138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki á hvaða andsvar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason var að hlusta en það var örugglega ekki mitt andsvar. Það hlýtur að vera ágætur eiginleiki að geta ímyndað sér síðasta andsvar og talað út frá því. Ég veit ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma haldið því fram að ég vissi allt. Reyndar var það þannig, ef það fór fram hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni, að ég gekkst við því eins og flest okkar að ég hefði ekki áttað mig á því að bankarnir væru að hrynja. Það er bara þannig.

Maður hefur ekki náð fullkomnun í að vera til og þegar maður lítur til baka hefði maður viljað gera ýmislegt öðruvísi hefði maður vitað hvað var í nánd. Og talandi um hroka: Hér koma hv. þingmenn Vinstri grænna og jafnvel Samfylkingarinnar sem voru í ríkisstjórn frá 2007 (Gripið fram í.) — já, það er búið að rannsaka það, hv. þingmaður og virðulegi forseti, og það kom í ljós að þeir voru þar og þeir tala alveg eins og þeir hafi dottið af himnum ofan. En það hefur algerlega farið fram hjá þeim sem hafa fylgst með umræðum frá vinstri mönnum að þeir hafi eitthvað sérstaklega verið að vara við þessu.

Ef við tökum einn helsta sérfræðing ráðherra í hæstv. ríkisstjórn, Ingva Örn Kristinsson, sem starfaði hjá Landsbankanum og starfar nú í félagsmálaráðuneytinu og förum yfir hans rök fyrir hruninu. Hann sá það fyrir og ég ætla ekki að efast um það, það hlýtur að vera. Allir þeir sem sáu þetta fyrir og segja frá því núna — ég ætla þeim ekki neitt annað en hafa kórrétt fyrir sér. Hvað sagði sá sérfræðingur? Hann nefndi að menn hefðu farið of geyst, menn hefðu farið út í virkjanir, tvær virkjanir, og hvaða virkjanir voru það? Það var annars vegar Hellisheiðarvirkjun og hverjir höfðu forustu um það, virðulegi forseti? Vinstri grænir. Orkuveita Reykjavíkur tók stefnubreytingu í tíð R-listans og þá var farið í virkjunarframkvæmdir, ekki fyrr og undir forustu Vinstri grænna. Það var ekki sá glæsilegi og virðulegi forseti sem er hér núna, en það hefði verið gaman að hafa þann sem var hér áðan, hann var einmitt í borgarstjórn og var í forustu fyrir því að Orkuveita Reykjavíkur fór í þessa virkjun. Svo að því sé til haga haldið voru Vinstri grænir á móti Kárahnjúkavirkjun, ekki út af þensluáhrifum heldur út af óafturkræfum umhverfisáhrifum. En ég man eftir kosningaplaggi frá Samfylkingunni þar sem hvorki meira né minna en formaður flokksins var með forustumönnum vinstri manna á Austurlandi að fagna því að verið væri að fara í þessa framkvæmd. Þannig að þar fór sá þátturinn.

Sérfræðingurinn sem er í vinnu hjá hæstv. félagsmálaráðherra, hjá hæstv. vinstri stjórn, hvað segir hann? Hann bendir á það augljósa, að þingið hafi ákveðið að fara í íbúðalánamarkaðinn á allt of miklum hraða og með allt of miklum krafti. Ég hlustaði mjög vel á hvað hv. þingmenn VG og hv. þingmenn Samfylkingarinnar sögðu þegar við vorum að breyta því. Ég var þá í hv. félagsmálanefnd. Ég hafði miklar áhyggjur af því að við værum að stíga rangt skref og reyndar gerði ég hvað ég gat til að lágmarka það. Hvað gerðu hv. þingmenn VG og Samfylkingarinnar þá? Þeir vildu ganga lengra, þeir vildu ganga miklu lengra. Síðan er vísað til skattalækkana. Ég var að prenta hér út hvernig hv. þingmenn VG og Samfylkingarinnar greiddu atkvæði. Þeir greiddu ekki einu sinni atkvæði gegn skattalækkunum, ekki einu sinni gegn þeim.

