138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alltaf ánægjulegt við umræðu um fjáraukalög hversu menn eru brosmildir og í góðu skapi þegar fjáraukalögin eru rædd, því að þá er verið að gera upp ákveðna hluti sem gripið hefur verið til á yfirstandandi ári og þess sér ágætlega stað í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Þar er verið að grípa til aðgerða sem sýna með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst halda þau skilaboð sem felast í lagasetningu fjárlaga hvers árs. Þegar litið er yfir það frumvarp sem hér liggur fyrir við 2. umræðu sést að gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til að reyna að halda meginmarkmið fjárlaga ársins 2009 sem lúta að hallarekstri ríkissjóðs. Þar var gert ráð fyrir 153 milljarða halla og nú sýnir þetta frumvarp að miðað er við að halli ársins verði 151 milljarður. Ég vil þó leyfa mér að fullyrða að það er tvímælalaust innbyggður halli í fjárlög ársins sem ekki er kominn fram. Það kemur hins vegar ekki í ljós fyrr en við lokafjárlög fyrir árið 2009 hvernig tekið verður á þeim þáttum en það er alveg ljóst í mínum huga að hér eru vantalin gjöld og hugsanlega oftaldar tekjur, þótt ekki sé um það að ræða í utanríkisþjónustu landsins.

Nefndin fékk tillögur til umræðu frá ríkisstjórn og hefur fjallað um þær. Við höfum haft það verkefni að leita skýringa frá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum á fjárbeiðnum um auknar fjárheimildir sem og öðrum þáttum sem lúta að rekstri ríkisins. Í því nefndaráliti sem ég mæli hér fyrir, sem að standa hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson, Höskuldur Þór Þórhallsson og Ólöf Nordal, höfum við sett upp töflu sem leiðir fram þær breytingar sem orðið hafa á frumvarpinu í meðförum nefndarinnar.

Niðurstöðutölur á tekjuhliðinni eru 417 milljarðar en á gjaldahliðinni 568 milljarðar, þannig að jöfnuðurinn er 151 milljarður. Hafa ber þó í huga varðandi umræðu sem á sér stað um þennan jöfnuð, sem var til líka umræðu í tengslum við lagasetningu í júní í sumar um jöfnuð í ríkisfjármálum árin 2009–2013, að í greinargerð með því frumvarpi kom fram að ekki hafi verið talinn með til gjalda 20 milljarða verðbótaþáttur af lánum ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands vegna skuldar ríkissjóðs við bankann vegna lána Seðlabankans til viðskiptabankanna.

Eins og ég nefndi áðan var talið að þessi fjárhæð gæti numið 20 milljörðum kr. og samkvæmt reikningsskilareglu sem gildir hjá ríkissjóði við uppreikning langtímalána, skulu áfallnar verðbætur færast yfir höfuðstólsreikning en ekki um rekstrarreikninginn. Verðbæturnar hækka því höfuðstól lánanna en mótfærslan er á endurmatsreikningi og hefur því ekki áhrif á fjármagnsgjöld í rekstrarreikningi. Þessi aðferð hefur verið notuð í fjöldamörg ár og byggist á gamalli samþykkt ríkisreikningsnefndar. Aðferðin hefur í för með sér að einungis raunvextir verðtryggðra lána koma að fullu til gjalda í rekstrarreikningi ríkissjóðs og því má segja að færslan vanmeti vaxtagjöld verðtryggðra lána og skekki samanburð á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána.

Þetta er atriði sem ég tel að þurfi að fara í gegnum frá grunni, einfaldlega vegna þess að lögin sem þetta byggist á eru frá 1967 en lögum um þessi mál og hvernig þeim er háttað á Alþingi var breytt 1997. Nefndin starfar á grunni ákveðinnar samþykktar sem mun eftir því sem orðalag hljóðar vera til muna eldra. Er nauðsynlegt að skýra þetta atriði til að koma í veg fyrir að við séum með skakkan samanburð á milli þessara stóru grunnþátta.

