138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir ágæta ræðu nema þegar hann fer í bakgírinn sem ég kalla, þegar hann afsalar sér ábyrgð núverandi ríkisstjórnar á öllu sem gert er með því að vísa alltaf til fortíðar. Við erum ekki að fjalla um fortíðina, það er búið að ganga frá því og við breytum henni ekki. Það er búið að gangast við því, ég gekkst við því 30. október í fyrra og margir aðrir hafa gert það og við breytum því ekki heldur. Mér finnst það dálítið undarlegt þegar menn vilja ekki taka ábyrgð á því sem þeir eru að gera núna.

Hv. þingmaður er bóndi og hann þekkir það kannski, ég veit það ekki einu sinni, að ef maður ofhleður hross, burðarhross, ber það meira og meira þangað til allt í einu að það kiknar. Þá ber það allt í einu ekki neitt og jafnvel varanlega. Mér finnst eins og menn séu núna að ofhlaða hrossið. Það er nefnilega þannig að atvinnulíf og heimili geta borið upp að vissu marki en þau eru löskuð eftir hrunið og nú er verið að skattleggja þau og ég þekki enga þjóð sem gerir slíkt eftir hrun að byrja á því að skattleggja, menn lækka skatta og menn létta álögur á atvinnulífið. Ég vil benda á það sem ASÍ segir í umsögn að lágtekjufólk mun búa við þyngri skattbyrði af tekjuskatti á næsta ári þrátt fyrir að tekið verði upp þrepaskattkerfi en að óbreyttu skattkerfi. Slíkt er með öllu óásættanlegt, segir ASÍ. Á sama tíma er búið að benda á leið sem gerir það að verkum að við þurfum ekki að fara í þessar miklu skattbreytingar fyrr en að ári þegar hrossið er búið að ná sér, orðið sprækt og búið að ganga um grösuga haga og getur þá tekið á sig meiri byrðar. En núna tel ég vera mjög óskynsamlegt að leggja á það byrðarnar og ég spyr hv. þingmann: Hefur hann skoðað þá leið sem er lögð til grundvallar á móti?