Útþensla hins opinbera var eitt af því sem sérfræðingurinn sem er í vinnu hjá hæstv. félagsmálaráðherra minntist á. Kannski hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem er í salnum, geti farið yfir það hvað vinstri menn sögðu varðandi útgjöld hins opinbera. Á sama tíma og þeir gagnrýndu hið opinbera stundum fyrir að taka á hlutfalli skatta, með öðrum orðum hafa of háa skatta — það var svo sannarlega það sem kom fram hjá vinstri mönnum — vildu þeir alltaf auka útgjöld hins opinbera. Þeim var ekkert kappsmál að greiða niður skuldir ríkisins sem hefði betur verið gert, þeim var ekkert kappsmál að greiða niður skuldir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að spyrja, úr því að hv. þingmenn eru svo afskaplega glaðir með fortíðina, hvað það er nákvæmlega sem þeir eru glaðir með? Ekki er hægt að benda á það að ef farið hefði verið að þeirra ráðum hefði staðan verið betri. Þvert á móti. Reyndar var það þannig að forustumönnum Sjálfstæðisflokksins var núið því um nasir að vera andvígir, fjandsamlegir stórfyrirtækjum í landinu af forustumönnum vinstri manna, hvorki meira né minna. Og það var ekki bara Samfylkingin með Borgarnesræðum heldur var það þannig að þegar hér var rætt um fjölmiðlamálið þá höfðu Vinstri grænir nýverið flutt sambærilegt frumvarp. Þeir treystu sér ekki til að styðja frumvarp ríkisstjórnarinnar heldur greiddu atkvæði gegn því. Rökin voru þau að verið væri að níðast á vesalings stórfyrirtækjunum og stóru aðilunum í þjóðfélaginu. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir.

Virðulegi forseti. Við ræðum fjárlög og bent hefur verið á það, og ekki að ástæðulausu, að menn eru að ganga í það að skattleggja — ekki vegna þess að það þurfi, ekki vegna þess að það sé lausnin á kreppunni, heldur vegna þess að vinstri menn vilja það. Þeir vilja hafa háa skatta, þeir vilja hafa skattkerfið flókið og nú skal fólk fá að finna fyrir því. Það skiptir engu þó að forustumaður ASÍ gagnrýni það, þó að allir þeir sem koma fyrir nefndina, endurskoðendur, þeir sem verða fyrir þessu, aldraðir eða öryrkjar eða hverjir sem eru, það skiptir ekki máli, það skal hækka skatta. Maður skyldi þá ætla að skatttekjurnar yrðu nýttar skynsamlega og verið væri að leggja upp í einhverja vegferð. Hæstv. ríkisstjórn hefur haft tíma frá 1. febrúar til að undirbúa fjárlagafrumvarpið og maður mundi ætla að menn væru búnir að vinna það vel. Þá er verið að spyrja hv. þingmenn, stjórnarliða, um hluti sem eru ekki litlir hlutir, þetta eru ekki safnliðir með fullri virðingu fyrir þeim, ég er ekkert að gera lítið úr því að það er mikilvægt. En ég er að tala um grunnstoðirnar. Ég er í þessu tilfelli að tala um heilbrigðiskerfi landsmanna.

Við erum í fremstu röð. Við höfum nokkurn veginn útrýmt biðlistum á undanförnum missirum. Fyrir nokkrum árum var mikil umræða um biðlista BUGL, það var tekið á því. Það var langur biðlisti eftir hjartaaðgerðum og hjartaþræðingum, það var tekið á því. Það var langur biðlisti eftir aðgerðum á mjöðm og hnjám og fleira mætti telja, augnsteinar, allt var þetta unnið skipulega af því að við vildum vera í allra fremstu röð. Nú höfum við minna á milli handanna. Öllum er ljóst að verkefnið er það að halda okkur samt sem áður í fremstu röð. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá verðum við að ná betri nýtingu úr þeim fjármunum sem við höfum. Og það er hægt.

Hvað gerir vinstri stjórnin? Hvað gerir norræna velferðarstjórnin? Í skjóli nætur ætlar samráðsstjórnin, sem vill ræða við alla, hafa samráð við alla, ekkert valdboð að ofan, að taka stóran hluta af heilbrigðisþjónustunni og skella því í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Rökin hafa ekki enn komið fram. Rætt var um að þetta snerist um eldra fólk, eldri borgara. (PHB: Sérheilbrigðiskerfi fyrir þá.) Ef það væri nú rétt þá værum við að búa til aldursskipt heilbrigðiskerfi, það væri sérheilbrigðisþjónusta fyrir fólk eldra en 67 ára. Ég veit ekki til að það þekkist neins staðar. Ég veit ekki til að neinum hafi dottið þetta í hug.

