138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:59]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir svarið. Auðvitað getum við deilt um árangur, hvort hann sé orðinn og hvort þær aðgerðir sem ráðist var í í sumar af nokkrum krafti að mér fannst, hafi skilað því sem til var ætlast.

Annað sem mig langar til að beina til hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar er varðandi fjáraukalögin og það sem segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu átta mánuði ársins, með leyfi forseta:

„Á undanförnum áratugum hafa fjárheimildir til stofnana almennt hækkað í fjáraukalögum ólíkt því sem nú er útlit fyrir þegar til stendur að lækka þar fjárheimildir fjölmargra stofnana. Reglan hefur hingað til verið sú að þegar ráðuneyti hafa látið í ljós vilja til að auka fjárveitingar stofnana í fjáraukalögum, hafa forstöðumenn þeirra alla jafna ekki gripið í taumana þótt rekstur færi fram úr heimildum. Þannig hefur viðbótarfjárheimildum í raun verið ráðstafað fyrir fram, þ.e. áður en þær hlutu samþykki Alþingis. Nú þegar til stendur að lækka fjárheimildir stofnana hefur orðið vart tregðu hjá forstöðumönnum að bregðast við því fyrir fram á sama hátt. Þá er vísað til þess að Alþingi hafi ekki samþykkt breytingarnar og því sé ekki hægt að ætlast til þess að unnið sé eftir þeim. Þá er því haldið fram að fyrirhuguð skerðing fjárheimilda sé nú í lok árs allt of seint fram komin.“

Þarna lýsir Ríkisendurskoðun í raun og veru því sem hefur verið í gangi hér á mörgum undanförnum árum og tekur sérstaklega fram árin 2005 og 2006 hvað það varðar. Ég vil spyrja þingmanninn að því, sem ég þó þykist vita að hann sé sammála mér um, hvort ekki sé kominn tími til að breyta þessu vinnulagi, að skýrar sé tekið á rekstri stofnana hvað þetta varðar og reynt sé af öllum mætti að koma í veg fyrir það sem hefur verið að gerast á undanförnum árum varðandi umframkeyrslu stofnana.