsna djúp, valdi því að okkur eru miklar skorður settar í því hvernig við leggjum álögur á Íslendinga. Margir hafa gagnrýnt það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lækkað skatta þegar slátturinn var sem mestur, það hafi ekki verið góð hagfræði að gera það. Þvert á móti eigi menn að hækka skatta þegar slátturinn er mikill í samfélaginu, þetta var gagnrýnt á sínum tíma.

Ég segi á móti: Við skulum þá ekki gera sömu mistökin tvisvar. Þegar að kreppir segir hagfræðin okkur að við eigum einmitt að lækka skatta en ekki hækka þá. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að ekki er borð fyrir báru með það við þær efnahagsaðstæður sem eru á Íslandi þegar ríkissjóður er í þessum mikla vanda. En menn geta a.m.k. reynt að koma í veg fyrir stórfelldar skattahækkanir við þessar aðstæður sem gera ekkert annað en það að taka frekara súrefni úr efnahagslífinu, bæði inni á heimilunum og eins hjá fyrirtækjunum.

Ég hygg líka að þessar skattahækkanir verði þungbærar þeim fyrirtækjum sem síst skyldi en það eru minni og meðalstór íslensk fyrirtæki. Það eru einu sinni þau sem eru burðarásinn í íslensku efnahagslífi. Þar er fjöldi fyrirtækjanna, þar eru tekjurnar og við verðum að athuga hvernig því er háttað.