Eins og ég gat um áðan hefur ríkisstjórnin lagt fram breytingartillögur við 3. umr. Við fengum þær til umfjöllunar í fjárlaganefnd 7. desember. Í þeim tillögum kom fram að tekjurnar mundu hækka um 8,7 milljarða og útgjöld lækka um rétt rúma 6 milljarða og jöfnuðurinn átti að batna samkvæmt tillögunum um 14,8 milljarða og verða neikvæður um þá stærð sem ég gat um áðan.

Helstu breytingarnar samkvæmt tekjutillögu fyrir 3. umr. eru þær að skattar á tekjur og rekstrarhagnað einstaklinga hækka um 2 milljarða, á lögaðila hækka skattarnir um 3 milljarða. Fjármagnstekjur einstaklinga lækka um 1.250 milljarða, vaxtatekjur af endurlánum tæplega 3 milljarða, og aðrar vaxtatekjur um 1.210 millj. kr.

Á það var minnst í framsögu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, formanns fjárlaganefndar, áðan að í frumvarpinu sé tekið á greiðslum vegna Arion banka. Ég vil gera það að umtalsefni hér að í tekjutillögum ráðuneytisins þegar þetta kom fyrst fram var gert ráð fyrir því að Arion banki greiddi 6,5 milljarða í arð til ríkissjóðs sem síðan yrði lánað strax til baka til bankans frá ríkinu með víkjandi láni til allt að tíu ára. Við í minni hlutanum gerðum strax athugasemdir við þetta fyrirkomulag í ljósi þess að aðalfundur bankans hefur ekki verið haldinn og það er hluthafanna og aðalfundar að taka ákvörðun í þessum efnum. Því vildum við meina að ekki væri hægt að skuldbinda verðandi eigendur með þeim hætti sem tillaga fjármálaráðuneytisins gerði ráð fyrir. Að auki væru útskýringar á þessum tilfærslum óljósar og lítt rökstuddar. Meiri hluti fjárlaganefndar féllst á þau sjónarmið okkar í stjórnarandstöðunni og tillöguflytjendur voru krafðir um betri upplýsingar og betri gögn. Jafnframt var Ríkisendurskoðun fengin til fundar við nefndina þar sem fjallað var um þetta á sameiginlegum fundi með fjármálaráðuneytinu. Ríkisendurskoðun tók málið til athugunar og staðfesti rauninni þær athugasemdir sem stjórnarandstaðan hafði gert. Niðurstaða málsins var sú að breytingarnar ganga eftir eins og lagt var upp með í fyrstu, þ.e. það er ekki hægt að færa þetta sem arðgreiðslu frá bankanum þegar hluthafafundur hefur ekki verið haldinn. Minni hlutinn gagnrýnir þessar bókhaldsæfingar ríkisstjórnarinnar. Óneitanlega hefði komið sér betur svona út á við að láta líta svo út að jöfnuðurinn sem að var stefnt í fjárlögum ársins 2009 hefði náðst og gott betur, það hefði verið hægt að sýna fram á með þessum hætti til muna hagstæðari niðurstöðu á tekjuhliðinni.

Hins vegar óskuðum við eftir fyllri upplýsingum um þetta mál frá fjármálaráðuneytinu en því miður höfðu þær upplýsingar ekki skilað sér þegar við rituðum þetta álit í morgun, en fulltrúarnir hafa mætt til fundar við nefndina og kynnt nýjar tillögur til breytinga sem taka mið af þeim athugasemdum sem ég gat um áðan og það ber að virða það.

Við teljum alveg óhjákvæmilegt að gerð verði örlítið nánari grein fyrir fjárbeiðni af þeirri stærðargráðu sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og hefur óskað eftir að Alþingi staðfesti sem lög. Það hefur komið fram í máli manna, bæði um fjáraukann og ekki síður varðandi fjárlögin sem voru rædd hér fyrr á fundi í morgun, að forsendur fyrir tekjuáætlun eru mjög óvissar í dag og það tekur líka til fjáraukalagafrumvarpsins eins og það liggur fyrir. Í rauninni er bráðnauðsynlegt að styrkja eftirlitshlutverk fjárlaganefndar og auka agann við framkvæmd fjárlaga að allar nánari forsendur breytingartillagna af þessari gerð verði veittar, þeirra verði aflað, og að ráðuneyti, hvort sem það er fjármálaráðuneyti eða önnur sem stefna að því að ná ákveðnum tekjum eða sparnaði, séu krafin rækilegra skýringa á því með hvaða hætti ætlunin er að ná þeim markmiðum sem þeim eru sett. Enn fremur er sjálfsagt að skoða hvaða þættir það eru í efnahagslífinu sem gefa tilefni til tekjuáætlana þegar svo árar sem nú er raunin.