En þetta er ekki bara eldra fólk. Það er verið að flytja hjúkrunarheimilin og það eru sjúklingar sem þurfa að vera á hjúkrunarheimilum því á hjúkrunarheimilum eru sjúklingar. Hjúkrunarheimili eru ekki búsetuúrræði. Það er ekki þannig að einhver ákveði að búa á hjúkrunarheimili en ekki einhvers staðar annars staðar og það er fólk á öllum aldri á hjúkrunarheimilum ef undan er skilinn allra yngsti aldurshópurinn. Það skiptir engu máli þó að ályktanir komi frá Félagi hjúkrunarfræðinga sem fengu ekki að veita umsögn um þetta mál. Það fékk enginn að veita umsögn um þetta mál, enginn fagaðili fær að veita umsögn um þessa færslu sem er upp á tugi milljarða heldur er læðst í skjóli nætur.

Hjúkrunarfræðingar tóku samt upp á því, ég vona að þeir hafi ekki móðgað hæstv. ríkisstjórn, að álykta og bentu á hið augljósa að þarna er af einhverjum óskiljanlegum ástæðum farið þvert á það sem menn hafa reynt að gera, þ.e. að skilja að faglega og fjárhagslega ábyrgð. Á sama hátt hefur verið bent á að engin heildaryfirsýn verður yfir þennan málaflokk lengur á einhverjum einum stað. Í minnisblaði um öldrunarmál, sem kemur frá heilbrigðisráðuneytinu, kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Hjúkrun og umönnun á hjúkrunar- og dvalarheimilum er einn hlekkur í heilbrigðisþjónustu landsmanna. Til að geta samhæft og veitt heilbrigðis- og umönnunarþjónustu á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða er mikilvægt að málaflokkurinn sé hjá því ráðuneyti sem hefur með framkvæmd þjónustunnar að gera og þar með heildaryfirsýn. Rekstur sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana, heilsugæslu, heimahjúkrunar, hjúkrunarrýma á heilbrigðisstofnunum og eftirlit með heilbrigðisþjónustu er á verksviði heilbrigðisráðuneytisins. Með flutningi á hjúkrunar-, dvalar- og dagvistarrýmum til félags- og tryggingamálaráðuneytisins er hætt við að þessi yfirsýn rofni og það verði mun erfiðara að samhæfa þjónustuna þannig að einstaklingar fái þá heilbrigðisþjónustu sem er eðlilegust miðað við þörf og ástand hins aldraða.“

Þetta eru fagleg rök en þau virðast engu máli skipta. Þessi hrokafulla hæstv. ríkisstjórn læðir þessu að í skjóli nætur. Samráðsstjórnin hefur ekki samráð við neinn, engan. Ef einhver heldur, virðulegi forseti, eina stutta stund að þetta muni ekki leiða til flækjustigs, aukins kostnaðar og þar af leiðandi verri þjónustu, þá getur sá hinn sami haldið því fram með sömu rökum að jörðin sé flöt, en það vita allir sem vilja vita að þetta mun leiða til þess. Það er algerlega útilokað fyrir hæstv. ríkisstjórn að segja að hún vilji viðhafa samráð á meðan hún tekur hlut eins og þennan og laumar honum í skjóli nætur, þ.e. hluta heilbrigðisþjónustunnar, yfir í annað ráðuneyti. Einhvern tíma voru rökin þau að þetta ætti að fara til sveitarfélaga og þess vegna væri gott að fara í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Svo gleymdi ríkisstjórnin bara að sveitarstjórnarmálin eru farin í samgönguráðuneytið. Þetta er auðvitað gersamlega fyrir neðan allar hellur.

