138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

sjúkratryggingar.

199. mál
[17:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál sem ekki er stórt í texta og í sjálfu sér ekki efnislega heldur, hér er fyrst og fremst um frestun að ræða, en þetta er hins vegar angi af mun stærra máli. Eins og fram kom hjá hv. formanni heilbrigðisnefndar, Þuríði Backman, er verið er að fresta því að Sjúkratryggingar Íslands taki yfir ákveðna samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkis, samning ríkis og sveitarfélaga og aðra sem reka hjúkrunarheimili. Þetta tengist því mjög máli sem við höfum því miður lítið rætt hér en er mjög stórt mál. Það er ekkert leyndarmál, ég hef reynt að vekja athygli hv. þingmanna og fjölmiðla á þeim hættum sem þar liggja, því að þarna er um gríðarlega stórt mál að ræða, að gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að færa eigi hjúkrunarheimilin sem eru heilbrigðisstofnanir yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Það fer enginn inn á hjúkrunarheimili nema vera veikur, það er ekki bara eldra fólk, heldur líka yngra fólk, en það er gert ráð fyrir þessum flutningi í fjárlagafrumvarpinu. Ef það verður samþykkt óbreytt fara hjúkrunarheimili yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Engin málefnaleg eða fagleg rök hafa verið lögð fram til að styðja þá fyrirætlan og er hér fyrst og fremst um hrossakaup að ræða á milli ráðherra. Það er mjög alvarlegt.

Það er kannski ágætt að taka þetta mál til skoðunar. Hér er gert ráð fyrir því að Sjúkratryggingar Íslands taki ekki strax við þessum samningum. Ástæðan fyrir því er einföld, það er svo stórt verkefni sem sjúkratryggingar taka yfir, eins og hv. þm. Þuríður Backman fór yfir. Hér áður var samningagerð í heilbrigðisþjónustu á höndum þriggja aðila: hjá heilbrigðisráðuneytinu, hjá sjúkratryggingahluta Tryggingastofnunar ríkisins og hjá samninganefnd heilbrigðisráðherra. Það var augljóst að það var ekki skynsamlegt og skýrasta dæmið var að margir keyptu sömu þjónustuna og stundum á misjöfnu verði.

Ég man til dæmis eftir einni gerð hjartaaðgerða þar sem samninganefnd ráðherra keypti af Landspítalanum og borgaði eina millj. kr. fyrir hverja aðgerð. Á sama tíma sendi siglinganefnd í sjúkratryggingum fólk til útlanda í nákvæmlega sömu aðgerð og borgaði tvær millj. kr. fyrir. Hugmyndin var sú að setja allt undir einn hatt, Sjúkratryggingar Íslands, þar sem væri yfirsýn yfir þessa þætti þannig að menn gætu náð sem bestum árangri bæði faglega og fjárhagslega.

Bara svo því sé til haga haldið, af því ég vísaði í að þetta stóra mál, tilfærsluna á hjúkrunarheimilunum yfir í félags- og tryggingamálaráðuneyti, ætti að afgreiða í skjóli nætur, kom það fram í meðförum nefndarinnar að ekki er búið að huga að því hver á að sjá um samninga við hjúkrunarheimilin eftir að þau fara yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Spurt var hvort það væru hugsanlega sjúkratryggingar. Svarið var að menn hefðu bara ekki hugmynd um það. Það er af því að málið er svo illa unnið.

En ef við göngum frá þessu frumvarpi og það verður að lögum eins og það liggur fyrir hér, munum við fresta því að þessi samningsgerð taki gildi, Sjúkratryggingar Íslands taka ekki yfir fyrr en 1. janúar 2011. En við höfum auðvitað ekki hugmynd um hverjar hugmyndir hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra eru hvað þetta varðar. Félags- og tryggingamálaráðherra mun, ef fjárlögin fara í gegn, hafa yfirráð og yfirstjórn yfir þessari samningagerð. Þegar ég heyrði í fulltrúum ráðuneytisins töluðu þeir í þá veru að félags- og tryggingamálaráðuneytið mundi sjá um þessa samningagerð. Það er enn eitt flækjustigið í þessu sérkennilega máli.

