138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:38]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór áðan yfir eitt lítið brot af skattkerfinu sem snerist um auðlegðarskatt þar sem lagður er 1,25% skattur á einstaklinga sem eiga eignir yfir 90 millj. og hjón yfir 120 millj. Jafnframt er gert ráð fyrir því og tekið fram að þessari upphæð skuli varið til að styrkja vaxtabætur og barnabætur. Þetta er dæmi um hvernig við notum skattkerfið til að jafna kjör í landinu. Hv. þingmaður veit mætavel að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins jókst munurinn gríðarlega á milli þeirra sem mestar höfðu tekjurnar og þeirra sem minnstar höfðu tekjurnar. (PHB: Er það svo?) Tekjumunurinn jókst margfalt hjá þeim sem lægstar höfðu tekjurnar og þeim sem hæstar höfðu tekjurnar.

Af því að hv. þingmaður kom inn á Icesave-málið áðan, þá hef ég skoðað það og er að skoða það, rétt eins og allir aðrir þingmenn, og gerði grein fyrir því við atkvæðagreiðsluna á hvaða stigi það væri. Ég persónulega hef ekki neinu við það að bæta sem ég sagði við atkvæðaskýringuna. Ekki er eðlilegt að setja inn í fjárlagafrumvarp kostnað við eitthvað sem ekki er þegar búið að samþykkja á hv. Alþingi en ég hef engu persónulega að bæta við það sem ég sagði í atkvæðaskýringunni. Nú er málið í nefnd og það mun koma aftur til afgreiðslu og þá mun það ekki fara fram hjá hv. þingmanni þegar ég greiði atkvæði frekar en öðrum þingmönnum í salnum.