Virðulegi forseti. Það er fleira. Við erum í þeirri stöðu að við þurfum, viljum og ætlum að halda heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Við eigum aldrei að sætta okkur við neitt minna, aldrei. En hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að vinna að því markmiði því það er algerlega ljóst að sú ríkisstjórn sem fer í flatan niðurskurð er ekki að vinna að því markmiði. Ég ætla aðeins, virðulegi forseti, að leyfa mér að lesa úr viðtali við forstjóra Landspítalans sem hefur meiri þekkingu, meiri reynslu, ekki bara af íslenska heilbrigðiskerfinu heldur þeim heilbrigðiskerfum sem við berum okkur oftast saman við á Norðurlöndunum, meiri reynslu, meiri þekkingu, meiri yfirsýn en flestir ef ekki allir Íslendingar. Það má kannski segja að við finna megi forstjóra Karolinska sjúkrahússins, Birgi Jakobsson, eða einhverja slíka á svipuðum stað, en ég hef ekki heyrt einn einasta aðila mæla gegn því að hér fari manneskja með yfirsýn og þekkingu. Hún var liður í því í tíð síðustu ríkisstjórnar, eða þarsíðustu, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar við gengum í það verk að koma á faglegri stjórn á Landspítalanum sem gerði það að verkum að við náðum árangri gegn biðlistum og við náðum árangri í rekstri og við fengum örugglega enga aðstoð frá vinstri grænum hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp úr viðtali frá 5. október 2009, við Huldu Gunnlaugsdóttur en þá lá fjárlagafrumvarpið fyrir.

„Sá flati niðurskurður sem stefnt er að á Landspítalanum er hættulegur, að mati Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítalans. „Við höfum aðeins einn slíkan spítala á Íslandi, sem er öryggisnet fyrir allt landið. Þess vegna verður fyrst að leita allra leiða til að ná heildarhagræðingu í heilbrigðiskerfinu.“

Hún segist alltaf hafa verið á móti flötum niðurskurði. „Það er auðveldasta leiðin, en þá er ekki tekið á vandanum. Það þarf að gera stærri breytingar á þjónustu spítalanna og auðvitað er Landspítalinn þar ekki undanskilinn. En ef ráðist er í uppsagnir á 450–500 manns á Landspítalanum, þá hefur það áhrif á öryggisnetið. Samkvæmt nýlegri úttekt erum við með þriðju mestu gæðin í heilbrigðisþjónustu á OECD-svæðinu, og eflaust höldum við því ekki, en ég vil að þjónustan sé nógu góð. Við vitum að það verður ekki bara niðurskurður á næsta ári, heldur líka árin 2011 og 2012. Þess vegna verður að gera það sem rétt er og hagkvæmt.“

Hulda hefur skilað af sér aðgerðaáætlun til heilbrigðisráðuneytisins, sem hún vann ásamt fleiri sérfræðingum. „Þar er nákvæm heildarverkefnaáætlun fyrir árið 2010 með aðaláherslu á kragasjúkrahúsin, sem unnin var í samráði við stjórnendur þar. En það þarf að fara yfir alla starfsemina, spítala og heilsugæslustöðvar, og einnig stjórnsýsluna, heilbrigðisráðuneytið, landlæknisembættið, lýðheilsustöð og sérfræðiþjónustuna. Það þarf að búa til aðgerðaáætlun til þriggja ára um það hvernig mæta má þeim fjárhagslega niðurskurði sem ráðast þarf í vegna kreppunnar,“ segir Hulda.

Í áætluninni sem verkefnahópurinn hefur skilað af sér, og bar yfirskriftina „Frá orði til athafna“, var miðað við að ráðherra gæti tekið ákvarðanir strax 9. október.“ — Ég endurtek: „Í áætluninni sem verkefnahópurinn hefur skilað af sér, og bar yfirskriftina „Frá orði til athafna“, var miðað við að ráðherra gæti tekið ákvarðanir strax 9. október.“

Í neðanmálsfrétt segir: „Hulda Gunnlaugsdóttir stýrði hópi sem skilaði aðgerðaáætlun um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu til heilbrigðisráðuneytisins. Hún er forstjóri Landspítalans og fór í ársleyfi 1. október. Starfar þann tíma sem verkefnastjóri fyrir Óslóarsjúkrahúsið. Björn Zoëga er forstjóri í hennar stað.“

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, ef hæstv. ráðherra er að hlusta, sem ég veit ekki hvort er, en virðulegi forseti getur kannski séð til þess að það gerist. Ég veit að hæstv. ráðherra er í húsi og ég vildi spyrja hæstv. ráðherra — veit virðulegi forseti hvort hæstv. ráðherra er að hlusta á okkur?

