138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi tekjustofnana, er það innbyggt í öll þau líkön sem notuð eru til þess að reikna út forsendur fjárlaga og menn gera líka ráð fyrir að tekjustofnarnir geti veikst. Þar byggja þeir á reynslutölum þótt það sé auðvitað erfitt í þessu árferði að vera nákvæmur hvað það varðar. Þær breytingar sem gerðar hafa verið byggja á rauntölum. Það hefur ræst heldur úr á seinni hluta ársins miðað við það sem menn spáðu. Ég bind því miklar vonir við að þessir tekjustofnar haldi miðað við þær áætlanir sem lagðar hafa verið fram og við fengum fyrir því ágætan rökstuðning í fjárlaganefnd að svo mundi verða.

Varðandi skýr skilaboð og fyrirmæli til einstakra stofnana er Landspítali – háskólasjúkrahús nefndur aftur. Þær tölur sem birtast á blaði við afgreiðslu fjárlaga eru þær tölur sem viðkomandi stofnanir eiga að vinna eftir, það er klárt. Ábyrgðin er fyrst og fremst í höndum forstöðumanns stofnunar á hverjum stað. Eftirlit með þessum stofnunum er síðan hjá viðkomandi fagráðuneytum. Þá er það ráðuneyti sem á síðan að fylgja því eftir að fjárlög standist. Þar á eftir kemur fjárlaganefndin og síðan Ríkisendurskoðun sem hjálpar okkur við að fylgjast með hvort menn standi við þær áætlanir sem gerðar hafa verið.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram, það skiptir auðvitað miklu máli hvaða skilaboð eru gefin. Hér hefur það viðgengist að menn hafa getað gert út á fjáraukalög, eins og það hefur verið kallað. Það hefur nánast verið regla að hér hafi verið nokkrir milljarðar í fjáraukalögum. Ég held að þetta tímabil sé búið. Ég held að menn þurfi að breyta þessu og það er okkar hlutverk að gera það. Ein af leiðunum sem geta verið til þess að hjálpa stofnunum út úr þessum vítahring er einmitt að setja tilsjónarmann fyrst og fremst til þess að kíkja yfir öxlina, fara yfir reksturinn og hjálpa mönnum að átta sig á því hvar hægt er að snúa við steinum og gera betur. Það þarf ekki endilega að reka fólk til þess, það getur verið þarna fólk sem býr yfir mjög mikilli reynslu. Það eru dæmi um að þessu hafi verið beitt og er raunar þekkt frá öðrum löndum. (Forseti hringir.) Ég held að við eigum að nýta okkur þessa aðferð. Það þýðir ekki að (Forseti hringir.) forstöðumenn eigi ekki að bera ábyrgð.