Við gerðum á fyrri stigum við fjáraukalagatillögur miklar athugasemdir við áætlanir ríkisstjórnarinnar um tekjuauka af sköttum einstaklinga og lögaðila, svo og áætlaða hækkun tekna af virðisaukaskatti, þar sem við, því miður verð ég að segja, teljum mjög vafasamt að þessar áætlanir nái fram að ganga. Í því sambandi vil ég vitna til rökstuðnings fyrir þessum sjónarmiðum sem er að finna í nefndaráliti 1. minni hluta við fjáraukalögin, og ég leyfi mér í rauninni að vitna til þess hér í ræðu minni, þar sem við rökstuddum það með ágætum hætti og málefnalega að tekjuáætlunin væri ofmetin og gjaldahliðin væri vanmetin.

Ef menn kjósa að draga í efa skýringar okkar má nefna í því sambandi að Ríkisendurskoðun hefur tekið undir þessi sjónarmið. Þegar við óskuðum eftir greiningu eða athugun hennar á áhrifum bandormsins svokallaða, lögunum um jöfnun í ríkisfjármálum, kom fram í þeirri samantekt að Ríkisendurskoðun teldi að skattbreytingarnar sem gerðar voru um mitt síðasta ár, og bitnuðu fyrst af öllu á örorku- og ellilífeyrisþegum og höfðu strax áhrif þar eins og sér ágætlega stað í fjáraukalagafrumvarpinu eins og það liggur hér fyrir, hafi ekki skilað sér nema að litlu leyti af tekjum einstaklinga og lögaðila. Hins vegar höfðu skattalagabreytingarnar þau áhrif að þær forðuðu ríkinu frá meiri samdrætti í tekjum en í stefndi og það ber að virða það.

Varðandi gjaldahlutann kemur fram í þessu sama tilvitnaða erindi eða bréfi Ríkisendurskoðunar frá 27. nóvember að stofnunin telur, með leyfi forseta: „óhætt að fullyrða að aðhaldsaðgerðir á miðju ári hafi ekki skilað sér nema að litlu leyti“. Þetta er í rauninni sama fullyrðing um þennan þátt fjáraukalaganna sem þetta snertir eins og lýtur að tekjupóstinum. Það sem ber hins vegar uppi þessa niðurstöðu að hluta til eru tekjur af fjármagni og vöxtum og lánatekjur sem eru verulega hærri en menn ætluðu um mitt ár og raunar í fjárlagagerðinni líka sem unnin var í desember á síðasta ári.

Við óskuðum eftir því, stjórnarandstaðan, að unnið yrði mánaðaruppgjör á grundvelli upplýsinga úr ríkisbókhaldi. Ég vil taka það fram að þetta er óendurskoðað. Þetta var unnið fyrir fyrstu tíu mánuðina, janúar–október, og þá koma þau frávik sem ég hef verið að gera hér að umtalsefni ágætlega fram. Þetta er í tekjum af sköttum á tekjur og hagnað einstaklinga og síðan í sköttum á tekjur og hagnað lögaðila. Þar eru gríðarleg frávik þessa fyrstu tíu mánuði, allt í allt um 9 milljarðar kr. Ég nefndi fjármagnstekjuskattinn í bata upp á 10 milljarða. Virðisaukaskatturinn er einstaki skattstofninn sem tekur mestum breytingum, hann er í þessu tíu mánaða uppgjöri með frávik upp á rúma 9 milljarða kr. sem hlýtur að teljast gríðarlega stórt frávik á þessum tekjupósti því að þetta lætur nærri að vera hátt í 10% frávik.