(Forseti (ÞBack): Hæstv. ráðherra er í húsi.)

Hæstv. ráðherra heyrir. Þegar hæstv. ráðherra tók við sagði hún bæði í fjölmiðlum og í þingi að það væri mjög bagalegt að ákvarðanirnar, niðurstöðurnar úr þessum vinnuhópi hefðu ekki skilað sér inn í fjárlögin. Þetta voru orð hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra setti, til að vera alveg viss af því að búið var að reikna þetta allt út áður en það er nú allt í góðu, en til að vera alveg viss setti hæstv. ráðherra, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, ekki sá sem var á undan og ekki sem var þar á undan heldur núverandi sem er iðulega á ráðherrabekknum, hóp á sínum forsendum, ákvað uppleggið hvað þann hóp varðaði og lét reikna þetta út enn og aftur alveg niður í smáatriði. Og það er upplýst að hver einasta tala hér inni hefur verið samþykkt af hverjum einasta forstjóra sem að þessu máli kemur. Niðurstaðan er skýr. Ef tekinn er bara fyrsti fasi greiningarinnar, þ.e. fæðingar og kvensjúkdómar, skurðlækningar og post-acute care, ekki seinni hlutinn, virðulegi forseti, ekki meltingarrannsóknirnar, grindarbotnsmeðferðin, samvinnurekstrarleg verkefni, myndgreiningarrannsóknir, heldur bara fyrri hlutinn, þá er hægt að ná sparnaði upp á 1.400 millj. kr. á ári. Það er alveg ljóst að ef menn taka síðari fasann þarf nokkur hundruð milljónir í viðbót. Og haldið sama þjónustustiginu.

Hæstv. ráðherra hefur algerlega skýran valkost. Með því að spara með þessum hætti, í stað þess að fara í þennan flata niðurskurð í fjármálaráðuneytinu, þá getur hæstv. ráðherra haldið uppi þjónustustiginu. En ef hæstv. ráðherra og þessi hæstv. ríkisstjórn, hv. þingmenn VG og Samfylkingar, fara leiðina sem er í fjárlögunum, þá munu þeir skerða þjónustu, þeir munu búa til biðlista og langt verður í það að þeir nái því þjónustustigi sem við erum með núna. Svo einfalt er það, virðulegi forseti. Svo einfalt er það.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað gerðist frá því að hæstv. ráðherra sagði í þingsölum, sagði við fjölmiðla að það væri bagalegt að þessar tillögur væru ekki búnar að rata inn í fjárlögin. Hvað skeði á þessum vikum? Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að koma og segja: Það hefur svo mikið breyst frá 2008 og það hafi verið sparað á þessu ári, skorið niður á þessu ári. Það var skorið flatt niður á þessu ári. Það breytir ekki hlutföllunum. Þetta snýst um það að menn eru að færa verkefni til til að ná hagkvæmni og það breytir engu þó að fjárlögin í ár hafi verið lægri en fjárlögin 2008, nákvæmlega engu. Þetta snýst um það að Landspítalinn er að gera ákveðna hluti með jaðarkostnaði vegna þess að það er svo að Landspítalinn getur afkastað meiru á mörgum sviðum. Þannig jukust t.d. fæðingar á milli ára á Landspítalanum um 300, held ég. Kostnaðurinn var hverfandi. Þetta snýst um það, t.d. varðandi fæðingarþjónustu og skurðþjónustu, að fasti kostnaðurinn er mikill hvort sem nýtingin er góð eða ekki. Það kemur fram að nýtingin á skurðstofum á kragaspítölunum er mjög lág. Hvað þýðir það? Hver aðgerð er dýr. Það er hægt að færa slíkar aðgerðir yfir á Landspítalann. Þar er meira öryggi en á smærri spítölunum og minni kostnaður. Hv. þingmenn stjórnarliðsins verða að skilja þetta. Ef þeir skilja þetta ekki þá er það eitt og sér mjög alvarlegt. Hér verður enginn afsláttur gefinn af því að hv. stjórnarliðar verða spurðir út í þetta. Og ef þeir svara þessu með þeim hætti eins og hér hefur komið fram, að þetta sé allt öðruvísi vegna þess að fjárlögin í ár séu lægri en árið 2008, virðulegi forseti, þá skilja þeir einfaldlega ekki málið. Þá hafa þeir ekki sett sig inn í málið. Hv. þingmönnum ber skylda til að setja sig inn í þetta mál. Hér er um heilbrigðisþjónustuna að ræða, hvorki meira né minna.

