138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum störf þingsins. Ég er ekki með neina beina fyrirspurn til neins þingmanns heldur ætla ég að vekja athygli þingmanna á svari sem mér barst frá hæstv. forsætisráðherra í gær við þeirri spurningu hvenær legið hefði ljóst fyrir að afgreiðsla Icesave-málsins væri ein af forsendum þess að efnahagsáætlunin fyrir Ísland yrði endurskoðuð. Það er einstaklega einkennilegt að líta á það svar sem hæstv. forsætisráðherra gefur því að hún telur að um mitt ár 2009 hafi komið fram vissar vísbendingar um að litið væri á afgreiðslu Icesave-málsins og endurskoðun efnahagsáætlunar sem samhliða mál og forsendu fyrir því að hægt væri að endurskoða þessa áætlun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta er sérstaklega skrýtið svar í ljósi þess að fyrir helgi kom fyrir augu manna skjal sem lekið var á netið og varðar bréfaskriftir Indriða H. Þorlákssonar og Marks Flanagans um það að þessi mál væru samtengd. Það skjal var frá 14. apríl 2009 eða rétt fyrir kosningar. En eins og kom fram í ræðum fyrir helgi var það ósk íslenskra stjórnvalda að þessi mál færu ekki hátt fyrir kosningar og ekki væri æskilegt að þau kæmust í hámæli.

Við getum svo farið aftur í dagsetninguna þegar hæstv. fjármálaráðherra sagði beinlínis ósatt þegar formaður Framsóknarflokksins spurði hann hvernig gengi með samningsdrög og samninga í Icesave-samkomulaginu. Það var í byrjun júní þannig að þetta mál er allt að verða mjög einkennilegt og hótanirnar sem koma fram í svari hæstv. forsætisráðherra frá í gær — ég hvet ykkur til að kíkja á það, en þetta eru óásættanlegar hótanir sem við erum beitt sem sjálfstætt ríki og þjóð á meðal þjóða.