138. löggjafarþing — 43. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[00:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að taka að mestu leyti undir þær athugasemdir sem fram komu hjá hv. þingmanni sem talaði á undan mér, Valgerði Bjarnadóttur. Það er rétt að vissulega er hálffurðulegt að vera nýr þingmaður hér og fylgjast með því hvernig fjárlagavinnan fer fram. Þar sem ég er gamall sveitarstjórnarmaður og sit enn í sveitarstjórn veit ég að þar er gríðarlega mikil áhersla lögð á gagnsæi í vinnubrögðum og ég tel rétt að viðhafa þau vinnubrögð jafnframt hér í þinginu, þannig að því sé haldið til haga. Hvaða aðgerðir eigi svo að fara í — ég tel að ástæða sé til að við þingmenn, sama úr hvaða flokki við komum, setjumst saman yfir það og reynum að finna einhverja leið.

Fyrrverandi fjármálaráðherra, Friðrik Sophusson, beitti sér fyrir umfangsmiklum breytingum á íslenskri stjórnsýslu með nýskipan í ríkisrekstri, verkefni sem hann stýrði og Geir Haarde tók síðan við, og það urðu miklar breytingar í rekstri ríkisins og umgjörðinni allri á þeim tíma. Ég tel einfaldlega rétt að fara aftur yfir þá vinnu og fara með hana yfir á næsta stig. Ég fagna því að fleiri þingmenn séu á þeirri línu vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að við förum reglulega yfir vinnubrögðin og lagfærum það sem þarf að lagfæra. Ég held að það hafi vakið furðu flestra nýrra þingmanna að taka þátt í þeirri vinnu sem úthlutun safnliðanna er vegna þess að þetta vinnulag virkar ansi fornt miðað við það sem maður er vanur úr sveitarstjórnargeiranum. Það hlýtur að vera hægt að finna betri leið en þá sem hér er farin.

Virðulegi forseti. Hér ræðum við fjárlagafrumvarp ársins 2010 og ég tel rétt að það komi fram að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir bæði í ræðum og riti að nú eigi að taka upp ný, lýðræðisleg og gagnsæ vinnubrögð. Þess vegna er full ástæða til að stjórnarþingmenn sem vilja að farið sé í þá vinnu fylgi þeim yfirlýsingum eftir vegna þess að það er vart hægt að sjá að þessum nýju vinnubrögðum sem boðuð voru hafi verið framfylgt hér í þinginu, í þessari umferð a.m.k. Vissulega hef ég skilning á því að það eru skrýtnir og erfiðir tímar en engu að síður er sú ríkisstjórn sem hér ríkir búin að vera við völd í marga mánuði, (Gripið fram í: Ellefu.) ellefu mánuði, (Gripið fram í: Og hvað marga daga?) og ljóst er að það hefur verið tími til þess að taka ýmsar ákvarðanir en það hefur hins vegar ekki verið gert. Í þessu máli sem og nánast öllum öðrum málum sem ég hef tjáð mig um á þessu þingi er hægt að tala um að yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar séu í orði en ekki á borði, svo að það sé sagt enn einu sinni.

Herra forseti. Ég hef talsverðar áhyggjur af þeim lausatökum sem virðast vera á því hvernig tekið er á fjárlögum þess árs sem nú lýkur senn. Þeir starfsmenn stjórnsýslunnar sem stýra stofnunum ríkisins hafa enn ekki fengið skýr svör við því hvort og þá með hvaða hætti verði hægt að flytja fjárheimildir milli ára. Sú heimild sem kom einmitt í kjölfar hinna miklu stjórnsýslubreytinga sem Friðrik Sophusson og fleiri beittu sér fyrir var að stjórnendur stofnana og stofnanir gátu flutt með sér afgang á milli rekstrarára. Það gat verið hentugt í tilvikum þegar þurfti að gera ráð fyrir einhvers konar einskiptis útgjöldum sem þá var hægt að hagræða á einu ári og stofna til útgjalda á næsta ári. Þannig gátu menn unnið sér í haginn án þess að tapa þeim fjárheimildum sem úthlutað var. Með þessu var komið í veg fyrir þá stjórnsýslu sem áður tíðkaðist þegar í rauninni var alltaf verið að refsa þeim sem stóðu sig vel í ríkisrekstrinum. Ég tel gríðarlega mikilvægt að það sé farið skýrt í að viðhalda þessu kerfi að því leyti að þeir sem standa sig vel í ríkisrekstri beri ekki skarðan hlut frá borði þegar kemur að því að taka af þær fjárheimildir sem úthlutað hefur verið af hálfu ríkisins.