Hæstv. ráðherra fær að svara því hvað breyttist því að hæstv. ráðherra kom líka í hv. heilbrigðisnefnd og það fór ekki fram hjá neinum að hæstv. ráðherra ætlaði að fara í þessa breytingu eins og allir sem komu að þessu. Þetta er ekki gert í fyrsta skipti, þetta hefur verið gert mörgum sinnum. Það er búið að reikna þetta mörgum sinnum út og menn komast alltaf að sömu niðurstöðu. Hulda Gunnlaugsdóttir stýrði þessum hópi og hví í ósköpunum skyldi hún hafa komið með þessa hugmynd og farið í þessa vinnu? Halda menn að Íslendingar séu þeir fyrstu sem hafa farið þessa leið? Það er nákvæmlega þetta sem er að gerast alls staðar annars staðar og menn lenda alltaf í sömu málunum. Það er erfitt að færa þetta til. Það er erfitt, það þarf kjark til að sameina spítala. Það þarf kjark til að leggja skurðstofur af. En menn gera það vegna þess að þá geta þeir haldið uppi þjónustustiginu með minni tilkostnaði. Þess er alltaf þörf í heilbrigðisþjónustunni en aldrei sem nú.

Hinn hluti tillagnanna gengur síðan út á það að verið er að færa þjónustu í rauninni frá Landspítalanum yfir á svokallaða kragaspítala þannig að fólki er gert kleift, þar sem boðið er upp á slíka þjónustu hjá viðkomandi spítölum, að liggja þá nær heimabyggð sinni eftir aðgerðir. Það er auðvitað betra fyrir það fólk sem þarf á þjónustu að halda og það er líka hagkvæmara. Við eigum þessar byggingar, við höfum gott starfsfólk á þessum heilbrigðisstofnunum, auðvitað vill fólk ekki vera á spítölum en ég held að flestir vilji vera nær heimili sínu ef þess er einhver kostur.

Virðulegi forseti. Þetta hefur enn og aftur verið staðfest. Þetta er ekki bara fjárhagslega hagkvæmt, þetta er líka faglega gott. Það er hærra þjónustustig á Landspítalanum en á hinum spítölunum og það er ekki einn „standard of care“ eins og það er kallað á þessu svæði, þannig að verið er að bjóða fólki upp á betri þjónustu.

Ef við förum hina leiðina og komum með flatan niðurskurð, og eins og einhver spurði: er ekki sanngjarnt að allir fái flatt? þá skerum við alla þessa þjónustu. Við erum með einn Landspítala sem er opinn alla daga ársins, allan sólarhringinn og við skerðum þar þá þjónustu sem við viljum ekki skerða í mörgum tilfellum. Nákvæmlega sama gerist við hinn spítalann sem er í gjörgæslu á Akureyri. Ef við förum áfram í þennan flata niðurskurð mun sá spítali sem núna fær fjárheimildir upp á 4,5 milljarða fá 3,5 milljarða árið 2012. Ef einhver trúir því að sama þjónustustig verði á þeim spítala eins og er núna með því að fara þá leið, virðulegi forseti, þá er sá hinn sami að loka augunum fyrir staðreyndum. Það er algerlega ljóst, virðulegi forseti, að það mun þýða að stórauka þarf sjúkraflutninga frá Norðurlandi yfir á Landspítalann. Án nokkurs vafa mun það leiða til aukins kostnaðar annars staðar. Og alveg eins og Hulda Gunnlaugsdóttir vísaði til að leita verði allra leiða til að ná heildarhagræðingu í heilbrigðiskerfinu þá á það ekki bara við um Kragann, það á við um allt landið. Það á líka við um stjórnsýslustofnanirnar.