Það er nefnilega ágætt að skoða hjúkrunarheimili og þjónustu við fólk á öllum aldri, sérstaklega eldri borgara, í þessu samhengi því að þetta er dæmi um að það verður að vera yfirsýn. Nú veit ég ekki hversu vel fólk almennt er inni í þessu nema það vinni í þessum geira eða hafi kynnt sér hann eitthvað sérstaklega, en hjúkrunarheimili eru þess eðlis að fólk er iðulega þar síðustu ár ævi sinnar, sérstaklega eldra fólk. Það getur verið að þeir sem yngri eru geti verið þar í mun lengri tíma. En ef við tölum bara um eldri borgara, sem er stærsti hlutinn, fer enginn þangað inn fyrr en hann er búinn að fara í strangt vistunarmat og niðurstaðan úr vistunarmatinu er að viðkomandi sé mjög veikur og önnur úrræði dugi ekki.

Önnur úrræði eru t.d. heimahjúkrun með heimaþjónustu oft og tíðum, það tvennt fer iðulega saman. Sömuleiðis eru skammtímaúrræði, og það tengist heimahjúkruninni, skammtímadvöl á dagdeildum eða sólarhringsdeildum. Það er gott dæmi um það sem var hér á Barónsstígnum eftir útboð fyrir nokkrum árum, síðan eftir annað útboð fór það á Hrafnistu, þar eru, ef ég man rétt, um 40 eða 60 slík göngudeildarúrræði. Svo maður segi það á mannamáli gengur hugmyndin út á að fólk sem þarf á mikilli þjónustu að halda en getur samt sem áður verið heima hjá sér, því að flestir vilja vera heima hjá sér sem lengst, getur verið það með því að njóta þjónustu, heimahjúkrunar, heimaþjónustu, sem er félagsleg þjónusta. Þessir einstaklingar geta farið í endurhæfingu í skemmri tíma, annaðhvort yfir daginn eða yfir einhverja sólarhringa, og geta fengið þar þjálfun og endurhæfingu sem er nauðsynleg. Sömuleiðis léttir það oft á aðstandendum. Oft og tíðum er það erfitt fyrir aðstandendur, t.d. maka, þegar fólk þarf á mikilli þjónustu að halda.

Fjölbreytnin í þjónustunni, sem er nauðsynleg, byggist á samspili vegna þess að fólk er mjög mismunandi. Við Íslendingar höfum haft þá sérstöðu að við höfum lagt mjög mikla áherslu á stofnanaúrræði, á hjúkrunarheimilið. Við höfum ekki verið með jafnstrangar kröfur um hvaða fólk fer á hjúkrunarheimili eins og t.d. annars staðar á Norðurlöndunum, sem hefur gert það að verkum að meðaldvalartími á hjúkrunarheimili á Íslandi er þrjú og hálft ár, á meðan hann er tvö ár annars staðar á Norðurlöndunum. Það hefur breyst mjög hratt eftir að við breyttum vistunarmatinu þannig að við erum að komast á svipaðan stað og hin norrænu löndin. Það er hvort tveggja í senn gott fyrir fólkið sem getur verið lengur heima, en sömuleiðis fjárhagslega hagkvæmt því að rekstrarkostnaður á hjúkrunarheimili er 8 millj. kr. á ári, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir þekkir mætavel.

Það sem hefur vantað hjá okkur er samspil og yfirsýn yfir þessi ólíku úrræði. Það má í rauninni segja að vinstri höndin vissi ekki hvað sú hægri væri að gera. Við vorum með fleiri hjúkrunarrými en aðrar þjóðir, það var mikil óánægja með þjónustuna eða þjónustuleysið. Það hefur færst mjög hratt til betri vegar en það er vegna þess að menn hafa haft yfirsýn á einum stað.

