138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg ekki í efa þekkingu hv. þingmanns á þessu máli því að þegar hann gegndi embætti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom þetta mál fyrst inn. Það er alveg rétt sem hann sagði um aðdragandann að þessu máli, hvernig það er til komið. Hann fór einnig vel yfir ýmsar þær breytingar sem málið hefur tekið, bæði núna á þessu þingi og á fyrri þingum. Það var þó eitt sem vakti furðu mína þegar hv. þingmaður fjallaði um mesta deiluefnið í þessu frumvarpi sem snýst um innflutning á hráu kjöti. Hann þekkir vel þær miklu deilur sem spunnust út af þessu víða um land, bæði hjá bændum og ekki síst hjá þeim sem starfa í þessum geira, í matvælaiðnaðinum og hjá slátrunar- og afurðastöðvum. Ég gat ekki betur skilið en hv. þingmaður væri hálfpartinn að vonast til að þetta næði ekki fram að ganga, að við fengjum þessa undanþágu á hráu kjöti. Mig langaði þá að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort þetta sé rétt skilið hjá mér að það sé það sem hann er að hugsa. Hann sé fremur að hugsa um að hann hafi haft rétt fyrir sér í upphafi því að hann hélt því ávallt fram að við gætum ekki fengið þessa undanþágu. Er hann að vonast til þess að niðurstaðan verði sú að þessu verði hnekkt á þeirri forsendu að þá hafi hann haft rétt fyrir sér og geti sagt í ræðustóli og víðar: Ég sagði ykkur það. Eða trúir hann því ekki og treystir því að við ætlum okkur að reyna að halda þessari undanþágu? Telur hann það þá ekki veikja stöðu málsins að hann tali trekk í trekk um að það séu eiginlega engar líkur til að við getum haldið henni?