Í minni tíð sem ráðherra var skrifað frumvarp um stjórnsýslustofnanir sem miðaði að því að taka fjórar stofnanir, Lýðheilsustofnun, landlækni, sóttvarnalækni og Lyfjastofnun og skipta þeim upp í tvær, annars vegar eftirlitskerfi fyrir heilbrigðisþjónustuna, sem er afskaplega mikilvægt, og hins vegar forvarna- eða heilsustofnun. Nú eru þessi verkefni tvist og bast hjá þessum stofnunum. Eftir því sem ég best veit var þessu stungið í skúffu en einn helsti spunameistari Samfylkingarinnar var fenginn til að leiða vinnuhóp um það hvernig ætti að vinna þessa hluti. Það hefur væntanlega dagað uppi. Ég veit ekki til að hann hafi neina reynslu á þessu sviði en þegar Samfylkingin fer af stað þarf ekki neitt slíkt.

Ég held að ég sé ekki sá eini, virðulegi forseti, sem vill fá að vita hvað breyttist hjá hæstv. ráðherra hvað þetta varðar og hvort hæstv. ráðherra sé með einhver rök, sem við hin sjáum ekki, fyrir því að færa hluta heilbrigðisþjónustunnar, hjúkrunarheimilin sem eru fyrir sjúklinga, bæði eldri og yngri, í félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Virðulegi forseti. Það er ástæða fyrir því að enginn fær að koma með umsögn Það er alveg ástæða fyrir því. Það er vegna þess að þær umsagnir yrðu ekki góðar og það veit hæstv. ríkisstjórn. Þess vegna er þessu lætt inn í skjóli nætur. Og menn vonast til þess að umræðan um Icesave, um skattana, skuldirnar og alla þá hluti verði svo mikil og svo hávær að menn geti komist upp með þetta. Gengið er jafnvel svo langt að í nauðvörn sinni hafa stjórnarliðar — ég hef bara heyrt einn þingmann, núverandi hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, reyna að mæla þessu bót úr ræðustól Alþingis og sá hæstv. ráðherra gekk svo langt — ég veit að ýmsir hv. þingmenn hafa verið að segja þetta sín á milli, ekki þorað að fara með þetta upp í ræðustól af ástæðu — að reyna að koma þeirri hugmynd inn að þetta hafi verið ákveðið í tíð Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar. Það eru hrein og klár ósannindi, enda hefði ég sem heilbrigðisráðherra aldrei samþykkt að færa heilbrigðisþjónustuna í eitthvert annað ráðuneyti, gersamlega fráleitt og kom það alveg skýrt fram í öllum plöggum og því sem unnið var að og m.a. samþykkt á þinginu um verkefnatilflutninginn, að heilbrigðisþjónustan yrði í heilbrigðisráðuneytinu. Reyndar segir þar sömuleiðis svo varðandi reglugerð um Stjórnarráðið. Að reyna að búa til eitthvað annað úr hjúkrunarheimilum en heilbrigðisþjónustu er ekki fallegur leikur og ef menn í fullri alvöru ætla að reyna að búa til búsetuúrræði úr hjúkrunarheimilunum þá má það fólk sem þar býr, og verður að vera vegna þess að það er veikt, fara að vara sig.

Reyndar er það svo að ef menn eru spurðir segja þeir að faglegt eftirlit eigi að vera hjá heilbrigðisráðuneytinu og svo verður einhver að útskýra það fyrir þeim hvaða skynsemi er í því að skipta þessu upp með þessum hætti. Hún er auðvitað engin. En það þarf ekki, virðulegi forseti, þegar norræna velferðarstjórnin er annars vegar. Þar er spuninn sem skiptir máli. Efnið og innihaldið er aukaatriði. Það er mjög slæmt í mörgum málum, virðulegi forseti, en hér er um heilbrigðisþjónustu landsmanna að ræða, hvorki meira né minna.