Í allri fjárlagagerð, allri stjórnsýslu og fjármálaumsýslu, sama hvar það er, er gríðarlega mikilvægt að vinnureglur séu skýrar. Því vekur það mér mikla furðu að enn sé ekki búið að gefa út skýr skilaboð um hvernig eigi að fara með þessar fjárheimildir sem er óráðstafað á milli ára. Nú eru rúmar tvær vikur eftir af þessu ári og samkvæmt upplýsingum úr fjárhaldsbókhaldi ríkisins benda allar líkur til þess að verulegur fjöldi stofnana sem áttu ónotaðar fjárheimildir frá fyrri árum hafi notað þær á árinu. Það gengur þvert á fyrirætlanir stjórnvalda sem gefnar voru út í júní en þessu hefur greinilega ekki verið komið nógu skýrt til skila. Vísbendingar gefa tilefni til að ætla að einfaldlega hafi verið gefin misvísandi skilaboð um hvort það ætti að fylgja þessu eða ekki. Þannig liggur fyrir samkvæmt mínum heimildum í fjárlagavinnunni erindi eða bréf frá menntamálaráðuneytinu þar sem ljóst er að þessari reglu var ekki fylgt í því ráðuneyti og því er ástæða til þess að rannsaka hvort sama gildi um fleiri ráðuneyti. Þess vegna, herra forseti, má búast við því að þeir sem vilja standa sig vel í fjármálastjórn hafi ekki til þess þá nauðsynlegu hvata sem við blasa af því að það verður tekið af þeim sem ekki hefur verið eytt. Þarna erum við eiginlega komin mörg ár aftur í tímann, áður en verkefninu nýskipan í ríkisrekstri var hrundið af stað sem skilaði gríðarlegum bata í því hvernig fjármunum ríkisins er ráðstafað. Það er frekar sorglegt að horfa upp á þetta.

Herra forseti. Allir landsmenn gera sér grein fyrir því að það er óhjákvæmilegt að skera niður í ríkisrekstrinum. Niðurskurðurinn verður okkur öllum erfiður og allir landsmenn eiga eftir að finna fyrir honum. Þó er mikilvægt að við þann niðurskurð verði beitt skýrri forgangsröðun og gætt jafnræðis þannig að þeir íbúar sem byggja þetta land hafi á tilfinningunni að svipaðar reglur eða samrýmanlegar gildi um alla þannig að það sé hægt að skilja verklagið og vinnulagið og það myndist ekki t.d., eins og sumir hafa óttast, gjá á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins í því hvernig verður skorið niður t.d. í opinberri þjónustu, í heilbrigðismálum og samgöngumálum. Nú hafa t.d. Vestmannaeyingar vakið athygli á því að til standi jafnvel að fækka ferðum Herjólfs til Eyja. Herjólfur er einfaldlega þjóðvegur til Vestmannaeyja og það er hálfankannalegt að það eigi að fækka möguleikum Eyjamanna til að ferðast eftir þjóðvegi landsins því að mér er ekki kunnugt um að gripið hafi verið til samsvarandi ráðstafana gagnvart öðrum landsmönnum. Þetta er bara eitt dæmi um það sem þarf að hafa í huga þannig að allir átti sig á því að vissulega sé verið að skera niður. Allir skilja að það þarf að gera en fólk þarf að vita að það sé forgangsröðun og jafnræðis sé gætt .

Þetta fjárlagafrumvarp sem við ræðum nú uppfyllir ekki þessar kröfur, því miður. Ríkisstjórnarflokkarnir virðast einfaldlega ekki ráða við það verkefni að skera niður. Það eru hálfgerð vonbrigði að sjá það vegna þess að aldrei áður hefur verið jafnknýjandi þörf fyrir festu í fjármálum ríkisins og það er dapurlegt að við séum í þessum sporum. Ég held að íslenska þjóðin búist við því að okkur sem hér störfum auðnist að taka höndum saman og koma böndum á ríkisreksturinn. Það er nauðsynlegt til þess að hér flæði ekki yfir enn frekari skattahækkanir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og til þess að koma hlutunum þannig fyrir að atvinnulífið geti styrkst og atvinnutækifærum fjölgi. Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt verkefni.

