138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það eru mjög skörp skil á milli samtryggingarsjóða og séreignarsjóða enda felst í orðinu séreign að það er eign viðkomandi einstaklings og fer hvorki til annarra aldurshópa né annarra í sama sjóði. Það er séreign og þess vegna er mjög auðvelt að halda utan um það. Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu og mati á aukningu á árinu verður þessi séreign um áramót 309 milljarðar. Hægt er að skattleggja hana án þess að sjóðirnir verði varir við það, með því að þeir gefa út skuldabréf til að borga skattinn. Það er líka hægt að skattleggja hana án þess að sjóðfélagi verði var við það því að það vita allir, og það eiga sjóðfélagar í séreignarsjóðum að vita, að þessi sparnaður er óskattaður og verður skattaður þegar þeir fá þetta greitt út. Þessi hugmynd breytir því engu nema því að ríkið tekur til sín þessa eign í eitt skipti fyrir öll til að brúa það bil sem þjóðin stendur frammi fyrir. Ef við tökum tekjuskattinn þá munu allir greiða lægri skatt, alveg sérstaklega þeir sem hafa lægstu launin vegna þess að persónuafsláttur mun þá halda áfram að vera verðtryggður sem ASÍ hefur t.d. lagt ofuráherslu á að ekki verði hvikað frá.

Skattlagning á atvinnu, sem er hækkun á tryggingagjaldinu, kæmi ekki heldur til framkvæmda þannig að það er hægt að fresta um ár öllum þeim skattabreytingum sem ríkisstjórnin leggur til og gott betur því að skattlagning séreignarsparnaðar gefur væntanlega 75 milljarða í tekjur fyrir ríkissjóð og 40 milljarða í tekjur fyrir sveitarfélögin, og það vantar líka inn í dæmið. Ég sé því ekki annað en þetta sé mjög góð lausn til að brúa það bil sem þjóðin stendur frammi fyrir og árið 2011 eru fyrirtækin og heimilin í landinu miklu betur í stakk búin til að taka á sig skattahækkanir.