138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af dýralæknamálunum. Ég held að þetta sé eitthvað málum blandið. Það var einmitt í minni tíð sem þessar breytingar voru gerðar á frumvarpinu. Ég man ekki nákvæmlega hvernig frumvarpið var þegar það var sett fram alveg í byrjun en það var a.m.k. mjög fljótlega sem ég beitti mér fyrir því að það fyrirkomulag sem nú er verið að lögtaka ætti að gilda í meginatriðum, m.a. að eftirlitsdýralæknar gætu líka verið praktíserandi dýralæknar á þeim svæðum þar sem væri þörf á því.

Ég beitti mér líka fyrir því, og það kom inn í frumvarpið í minni tíð, að héraðsdýralæknarnir gætu líka praktíserað á einhverju tímabili sem dýralæknar jafnframt því að vera eftirlitsdýralæknar á efsta stigi. Það er einhver misskilningur hjá hv. þingmanni hvað þessa sögu varðar. En ég er alveg sammála því eins og ég sagði áðan í ræðu minni að það er grundvallaratriði að menn viðurkenni þessa sérstöðu Íslands. Þó að maður skilji alveg sjónarmið um samkeppnismál, hagsmunaárekstra og allt það tel ég engu að síður að hin rökin séu miklu sterkari. Um þetta erum við hv. þingmaður örugglega sammála.

Ég tel að innleiðing þessarar löggjafar með þeim hætti sem hér er gert í frumvarpinu muni ekki hafa nein áhrif á hvort samningsstaða okkar gagnvart Evrópusambandinu sé veik eða sterk. Ég tel að að mörgu leyti geti það verið veikara fyrir okkur að fara fram með þessa lagasetningu með þessum hætti vegna þess að það er svo augljóst að við erum að setja kíkinn fyrir blinda augað hvað varðar þennan þátt málsins, þ.e. ferska kjötið. Landbúnaðarþátturinn á ekki að taka gildi fyrr en eftir 18 eða 20 mánuði og þá ætla ég að formaður Heimssýnar verði búinn að slátra umsókninni.