138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:47]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ólíkt hv. þingmanni tel ég mig ekki vita alla hluti. Hv. þingmaður talar eins og sá sem allt veit og ég ímynda mér að hann telji sig allt vita.

Hvað varðar umræddan flutning frá heilbrigðisráðuneyti yfir til félagsmálaráðuneytis þá lýsti formaður heilbrigðisnefndar fyrr í kvöld miklum áhyggjum af þeirri stöðu og því sem þar væri í gangi. Ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta og treysti hv. heilbrigðisnefnd til að fara vel yfir það auk hæstv. heilbrigðisráðherra. (GÞÞ: Þetta er fjárlaganefndarmál.)

Hv. þingmaður kemur hingað upp með hroka og skæting þess efnis að Vinstri grænir hafi vitað allt um bankahrunið en ekki látið vita af því. Ítrekað vöruðu Vinstri grænir við þeirri þróun sem hér var í gangi (GÞÞ: Það gerðu fleiri.) en hv. stjórnarþingmenn og þáverandi hæstv. ráðherrar höfðu ekki af því miklar áhyggjur. Þar var hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fremstur í flokki. Þetta var gagnrýnt trekk í trekk en hann hafði aldrei nokkrar athugasemdir og tók aldrei mark á nokkru af þessu. Það kemur því úr hörðustu átt þegar hann gagnrýnir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð fyrir að ganga fram og telja sig allt vita. Í því lenti hv. þingmaður einmitt sjálfur. Hann taldi sig allt vita meðan hann sat í ríkisstjórn og taldi sig ekki þurfa að hlusta á aðra. Í ræðu minni kom ég inn á ýmis atriði sem ég tel jákvætt og eðlilegt að skoða hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég er einmitt að reyna að hugsa á annan hátt en hv. þingmaður meðan hann sat í ríkisstjórn.