138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ræðu minni tilgreindi ég einmitt Landspítalann, vegna þess að það er rétt að á undanförnum árum hefur Landspítalinn alltaf verið rekinn með halla og fengið leiðréttingar í fjáraukalögum. Það er ekki gert núna að þessu sinni en menn eru þó bæði meðvitaðir um að taka þarf á hallanum frá 2008 með einhverjum hætti. Það verður væntanlega gert í lokafjárlögum, en þó er búið að gefa fyrirheit um að menn frysti þá fjárveitingu og láti hana ekki af hendi nema spítalinn nái þeirri hagræðingu. Það verður þó ekki gengið frá því að fullu fyrr en menn hafa komið rekstrinum í það horf sem fjárheimildir veita spítalanum. Það gildir jafnt frá þessu ári yfir á næsta ár. Það eru ákveðin vonbrigði að gengið hefur hægar að hagræða á spítalanum en reiknað hafði verið með. Menn verða auðvitað að hafa allan fyrirvara á því að það þurfi hugsanlega að taka á þessum málum seinna, en það verður ekki gert í fjáraukanum frekar en á öðrum stofnunum til þess að viðhalda þessari aðhaldskröfu. Það verður þá að fjalla um það sérstaklega við gerð lokafjárlaga og uppgjörs með hvaða hætti það verður gert. Það liggur ekki fyrir hér í frumvarpinu en ekki gerð tillaga um að mæta þessu einfaldlega vegna þess að menn ætla að reyna að komast út úr þessari hringavitleysu varðandi fjáraukann. Það raunar er það sem Ríkisendurskoðun fagnar í bréfi sínu, að menn reyni að herða aðhaldið og gera skýrari kröfu um að menn standist áætlanir. Það krefst um leið þess að menn vinni betri áætlanir, þeir þurfa auðvitað að fara vel yfir reksturinn og ég treysti því að verið sé að því á þessum tíma.

Hitt erindið var … (Gripið fram í.) Ég sé að hv. þingmaður ætlar að koma hér aftur, hann ber hina fyrirspurnina upp aftur.