138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá vitum við það. Þeir sem bera langmesta ábyrgð eru hv. þingmenn Vinstri grænna sem sáu bankahrunið fyrir en sögðu ekki frá því. Reyndar var einn öflugasti forustumaður Vinstri grænna stjórnarformaður í LSR og sá lífeyrissjóður fjárfesti alveg eins og allir hinir og tapaði alveg eins og allir hinir. Þetta gerðu Vinstri grænir vitandi að það yrði bankahrun. Hvað sagði hæstv. ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, þá þingmaður í stjórnarandstöðu, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var stofnuð? Hann sagði að hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra væri hálfdrættingur af því að ráðuneyti hans væri svo lítið og ómerkilegt. Ég held að allir séu á því að við hefðum betur hugað meira að viðskiptaráðuneytinu en búið er að upplýsa að Vinstri grænir vissu þetta, þeir sögu bara engum frá því og það er mesta ábyrgðin.

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði að fjárlaganefnd væri búin að fara vel yfir málið og hann sagði að fagnefndir hefðu farið svo vel yfir málið. Nú er ég í heilbrigðisnefnd og við höfum ekki farið neitt yfir þessi mál, og það hefur komið fram hjá stjórnarliðum. Ég efast ekki um að hv. þingmaður, af því að hann er búinn að vinna þetta svo vel, viti þetta allt og ég vil fá rökin fyrir því að í fjárlögum er gert ráð fyrir að flytja hjúkrunarheimili eldri og yngri hjúkrunarsjúklinga til félagsmálaráðuneytis. Af hverju? Rökin fyrir því. Ekki verður heldur farið í það að ná hámarksþjónustu með því að spara eins og gert er ráð fyrir í kragaskýrslunni sem er frá hæstv. heilbrigðisráðherra Vinstri grænna. Ekki verður farið í það og væri ágætt að fá rök hv. þingmanns fyrir því af hverju það er ekki gert því að hv. þingmaður er búinn að fara svo vel yfir þetta í nefndinni, það er búið að vinna svo faglega í nefndinni.