Ástæðan fyrir þessu er mjög einföld í raun, hún liggur fyrst og fremst í því að samdrátturinn er greinilega meiri og hraðari en menn ætluðu um mitt þetta ár. Við sjáum þess stað í þjóðhagsforsendum sem okkur voru birtar og voru unnar og endurskoðaðar núna í desember. Þar kemur fram að gert er ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um tæp 17% á árinu 2009, fjárfesting í landinu dragist saman um 45% og verg landsframleiðsla dragist saman um 7,9%. Það er í rauninni ósköp eðlilegt að samdráttur verði í tekjum ríkissjóðs af þessum sköttum þegar svona árar í þjóðarbúskapnum og sú tafla sem ég hef gert hér að umtalsefni, óendurskoðuð fyrir fyrstu tíu mánuðina, leiðir ágætlega fram í þessum sköttum þróun þeirra hagstærða sem ég gerði hér að umtalsefni.

Þetta er hálffyrirkvíðanlegt í raun þegar maður ber saman þennan veruleika við veruleikann sem birtist okkur síðan í fjárlagatillögunum sem lúta að tekjuhliðinni, sem gera ráð fyrir enn hærri tekjum af þeirri starfsemi sem ég hef hér nefnt. Það er því ekki að undra þótt óskað sé iðulega eftir frekari rökstuðningi fyrir þeim þáttum sem þar eru tilgreindir.

Ég vil líka nefna hér atriði sem snertir hvort tveggja fjáraukalögin og fjárlögin eins og við ræddum þau í morgun, og það lýtur að fjármögnun bankanna. Það liggur einfaldlega fyrir að kostnaðurinn af því tjóni sem felst í ábyrgð ríkissjóðs á falli bankanna lendir fyrst og fremst á almenningi að bera, skattgreiðendum Íslands. Það er í rauninni eðlilegt þegar horft er til þeirra stærða sem er um sýslað af hálfu ríkisstjórnar í samskiptum og aðgerðum gagnvart fjármálakerfinu og þessar stóru tölur birtast, að mörgum hrjósi hugur við því að glíma við þær því að þetta virðist því sem næst ókleifur veggur þó hann sé það ekki. Því miður fallast mönnum oft hendur og menn taka þær tölur hráar sem þeim eru birtar, tiltölulega hráar, í stað þess að gefa sér rýmri tíma til að gaumgæfa þær og fara á bak við forsendurnar fyrir þessu. Í þessum orðum mínum er engin ill meining, heldur fyrst og fremst ósk um að við vöndum okkur við lagasetninguna og ákvörðun á þessum fjárheimildum, einfaldlega vegna þess að við erum umboðsmenn almennings sem kemur til með að greiða þessar stóru stærðir, en því stærri sem talan er, þeim mun hraðari gengur hún oft í gegn.

Því miður er veruleikinn að birtast manni með þeim hætti að menn eru farnir að tapa verðskyni á fjárhagsstærðir, bæði almenningur og við sem vinnum með þær stærðir sem við erum að ræða. Við erum farin að tala hér um milljarð eins og hann sé bara liggur við ein króna. Ég gleymi því ekki að þegar ég var yngri og óreyndari kannski og ekki með jafnmikið af tölum í höfðinu, þótti manni ein milljón króna gríðarleg fjárhæð og einn milljarður, þúsund milljónir, óskapleg stærð, en nú virðist oft og tíðum í umræðunni enginn vera maður með mönnum nema hann geti helst farið upp fyrir 100 milljarða í umræðu. Þetta er dapurleg þróun og ber að varast, og ég vara við því í vinnu fjárlaganefndar þegar við — þetta venjulega fólk sem við erum — erum að vinna með slíkar stærðir sem við höfum aldrei sýslað með áður, við eigum að gefa okkur tíma til að vanda til verka og grafast fyrir um forsendur þeirra miklu stærða sem unnið er með. Þetta vildi ég bara ítreka og undirstrika við umræðuna núna vegna þess að við erum að sýsla með stóra fjármuni og eigum líka eftir milli 2. og 3. umr. um fjárlögin að fjalla um mjög stór mál.

