138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við höfum talað mikið um skuldavanda heimilanna á þessu þingi og eins í sumar. Við samþykktum lög í lok október, nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna bankahrunsins. En svo virðist sem þær aðgerðir skili ekki þeim árangri að skuldavanda heimilanna sé eytt eða að við ættum að hafa minni áhyggjur af honum en ella.

Við meðferð málsins tókum við sjálfstæðismenn þátt í því að flýta því í gegnum þingið í ljósi þess að við töldum að það væri gott að þó þessar aðgerðir væru komnar til. Við töldum þær ekki ganga nógu langt, við töldum þær ekki vera fullnægjandi og ekki taka á vandanum, en við treystum því að þetta væri byrjunin á því að fara í skoðun á því hvort frekari aðgerða væri þörf og treystum því að full alvara væri þar að baki og vilji til þess.

Um þúsund eignir bíða nú nauðungarsölu og svo virðist sem sá bunki sé ekkert að minnka. Það var talið af ýmsum að þær aðgerðir sem við samþykktum í október mundu leiða til þess að kröfuhafar og skuldarar mundu ná að semja um eitthvað af sínum skuldum þannig að eitthvað af þessum nauðungarsölubeiðnum yrðu afturkallaðar. Raunin virðist sýna okkur, miðað við þær fréttir sem gaf að líta á sunnudagskvöldið í fréttaaukanum á RÚV, að svo er ekki. Af þessu höfum við þungar áhyggjur og mig langar að spyrja hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, sem á sæti í félags- og tryggingamálanefnd, og átti þátt í því, ásamt þeirri sem hér stendur, að þessi lög fóru í gegn, hvaða sjónarmið þingmaðurinn hefur í þessu máli, hvort nóg sé að gert eða hvort þörf sé á frekari aðgerðum. Ég tel nefnilega brýnt að við sendum einhver skilaboð úr þinginu fyrir hátíðarnar.