138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason dettur í þann pytt, og það er svo sem allt í lagi að velta honum aðeins upp úr því ef hann endilega vill, þingmaður í stjórnarliðinu, þingmaður í fjárlaganefnd, að reyna að afsala sér allri ábyrgð og bjóða þingheimi upp á að það að vel hafi verið unnið og faglega í þingnefndinni. Það eina sem ég heyrði hv. þingmann ræða um voru safnliðir. (ÁsmD: Það er ekki rétt, þú varst ekki kominn í salinn.) Og stóru atriðin, hvernig voru þau afgreidd? Það var að það sé búið að vera svo gríðarlega erfitt að taka við þessu öllu saman því að þetta er allt einhverjum öðrum að kenna. Ég vil spyrja hv. þingmann einnar spurningar til að byrja með: Sáu vinstri grænir bankahrunið fyrir? Ég vil bara fá að vita það, fá það bara skýrt: Sáu þeir það fyrir? Vissu þeir af þessu? Það skiptir afskaplega miklu máli að þessu sé svarað algerlega skýrt.

Í annan stað, hér er verið að tala um fjárlögin og hv. þingmaður talaði um að það væri erfitt að fá einhverjar hugmyndir um hvað væri að gerast þar og hvernig ætti að framkvæma þær. Það er nú svo að það liggja fyrir hugmyndir um að halda uppi þjónustustigi með því að minnka kostnað í heilbrigðismálum. Þetta eru tölur, nákvæmlega unnið enn og aftur í þessu tilfelli frá heilbrigðisráðuneytinu og ég vil spyrja hv. þingmann hvaða afstöðu hann hefur til þess. Sömuleiðis af því að ég efast ekki um að hv. þingmaður, af því að það var unnið svo vel í nefndinni, hefur farið almennilega yfir það að færa heilbrigðisþjónustuna og hjúkrunarheimilin frá heilbrigðisráðuneytinu í félags- og tryggingamálaráðuneytið, vil ég heyra rök hv. þingmanns fyrir því að þetta sé gert því að þau hafa ekki heyrst enn. Þetta eru þrjár spurningar.