138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við eitt af þeim málum sem annaðhvort ílengjast á Alþingi eða koma aftur og aftur. Það er ekkert að undra, frú forseti, því að málið er vitanlega stórt og mikilvægt. Aðdragandinn er nokkuð langur og ber þess vitanlega merki að vera hluti af samstarfi eða hvað á að kalla það við Evrópuríkin. Hér er í raun verið að innleiða gjörðir sem okkur er eða a.m.k. sumir telja skylt að innleiða samkvæmt samningum við Evrópubandalagið en síðan eru einhverjir möguleikar á undanþágum eða í það minnsta á tímabundnum undanþágum og er mikilvægt að nýta þær til fulls að mínu viti.

Segja má að frumvarpið og þessi mál skiptist í tvennt; annars vegar það að tryggja eða stuðla að því að áfram verði unnt að flytja sjávarafurðir til Evrópusambandsríkjanna, en það er ljóst að Evrópuríkin hafa smám saman náð að setja ákveðna þumalskrúfu á okkur varðandi útflutning til þeirra ríkja. Að sjálfsögðu er mjög mikilvægt fyrir okkur að halda þeim markaði opnum um leið og við getum ekki leyft okkur að mínu viti að stíga of hröð skref eða þau skref sem við virðumst í það minnsta þurfa að taka varðandi landbúnaðinn. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að við eigum að berjast eins lengi og eins mikið og eins hart og við mögulega getum gegn því að opna landbúnaðinn eða náttúruauðlindir okkar vil ég bara hreinlega kalla það, fyrir þeim breytingum sem kallað er eftir.

Ég tek undir það sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði áðan að oft og tíðum má fullyrða að við Íslendingar séum kaþólskari en páfinn þegar kemur að því að innleiða reglur frá Evrópusambandinu og finnst manni nóg um stundum og er hægt að hafa langt mál um þá hluti í gegnum tíðina og undanskil ég enga stjórnmálaflokka eða neitt þegar ég segi þetta.

Eins og fram hefur komið er forsaga málsins sú að 23. október 2007 heimilaði ríkisstjórnin staðfestingu á sex ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fela í sér breytingar á viðaukum og bókunum við þennan EES-samning. Það er kannski undanfarinn en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og einir þrír eða fjórir landbúnaðarráðherrar hafa fjallað um þetta mál.

Það þarf í sjálfu sér ekki að eyða mjög löngum tíma í að fara í einstakar greinar frumvarpsins. Mikilvægustu þættirnir úr því sem komið er eru kannski tveir í frumvarpinu. Annars vegar sá að við getum eitthvað tafið innflutning á hráu kjöti og vona ég að sú töf eða sá biðleikur sem við getum leikið verði til þess að á einhverjum tímapunkti þurfum við ekki að gera það þó svo að nú líti nú út fyrir annað. Hinn þátturinn, og það hefur m.a. komið fram í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, lýtur að eftirlitinu, Heilbrigðiseftirlitinu og Matvælastofnun og hlutverki sveitarfélaganna.

Varðandi þátt sveitarfélaganna er það vitanlega ámælisvert að mínu viti að sá þáttur hafi ekki verið kostnaðarmetinn, þ.e. nái þessar breytingar fram að ganga. Það er mjög mikilvægt að það verði gert milli 2. og 3. umr. því að ríkisvaldið getur ekki sýnt sveitarfélögunum þá vanvirðu vil ég leyfa mér að segja, komi slíkt mál fram, að fara með það í gegn án þess að það sé gert.

Þá vaknar líka spurning varðandi þann þátt sem lýtur að breytingum á dýralæknaþjónustu og öðru, hvort þær breytingar sem boðaðar eru og hafa vakið upp spurningar, muni hugsanlega leiða til kostnaðarauka fyrir þá sem sækja þjónustu dýralæknanna, þ.e. fyrir bændur og aðra sem þurfa á þjónustu þeirra að halda. Mér finnst að menn þurfi líka að velta því fyrir sér því að a.m.k. margar greinar landbúnaðarins eiga ekki auðvelt með að bæta á sig auknum kostnaði, og þrátt fyrir að víða megi sjá góð merki um ágætishluti í landbúnaðinum megum við ekki gleyma því að í mörg ár hefur rekstrarumhverfið verið snúið og er svo ekki síst í dag, a.m.k. hjá þeim sem hafa ráðist í fjárfestingar og annað.

Ekki er hægt að koma hér upp og ræða þetta mál án þess að nefna það að mikill tími Alþingis fer í að fjalla um samþykktir sem eiga sér rætur hjá Evrópusambandinu. Maður veltir því líka fyrir sér hvort sé búið að vinna að því leynt eða ljóst mjög lengi innan stjórnkerfisins og meðal stjórnmálamanna að taka upp þær reglur sem okkur eru sendar frá Evrópusambandinu til þess eins að gera okkur betur búin til að ganga í það samband sem ég held að sé afar óheppilegt og tel mikilvægt að við spyrnum fótum við eins og hægt er. Ég held að ef við vöndum okkur við að styrkja með þeim hætti sem við getum grunnatvinnugreinar okkar, sjávarútveg, landbúnað og iðnað, muni okkur farnast vel.