Því miður og talandi um spunann þá var það þannig að hv. formaður fjárlaganefndar — ég vona að þetta hafi verið einhvers konar kímnigáfa hjá honum en það kom ekki neins staðar fram og hann hafi bara verið að grínast, en hann fullyrti í fjölmiðlum að aldrei hefði verið unnið eins vel í fjárlögum og núna. Því fer auðvitað víðs fjarri, virðulegi forseti. Við erum í þeirri stöðu núna á þessum tímum sem það hefði skipt máli og skiptir máli að við stöndum saman til að vinna að endurreisninni og vinna að þeim nauðsynlegu verkefnum sem við þurfum að fara í. Ég fullyrði að stjórnarandstaðan, ekki bara sjálfstæðismenn, er tilbúin til að vinna með ríkisstjórninni að þeim nauðsynlegu verkefnum en það hefur ekki verið gert í neinu máli sem ég man eftir í svipinn, auðvitað hljóta það að vera einhver en alla vega ekki þessum stóru málum. Við þekkjum Icesave, ég ætla ekki að fara yfir það hér. Það er mjög margt slæmt við vinnubrögðin í Icesave og það hefur skilað sér í niðurstöðunni.

Eitt er það að í stað þess að hinkra með og vinna það mál betur hefur öll vinna fjárlaganefndar farið í það mál. Ég verð að viðurkenna að þegar menn gerðu samkomulag um Icesave þá hugsaði maður til þess hvernig í ósköpunum menn ætluðu að vinna fjárlögin í framhaldinu því að menn vissu hvaða verkefni voru eftir. En það hafði enginn hugmyndaflug í það að menn mundu ganga í að rífa fjárlagafrumvarpið út úr nefnd og ríkisstjórnin í samráði og hvað þetta heitir nú allt saman, fagleg vinnubrögð og öll þessi fallegu orð, þetta var kaldhæðnislegt af því að hér kom hv. þm. Ásmundur Einar Daðason og talaði um það að fagnefndirnar þyrftu að vinna þessa hluti en við í heilbrigðisnefnd vorum ekkert búin að fjalla um það sem sneri að heilbrigðismálum þegar búið var að rífa fjárlagafrumvarpið úr fjárlaganefnd. Það var búið. Okkur var falið að fara yfir þá þætti sem fagnefnd en það var bara búið að rífa þetta út. Þetta eru faglegu vinnubrögðin. Þetta er það sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson talar um sem bestu vinnubrögð við gerð fjárlaga, sem er auðvitað öfugmæli. Ætli þetta séu ekki verstu vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð og hv. þingmenn gerast svo grófir að bera þetta saman við fjárlögin í fyrra því menn hafa þurft að skrifa aftur nýtt frumvarp eftir hrunið, hvorki meira né minna. En það er alveg ljóst að það frumvarp var unnið mun betur en þetta sem er núna þó að menn hafi haft heilt ár til að vinna það.

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af mjög mörgu í frumvarpinu. Ég hef því miður bara nokkrar mínútur til að fara yfir helstu málin. Ég ákvað þess vegna að fara yfir það sem ég ætla ekki neinum öðrum hv. þingmanni annað en það sama og ég vil í þessu máli, þ.e. að halda þjónustunni eins góðri og mögulegt er. En ég veit alveg hvað þetta fjárlagafrumvarp þýðir og Hulda Gunnlaugsdóttir fór vel yfir það. Þetta eru ekki mín orð. Ég hef notað orð Huldu Gunnlaugsdóttur. En það er alveg sama þó að menn taki orð annarra forustumanna í heilbrigðismálum á Íslandi. Það eru allir sammála. Ég hef ekki heyrt einn einasta aðila mæla því bót að fara í flatan niðurskurð og hæstv. ráðherra getur ekki komið hér í ræðustól eins og hún gerði og sagt að það sé ekki flatur niðurskurður vegna þess að prósentan á milli stjórnsýslustofnananna og einstakra heilbrigðisstofnana sé misjöfn. Það er flatur niðurskurður. Það er bara misjöfn prósenta eftir því hvort það er stjórnsýslustofnun eða heilbrigðisstofnun. Það er flatur niðurskurður, enda sagði forstjóri Landspítalans, Hulda Gunnlaugsdóttir, það mjög skýrt þegar hún sá fjárlagafrumvarpið.

Ég spyr því hæstv. ráðherra þessara tveggja spurninga: Hvað gerðist? Af hverju er hæstv. ráðherra ekki sömu skoðunar og þegar hún lýsti því yfir að henni fyndist bagalegt að þessar tillögur væru ekki í fjárlagafrumvarpinu og svo vildi ég gjarnan fá fagleg rök fyrir flutningnum.