138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður sé ánægð með fyrirspurnina og að fréttin hafi vakið athygli hennar. Vissulega er mikið áhyggjuefni ef það er rétt að bankarnir nýti ekki sitt verksvið og svigrúm til að grípa til aðgerða til hjálpar skuldsettum heimilum. Þá er kannski spurning hvort verkstjórnarvaldið sé nægilega gott og við ættum jafnvel að ræða þá spurningu hér.

Nauðungarsölufrestunin er engin lausn. Upphaflega var frestað til 1. nóvember en nú skilst mér að það standi til loka febrúar eða til 1. mars. Það er að mínu mati ekki fullnægjandi að við frestum alltaf vandamálinu. Við hljótum að ætla okkur hér á Alþingi að finna leiðir til lausna vegna þess að ekkert er verra en óvissa. Ég tel að ekkert sé verra fyrir hin skuldsettu heimili en að vita að ekkert sé í pípunum annað en að lengja aðeins í snörunni og bíða og sjá til. Slík óvissa tel ég að sé nánast óbærileg fyrir heimilin.

Frú forseti. Ég vonast til þess að sú nefnd sem ráðherra mun skipa, starfshópur með fulltrúum allra þingflokka, taki til starfa sem fyrst og vinni hratt og vel þrátt fyrir að það séu að koma jól. Menn verða einfaldlega að setjast yfir þetta og reyna að leita nýrra lausna. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ef bankarnir eru ekki að fylgja þessu eftir og lögunum er ekki nægilega beitt verður að grípa inn í, taka í taumana og fara af stað í það verkefni vegna þess að við getum ekki sent þau skilaboð að engar lausnir séu í farvatninu (Forseti hringir.) heldur eingöngu frekari frestanir.