Það er gaman að horfa til þess stóraukna útflutnings á landbúnaðarafurðum sem við höfum séð á þessu ári og þar ráða vitanlega ýmsir þættir, bæði verðlag og einnig hugmyndir útflutningsaðila og bænda í því að nýta betur það sem af skepnunni fellur. Ljóst er að víða eru stórir markaðir sem við nýtum okkur ekki en hljótum að horfa til á næstu missirum varðandi útflutning, sem eru þá nýir markaðir eins og Asía sem dæmi. Fullyrða má að þar séu nær óþrjótandi tækifæri eins og staðan er í dag.

Mikilvægt er, frú forseti, að kerfið sem við verðum með í framtíðinni varðandi matvælaeftirlit og heilbrigðiseftirlit sé í raun einfalt og ekki mjög kostnaðarsamt. Oft og tíðum finnst manni þetta vera býsna mikið kerfi sem við erum með en að sama skapi erum við vitanlega með góð fyrirtæki í matvælavinnslunni og þeim rekstri en allt hlýtur að hafa sín takmörk bæði varðandi kröfur og eins varðandi kostnað. Sjálfur hefur maður upplifað það að koma inn í fyrirtæki sem starfa í Evrópu og innan Evrópusambandsins þar sem maður veltir fyrir sér hvernig þau hafi fengið starfsleyfi miðað við þær kröfur sem gerðar eru á Íslandi.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna og heilbrigðisnefndir þeirra hafa sinnt mjög góðu starfi og ekki ástæða til að vefengja það á nokkurn hátt. Það má velta því fyrir sér hvort heppilegt sé að fara í þá miðstýringu sem virðist vera boðuð í þessu frumvarpi, ég hef ákveðnar efasemdir um það. Við höfum mörg dæmi um það að hægt er að nýta betur þær stofnanir og þau fyrirtæki sem eru til nú þegar og heilbrigðisnefndir og heilbrigðiseftirlit eru starfandi víða um land og því má velta fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt að styrkja þá þætti eða þær stofnanir enn frekar. Við erum með miklar eftirlitsstofnanir á ýmsum sviðum, Fiskistofa er eitt ágætt dæmi um slíkt og má velta fyrir sér hvort sé ekki unnt að færa hlutverk eða hluta af starfsemi Fiskistofu t.d. til lögreglunnar þar sem við þurfum að efla lögregluembættin víða um land. Sum af þeim verkefnum sem Fiskistofa sinnir í dag eiga jafnvel heima með því sem lögreglan gerir og því má velta fyrir sér hvort sé ekki rétt að styrkja þau embætti í stað þess að skera þau niður, eins og mér sýnist að sé þemað í fjárlagafrumvarpinu sem var til umræðu fyrr í dag.

Nefndarálit sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er býsna ítarlegt um þetta frumvarp og víða komið við. Efnislegar breytingar eru ekki miklar frá því sem áður var en þó eru hér ákveðnir liðir sem er svona skellt á. En mikilvægt er að hlustað sé á þá gagnrýni og þær gagnrýnisraddir sem komu fram í ræðum þingmanna og að gott svigrúm verði gefið til umfjöllunar í nefndinni um þær breytingartillögur og þær efasemdir sem hafa komið fram hjá umsagnaraðilum og öðrum og ég ítreka það sem ég sagði áðan varðandi sveitarfélögin og kostnaðareftirlit þeirra.

Frú forseti. Þrátt fyrir að fullyrða megi að frumvarpið þrengi að einhverju leyti að landbúnaðinum til framtíðar eigum við að hafa þá trú á greininni og þeim sem í henni starfa að þar muni menn vinna hratt og örugglega að eflingu hennar. Ég hef fulla trú á því ef Alþingi og stjórnmálamenn skapa það svigrúm sem til þarf að það eigi einnig við um sjávarútveginn, frú forseti. Því er mjög mikilvægt að Alþingi sendi skýr skilaboð til þessara greina um að með þeim verði staðið í þeirri baráttu sem fram undan er við alþjóðasamfélagið og umhverfið, fjármálaumhverfið og annað. Það er mjög mikilvægt að stuðningurinn verði áþreifanlegur og víðtækur.

Ég nefni þetta ekki síst, frú forseti, vegna þess að innan veggja þingsins virðist vera áhugi hjá allt of mörgum þingmönnum á að ganga til liðs við hið alræmda Evrópusamband sem hefur sýnt okkur klærnar í Icesave-málinu og varðandi ýmis önnur mál. Þetta eru hlutir sem tengjast því máli sem við ræðum hér vegna þeirra kröfugerða sem þaðan koma og þeirra samninga sem við höfum undirgengist við þetta apparat og þetta batterí. Ég tel því fulla ástæðu, frú forseti, til að brýna bæði okkur og aðra sem vilja vinna landbúnaðinum gagn og þeim undirstöðugreinum sem við búum við á Íslandi og treysta efnahag okkar til að sameinast um að styrkja þeirra hag.

Frú forseti. Ég vonast til að nefndin gefi sér tíma til að skoða þetta mál og lagfæra enn betur milli umræðna ef þörf er á og skoða þær breytingartillögur sem koma munu fram. Síðan brýni ég þingmenn að standa vaktina þegar kemur að Evrópusambandinu, því að við sjáum það æ oftar hvers lags samkoma er þar á ferðinni.