138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil eiga orðastað við hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og skattanefndar. Við höfum verið að ræða skattamál í efnahags- og skattanefnd og umsagnir hafa vægast sagt verið mjög neikvæðar. Það hlýtur að hafa verið mikil áþján fyrir hv. þingmann að hlusta á gesti og lesa umsagnir.

Nú hefur verið lagt fram, af hv. þm. Bjarna Benediktssyni, frumvarp um að skattleggja séreignarsparnað. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd hafa lagt fram breytingartillögu um að taka upp skattlagningu á séreignarsparnað sem veldur því að halli á ríkissjóði minnkar allverulega og þá munar það tugum milljarða. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðað skattlagningu séreignarsparnaðar og sérstaklega í ljósi hinna neikvæðu umsagna og alveg sérstaklega þar sem talið er að árið 2010 verði erfiðasta árið eftir kreppuna og mjög mikilvægt að sem fæst fyrirtæki fari á hausinn í þeirri stöðu — það eru mikil verðmæti sem fara forgörðum þegar fyrirtæki leggja upp laupana — hvort ekki sé skynsamlegra að viðhalda þeim verðmætum með því að skattleggja séreignarsparnaðinn fyrst og síðan að ári að taka upp þá skatta sem ríkisstjórnin kærir sig um og þá í betra tómi og í meiri rólegheitum þannig að búið sé að fara í gegnum alla þá galla sem virðast vera á þessum lögum og reyna að minnka flækjustigið sem fylgir þeim.

Þetta er mín spurning til hv. þingmanns, hvort ekki sé betra fyrir þjóðina að fá skattlagningu séreignarsparnaðar sem brú yfir þá gjá sem hún stefnir í á árinu 2010.