138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að munnhöggvast við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson um vinnubrögðin í fjárlaganefnd. Ég stend við það að mun vandaðri undirbúningur hefur verið að mörgu leyti að allri fjárlagagerðinni og lengri aðdragandi en oft áður þó ég hafi ekki nema tveggja ára reynslu varðandi þann málaflokk. Menn geta svo haft sínar skoðanir á því og dásamað það vinnuform sem var hér áður þar sem maður fékk tilkynningu þegar maður mætti í byrjun október um hvernig fjárlögin væru, hafði þá ekki komið að þeim með neinum hætti áður og ekki gefinn mikill tími til að afgreiða þau.

Hér er fjallað um það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur áhyggjur af, þ.e. millifærslu á peningum milli ráðuneyta. Það hefur að mínu mati ekkert með verkefnin að gera, hvernig þau verða unnin eða hver ber ábyrgð á þeim, heldur hvorum megin peningarnir eru vistaðir. Ég veit ekki betur en að þegar við afgreiddum fjárlög í desember sl. væri ákvæði um að þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra og nú hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skuldbindi sig til að ganga frá samningi í janúarmánuði. Það er inni í fjárlögunum 2009, um verkaskiptingu á milli ráðuneyta. Það er best að hv. þingmaður svari því sjálfur af hverju þeirri vinnu lauk ekki áður en hann sté af stóli í byrjun febrúar. Síðan gengu hæstv. félagsmálaráðherra og þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson frá samningi um hvorum megin þessi mál væru vistuð fjármálalega. Útfærslan á því er ekki verkefni fjárlaganefndar heldur að tryggja peninga til málaflokksins og það höfum við gert.

Ég skil því ekki að þessi spurning eigi í sjálfu sér neitt erindi til mín. Það er útkoman sem skiptir máli, hvernig við búum að öldruðum og hvernig málaflokknum er sinnt. Engar hugmyndir hafa komið upp um að heilbrigðismálum verði sinnt (Forseti hringir.) frá félagsmálaráðuneyti að því ég best veit.