Nú hefur komið fram í umræðunum, herra forseti, að ýmsir hafa uppi þá skoðun að vernda þurfi heilbrigðiskerfið, menntakerfið og velferðarkerfið. Vissulega væri ágætt ef hægt væri að vernda þetta allt saman en það er hins vegar ekki raunhæft. Það þarf að skera niður á öllum sviðum og það verður að krefjast þess af öllum ríkisstofnunum að vel sé farið með þá fjármuni sem til skiptanna eru. Ég hef trú á því að ef rétt er haldið á spilunum verði efnahagslægðin skammvinn þó að það sæki vissulega að manni ýmsar efasemdir eftir að hafa lesið þetta nefndarálit frá meiri hluta fjárlaganefndar. Mín skoðun er sú að við niðurskurð í ríkisrekstri verði fyrst og fremst að taka mið af því að öryggi landsmanna sé tryggt. Þar á áherslan að mínu viti að liggja vegna þess að öryggi er sú grundvallarstoð sem samfélagið byggir á. Í því sambandi verður sérstaklega að líta til þeirra verkefna sem lögreglan sinnir og það verður að gæta að því að vega ekki of harkalega að þeim vegna þess að verkefnin á því sviði eru að aukast og það er gríðarlega mikilvægt að landsmenn allir finni fyrir því að grunnstoðir eins og löggæsla og sjúkrabílaakstur verði enn til staðar, sama hvar á landinu maður býr. Vissulega hafa heyrst raddir, m.a. af Reykjanesinu og eins af Suðurlandi, um að til standi að skera verulega niður þjónustu sjúkrabíla. Það er áhyggjuefni að forgangsröðunin sé sú og maður skilur þær athugasemdir sem fram hafa komið, m.a. í fjölmiðlum, um einstaka liði í fjárlagafrumvarpinu sem virðast í einhverjum tilfellum vera til nokkurs konar gæluverkefna á meðan menn horfa upp á að það eigi að skera niður á mikilvægum og lífsnauðsynlegum sviðum eins og í sjúkrabílaakstri.

Herra forseti. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram nefndarálit frá 1. minni hluta fjárlaganefndar — og ég tel reyndar að fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd sé með á þessu áliti með fyrirvara, já, það er rétt — þar sem tekið er á helstu göllunum á fjárlagafrumvarpinu sem fyrir liggur frá ríkisstjórninni. Helstu athugasemdirnar sem gerðar eru í þessu nefndaráliti eru að tekjuhlið frumvarpsins sé ekki klár og að þegar hafi verið slakað á aðhaldskröfum milli 1. og 2. umr. Þar sé í rauninni verið að hverfa frá því að taka á þessum vanda af festu og í þriðja lagi varðandi þessar óráðstöfuðu fjárheimildir. Þá hafa sjálfstæðismenn bent á aðrar leiðir til tekjuöflunar, m.a. með skattlagningu séreignarsparnaðar og aukningu aflaheimilda auk þess að leggja til frekari sparnaðaraðgerðir sem útlistaðar eru í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar.

Ég vonast svo sannarlega til þess, herra forseti, að það verði lagst yfir þessar tillögur á sanngjarnan hátt í fjárlaganefndinni og þær ábendingar verði teknar til yfirvegunar og skoðunar en ekki einfaldlega kastað fyrir róða af því að þær eru lagðar fram af Sjálfstæðisflokknum. Nú hefur manni heyrst í umræðunni, sérstaklega varðandi skattlagningu séreignarsparnaðar, að þessa hugmynd megi ekki ræða, þetta sé fyrir fram dæmt af fulltrúum stjórnarflokkanna sem tillaga sem sé ekki vert að ræða. Ég hef vissulega áhyggjur af því og ég tel að allir landsmenn hafi áhyggjur af því að þetta séu vinnubrögðin hér. Við stöndum frammi fyrir afskaplega stóru vandamáli og stóru verkefni í ríkisfjármálunum og okkur ber að leita allra leiða til þess að hindra að farið verði í það miklar skattahækkanir að við endum á því að dýpka kreppuna. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af því að þessar ráðstafanir sem stjórnarflokkarnir leggja á borðið verði þess valdandi að kreppan dýpki. Ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér, herra forseti, en reynsla annarra landa kennir okkur að í kreppu eins og þeirri sem hér herjar er ekki rétti tíminn til að fara í það viðamiklar skattahækkanir að þær setji kerfið okkar á hliðina. Ég óttast að það sé að gerast.