Ég vil geta þess án þess ég ætli að fara niður í sundurliðun á framlögum eða skuldbindingum til einstakra banka að þar er um að ræða tilfærslur sem fjárlaganefnd hefur í rauninni engar forsendur til að fara inn í og skoða hvað liggur að baki. Þar eru flóknir samningar og vissulega ber að virða það en upplýsingin um þetta mætti vera fyllri en hún er. Í því felst ekki endilega nein gagnrýni á niðurstöðuna sem slíka einfaldlega vegna þess að ég get ekki gagnrýnt hana þar sem ég hef ekki þær upplýsingar undir höndum sem gæfu mér tilefni til þess.

Við í 1. minni hluta fjárlaganefndar erum þeirrar skoðunar varðandi fjáraukalögin eins og þau liggja hér fyrir að sú niðurstaða sem greint er frá í töflunni sem ég gerði að umtalsefni fyrr í ræðu minni sem sýnir fram á það að niðurstaðan í jöfnuði verður neikvæð upp á 151 milljarð og sé þar af leiðandi í takt við fjárlög, sé innbyggður halli í fjárlög ársins 2009. Hvers vegna leyfum við okkur að fullyrða það? Jú, það er einfaldlega vegna þess að við höfum ekki enn fengið upplýsingar um stöðu gjaldaliða í rekstri ríkissjóðs allt þetta ár og vitum í rauninni ekki almennilega hvernig rekstrarliðir einstakra stofnana eða ríkisaðila standa. Sömuleiðis þegar við horfum til lengri tíma, yfir áramótin og inn í næstu fjárlög, vitum við og það hefur verið mikil umræða um það, að ýmsar stofnanir, ég nefni sem dæmi heilbrigðisstofnanir, öldrunarþjónustu, menntamál og samgöngumál, munu að óbreyttu samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu hefja nýtt starfsár með halla og að auki sjáum við dæmi þess í fjárlagatillögu næsta árs að lækkaðar eru fjárveitingar til sömu stofnana. Og maður spyr sig hvernig eigi að fara með þetta. Viðraðar hafa verið hugmyndir um það að ríkisstjórnin leiti samninga við þær stofnanir sem hafa verið að safna halla. Í álitum minni hluta, í það minnsta Sjálfstæðisflokksins í tengslum við fjárlög og fjáraukalögin, hefur verið ítrekað að slíkir samningar séu óheimilir að óbreyttum lögum. Því vil ég leggja áherslu á það við hv. formann og hv. varaformann fjárlaganefndar að þegar kemur að slíkri samningsgerð verði gengið mjög ríkt eftir því áður en til slíkra samninga er gengið, að leitað sé heimilda og lögum breytt sem nauðsyn er á áður en þessi mál verða fullnustuð.

Hins vegar er alveg ljóst að sá þáttur máls sem lýtur að óhöfnum fjárveitingum allt aftur til ársins 2008, er ákveðið dæmi um ákvörðun sem tekin var án þess að hún væri fullnustuð, þ.e. útfærð og henni lokið gagnvart einstökum stofnunum, og miðað við fjáraukalagatillöguna eins og hún lítur út fyrir nú er ekki búið að fullnusta þetta mál og það er miður. Við þekkjum það í umræðunni um t.d. málefni Landspítalans, eins og kom fram í andsvari við framsöguræðu formanns hv. fjárlaganefndar, Guðbjarts Hannessonar, að mál sem þetta kristallast í einfaldlega vegna þess að það er stærst, er rekstrarstaða Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Þetta er mjög erfitt mál í framkvæmd og verður gríðarlega erfitt fyrir viðkomandi stofnanir eftir því sem lengra líður frá því að þessi óskýru fyrirmæli voru gefin og þar til þau eru fullnustuð og því er full ástæða til að hvetja forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar og forustu hennar í fjárlaganefnd til að ýta á að þessu verði lokið sem fyrst.

