138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það hefur ekki verið nein áþján að fara yfir skattamálin, öðru nær. Ég held að miðað við þær aðstæður sem við erum í hafi okkur öllum verið ljóst að fyrir okkur lægju margar erfiðar ákvarðanir til að rétta af fjárhag ríkisins. Ég held að við höfum þvert á móti ástæðu til að vera ánægð með að þó hafi verið hægt að draga úr þeim hækkunum á tekjuskatti sem útlit var fyrir í fjárlögum. Það er líka verið að auka jöfnuð í kerfinu, það er verið að hlífa hinum lægst launuðu og það er líka verið að taka á ýmsum réttlætismálum. Ég nefni þar m.a. skattlagningu einkahlutafélaga sem hefur að ýmsu leyti verið ósanngjörn gagnvart launamönnum og hætta á að það hafi verið misnotað.

Hvað varðar skattlagningu séreignarsparnaðar þá höfum við, ég og hv. þingmaður, margítrekað rætt það. Hann veit út af fyrir sig að ég hef jákvæða afstöðu til hugmyndarinnar. Ég hafna því hins vegar að hún geti komið í staðinn fyrir þær aðgerðir sem við þurfum að grípa til. Ég held að hún gæti orðið hluti af lausn á því viðfangsefni sem við þurfum að leysa úr á næstu þremur árum. Ég tel jafnframt að tekjur af henni séu af hálfu hv. þingmanns stórlega ofmetnar.

Hv. þingmaður lítur fram hjá því að umtalsverður hluti af séreignarsparnaðinum er samtrygging sem menn hafa greitt inn sem grunniðgjöld, margir um áratugaskeið — að skattleggja samtrygginguna inni í séreignarsjóðunum með sérstökum lögum væri auðvitað að mismuna þeim sem hafa verið með sína samtryggingu á þeim vettvangi gagnvart þeim sem eru í almennu sjóðunum. Ég held þess vegna að tekjurnar sem hægt er að fá úr þessu séu umtalsvert ofmetnar hjá hv. þingmanni en þær eru engu að síður talsverðar og geta sannarlega hjálpað okkur við að brúa umrætt bil. En það er ekki hægt að nota þær í staðinn fyrir allar aðgerðir á næsta ári.