138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræddum 2. umr. fjárlaga fram á nótt og þar staðfestist sá grunur að vinnubrögð í fjárlaganefnd væru í skötulíki. Það er einn sérkennilegasti brandari sem við höfum heyrt þegar hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði að þetta hefði aldrei verið unnið jafn vel og núna.

Það hefur verið upplýst, virðulegi forseti, að engin umsögn hefur borist um verkefnatilflutning þar sem heilbrigðisþjónusta er færð yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Það er verið að færa heilbrigðisþjónustu í annað ráðuneyti, þetta er verkefnatilflutningur upp á 20 milljarða kr. og engin fagleg umsögn hefur borist. Í þeirri litlu umræðu sem farið hefur fram um málið hefur komið skýrt fram að engin fagleg rök eru fyrir þessu.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga tók upp á því upp á sitt einsdæmi að álykta um þetta og ég vona að það hafi ekki móðgað hæstv. ríkisstjórn. Þar er alfarið lagst gegn þessu af augljósum ástæðum. Þetta eru hin mestu pólitísku hrossakaup milli ráðherra sem maður hefur séð á síðustu árum ef ekki áratugum. Hér hafa spunameistarar Samfylkingarinnar metið það þannig að svo margt sé í gangi að það sé sjálfsagt að læða þessu inn í skjóli nætur.

Hvað eftir annað hefur vanþekking hv. stjórnarþingmanna hvað þetta varðar verið afhjúpuð. Þeir hafa talað eins og þetta sé búsetuúrræði, að þetta tengist því að það eigi ekki að sjúkdómavæða aldraða og þetta tengist verkefnatilflutningi til sveitarfélaga. Allt er þetta alrangt. Ég spyr þess vegna hv. formann fjárlaganefndar hvort hann telji að okkur hafi yfirsést fleiri mál eins og þetta (Forseti hringir.) því ef ég skil rétt ætla menn að keyra þetta í gegn og ekkert gera með fagleg rök.