Sömuleiðis er nefnt í nefndaráliti 1. minni hluta mál sem hefur verið mikið rætt, og ég veit ekki hvort forsvarsmenn hv. fjárlaganefndar eru tilbúnir til frekari umræðu um það í bili, en það er mál sem tengist Icesave-samningunum, sumir fá aldrei nóg af því að ræða það, en þar eru skuldbindingar enn ófærðar inn þrátt fyrir að tilmæli hafi verið um það frá Ríkisendurskoðun að svo skyldi gert. Aðspurðir sögðu fulltrúar fjármálaráðuneytisins, og ég bið hv. þingmenn að taka eftir því, þegar við spurðum í nefndinni hvers vegna skuldbindingin af Icesave væri ekki færð inn í fjáraukalög eða fjárlög, að frumvarpið sem verið væri að þrasa um á þinginu væri ekki enn orðið að lögum. Það er út af fyrir sig skýring en þá má með sama hætti spyrja þegar skattalagafrumvörp ríkisstjórnarinnar eru ekki enn orðin að lögum: Hvers vegna í ósköpunum gerir breytingartillaga meiri hlutans ráð fyrir því að tekjur af þeim komi inn í fjárlagafrumvarpið? Það er ekki samsvörun á milli þessara svara og er í rauninni engin ástæða til að fara með þetta, því að það liggur fyrir í mínum huga að lögin sem voru samþykkt á Alþingi 28. ágúst kveða á um það að greiðsluskyldan sé fyrir hendi og því ber að taka tillit til þessarar skuldbindingar.

Ég vil undir lok máls míns líka nefna tvo aðra þætti sem hafa vissulega komið áður til umræðu. Annar þátturinn lýtur að framkvæmdum utan fjárlaga sem er fjármögnun á stórframkvæmdum sérstaklega. Það er Landspítali – háskólasjúkrahús eins og hér hefur margoft verið rætt og sömuleiðis ákveðin verkefni á sviði samgöngumála og ekki þarf að minna hv. þingmenn á umræðuna um tónlistar- og ráðstefnuhúsið. Þetta er að fara í þennan farveg með þessi stóru verkefni og ber að varast að svo sé gert, einfaldlega vegna þess að lög um fjárreiður ríkisins taka ekki með óyggjandi hætti á þessu viðfangsefni og því er nauðsynlegt að eyða sem fyrst þeirri óvissu sem núverandi tilhögun þessara verkefna hefur í för með sér.

Ég vil að lokum nefna lokafjárlög og ætla að lesa þann kafla úr nefndarálitinu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra sendi forseta Alþingis ríkisreikning 2008 með bréfi dagsettu 26. júní sl. 1. minni hluti bendir á að skv. 45. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, ber að leggja fram lokafjárlög samhliða ríkisreikningi:

„Með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar. Þar skal leitað heimilda til uppgjörs á skuldum eða ónotuðum fjárveitingum sem ekki eru fluttar milli ára. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins. Heimilt er að greiða slíka umframgreiðslu af fjárveitingu næsta árs. Einnig skal gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.““

Nú háttar svo til að við 3. umr. um fjáraukalagafrumvarpið bólar ekkert á þessum upplýsingum. Það er ekki í samræmi við ákvæði laga þar um. Þetta er í rauninni mjög bagalegt, ekki síst í ljósi þeirrar miklu óvissu sem er um fjárlög næsta árs og því hefði verið mjög æskilegt að þetta lægi fyrir. Stjórnarandstaðan telur mjög brýnt að úr þessu verði bætt og heitir á hv. fjárlaganefndarforustu að vinda bráðan bug að þessu, því að það er gjörsamlega óþolandi öllum þingheimi að ekki sé farið að lögum í þessum efnum.

Niðurstaðan af umfjöllun okkar í minni hlutanum er einfaldlega sú að við getum ekki staðið að því að samþykkja fjáraukalögin fyrir árið 2009 miðað við þær takmörkuðu forsendur sem liggja til grundvallar þeim tillögum sem meiri hlutinn hefur lagt fram.