Herra forseti. Mig langar til að fara í örstuttu máli yfir þær aðgerðir sem talað er um í nefndaráliti 1. minni hluta um sparnaðarkröfurnar. Þar er gert ráð fyrir að gerð verði 10% sparnaðarkrafa til stjórnsýslustofnana. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við sendum þau skilaboð út í samfélagið að þarna eigi að byrja vegna þess að ég tel að við sem hér stöndum á Alþingi og erum í þessari fjárlagavinnu getum lært mikið af sveitarfélögunum. Vissulega eru þau minni einingar en ríkisbáknið sjálft en engu að síður gripu sveitarfélögin, flestöll sem höfðu tök á því, strax í fyrra til mikilla aðgerða við að herða vinnubrögð og eftirlit varðandi fjárhagsáætlunargerð til þess að búa sig undir það sem koma skyldi. Í þeim sveitarfélögum þar sem ég þekki best til var í rauninni byrjað á að skera niður í stjórnsýslunni, á toppnum, og síðan unnu menn sig niður allt kerfið. Ég tel einfaldlega að ríkið eigi að senda þessi skilaboð og að okkur sem hér störfum beri skylda til þess að horfa til þessarar reynslu. Þótt sveitarfélögin séu oft gagnrýnd fyrir að vera of lítil og sagt að þau geti ekki tekið á hinum og þessum málum af því að þau séu of smá og þess vegna sé nauðsynlegt að sameina þau með lögþvinguðum aðgerðum ná þau samt betur en ríkið að grípa til aðgerða gegn vágesti eins og efnahagslægðinni sem hér ríkir. Það er einfaldlega staðreynd og við eigum ekki að loka augunum fyrir því heldur sækja einmitt í þá reynslu og taka þaðan það sem hægt er að nota.

Herra forseti. Ég kom aðeins inn á það áðan að vinstri stjórn hefur nú ríkt í landinu í ellefu mánuði og einhverja daga. Þess vegna er ekki hægt að benda á að þetta sé allt einhverjum öðrum að kenna, að þetta fjárlagafrumvarp og þessi vinnubrögð sem hér birtast okkur varðandi ríkisreksturinn séu öðrum að kenna og á ábyrgð annarra en þeirra flokka sem eru í ríkisstjórn. Það er einfaldlega ekki hægt að gera það og ekki trúverðugt. Nú er einfaldlega svo komið, herra forseti, að það er ekki lengur hægt að nota það sem afsökun að aðrir flokkar hafi ráðið fyrr á tímum. Nú eru menn búnir að hafa tæpt ár til þess að breyta hlutunum. Það átti ekki að breyta neitt litlu, það átti að breyta öllum grunnstoðum kerfisins. Það er ekki endalaust hægt að skýla sér á bak við aðra en sjálfan sig, menn þurfa að bera ábyrgð á eigin gerðum hvort sem þeir heita Vinstri grænir eða Samfylkingin. Menn þurfa að kannast við vald sitt.

Ef við tökum dæmi eins og mál sem hefur verið mikið rætt hér á þinginu, Icesave-málið, þá eru þeir flokkar sem hér stjórna með valdið í sinni hendi um það hvort og með hvaða hætti samið er um Icesave. Það var gert á ákveðinn hátt. Við sjálfstæðismenn hefðum ekki leitt það mál til lykta á þann hátt sem núverandi flokkar í ríkisstjórn gerðu. Engu að síður koma menn hingað upp og segja að þessi niðurstaða sé Sjálfstæðisflokknum að kenna. Þetta þykja mér einkennileg vinnubrögð og mér finnst mjög skrýtið ef menn eru í framboði og pólitík eingöngu til þess að benda á aðra en sjálfa sig. Ég vonast til þess, herra forseti, að þessu fari nú að linna, að menn fari einfaldlega að vera í pólitík á eigin forsendum og tala fyrir eigin málstað en ekki til þess að lasta aðra eða vera á móti öðrum. Mér leiðist þessi lenska. Það eru helst eldri þingmenn sem gera þetta, herra forseti, og ég vonast til þess að menn vindi sér í að tala bara fyrir sjálfa sig. Þeir hljóta að vera í pólitík af einhverjum ástæðum, vegna einhverra hugsjóna sem þeir ætla þá að koma til framkvæmda þar sem þeir eru einu sinni með völdin í sínum höndum. Ég vonast til þess að sjá þessa breytingu með hækkandi sól á nýju ári en engu að síður verðum við að klára þessi fjárlög, okkur ber skylda til þess. Ég hef, eins og forseti og þingheimur hefur heyrt, miklar áhyggjur af öllum þessum skattahækkunum sem eiga eftir að koma til umræðu seinna í vikunni og ég mun tjá mig um þær þegar þar að kemur. Að mínu viti er gáfulegra að reyna að stækka kökuna og skapa þannig aðstæður að hér skapist fleiri störf þannig að fleiri einstaklingar komist út á vinnumarkaðinn til þess að afla sér tekna og afla jafnframt skatttekna fyrir ríkissjóð.