138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir þessa yfirferð. Það er eitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann að sérstaklega og varðar þau vandamál sem Landspítalinn – háskólasjúkrahús er í. Nú er ekki tekið á því í fjáraukalögunum, né heldur er gert ráð fyrir þeim í fjárlögunum árið 2010 og uppsafnaður halli Landspítalans eru 2,8 milljarðar á þessu ári. Gerð er hagræðingarkrafa á Landspítalann á næsta ári upp á 3,2 milljarða, sem eru þá um 6 milljarðar. Væntanlega þarf Landspítalinn að taka til í rekstrinum á næsta ári um 6 milljarða, sem er í kringum 20% af heildarfjárveitingu til spítalans.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji raunhæft að Landspítalinn geti farið í þessar aðhaldsaðgerðir á næsta ári upp á 6 milljarða, eða hvernig menn hafi hugsað sér að taka á þessum halla Landspítalans.

Við ræðum hér um fjáraukalög og það kemur fram að þótt við náum þessum jöfnuði, sem er gott, er mjög mikið frávik í tekjuáætluninni sjálfri, þ.e. skatttekjur á hagnað einstaklinga og lögaðila minnka. Vil ég sérstaklega spyrja í því ljósi að við afgreiðum nú fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010, hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því að þær skatttekjur muni ekki skila sér í ljósi þeirra niðurstaðna sem hér eru. Það vantar 6,6 milljarða upp á að skatttekjur einstaklinga skili sér og eins nú eru skatttekjur á lögaðila um 2,5 milljörðum minna en reiknað var með. Samt gerum við ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu árið 2010 að það muni aukast um 4,2 milljarða miðað við það sem upphaflega var reiknað með. Fyrst og fremst vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hann raunhæft að fara með Landspítalann – háskólasjúkrahús inn í árið 2010 án þess að taka eitthvað á þeim vandamálum?