Ef fjárlagafrumvarpið nær fram að ganga, virðulegi forseti, ef þessi færsla nær fram að ganga, er yfirsýnin ekki lengur á einum stað. Þá hafa menn stigið það skref, sem er algjörlega óskiljanlegt, að í stað þess að fara þá leið sem menn ætluðu að fara, að láta Sjúkratryggingar Íslands vera með yfirsýnina yfir þessa heilbrigðisþjónustu eins og aðra, að reyna að ná eins góðum samningum faglega og fjárhagslega og mögulegt er með því að hafa eina stofnun, ætla menn að skipta þessu upp þannig að einn hlutinn af þjónustunni er settur allt annað, nánar tiltekið í félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Ef maður les um þetta mál og þekkir ekki hvað er að gerast í fjárlaganefndinni fær maður ekki séð annað en að hér sé bara verið að fresta því að sjúkratryggingar taki yfir þessa samningagerð, sem var alltaf upphaflega hugmyndin með sjúkratryggingum. Í stað þess að gera það 1. janúar 2010 á það að gerast 1. janúar 2011. Þetta er bara af praktískum ástæðum. Það er svo gríðarlega umfangsmikið sem sjúkratryggingar þurfa að taka yfir, heilbrigðiskerfið allt saman, að þetta er bara eðlilegasta mál í heimi. Frestun um eitt ár var eitthvað sem alltaf gat komið upp því að þegar menn fóru af stað með sjúkratryggingar lögðu þeir áherslu á að lagt yrði meira upp úr kostnaðargreiningu og öðrum slíkum þáttum til þess að ná betri faglegum og fjárhagslegum árangri í heilbrigðisþjónustunni.

Við vitum að vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu hafa minni fjármunir verið fyrir hið opinbera og menn hafa ekki farið þá leiðina, þeir hafa þurft að nýta það sem til staðar er. Þessi frestun til 2011 er hin eðlilegasta en við getum ekki látið eins og ekkert sé að gerast einhvers staðar annars staðar því að 1. janúar 2011, ef fjárlögin fara óbreytt í gegn, verða hjúkrunarheimilin ekki hjá heilbrigðisráðuneytinu. Það getur vel verið að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hafi allt aðrar hugmyndir. Mér heyrist það á þeim litlu upplýsingum sem komið hafa fram í heilbrigðisnefnd, enda væri það svolítið sérstakt ef hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra semdi við stofnun sem ekki heyrir undir hann um að halda utan um þessi mál. Það væri þó örugglega illskásti kosturinn ef svo fer, sem ég vil ekki trúa fyrr en ég tek á því, ef meiri hluti Samfylkingar og Vinstri grænna ætlar í fullri alvöru að færa hluta heilbrigðisþjónustunnar yfir í allt annað ráðuneyti. Það er algjörlega á skjön við allt það sem við höfum verið að gera í þessum málaflokkum þar sem menn hafa verið að reyna að koma faglegri og fjárhagslegri ábyrgð á einn stað. Allur þessi gjörningur er algjörlega á skjön við það.

Virðulegi forseti. Af því hér eru hæstv. ráðherra og tveir hv. þingmenn úr heilbrigðisnefnd, formaður heilbrigðisnefndar hv. þm. Þuríður Backman og einn helsti forustumaður Samfylkingarinnar á þessu sviði, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, ég tala nú ekki um þegar hæstv. iðnaðarráðherra er mættur á svæðið, væri ekki úr vegi að menn ræddu þetta. Þetta er ekki verri staður en hver annar, Alþingi Íslendinga, til að ræða þetta mikilvæga mál. Hvaða lausn sjá menn fyrir sér í þessu?

Jafnótrúlegt og það nú er ætla menn að flytja þennan málaflokk, þessa heilbrigðisþjónustu, 20 milljarða, þetta eru 2/3 af rekstrarkostnaði Landspítalans, hjúkrunarheimilin, yfir í annað ráðuneyti. Það er alveg eins og á Landspítalanum og á hjúkrunarheimilunum, þar er veikt fólk. Menn geta alveg fært rök fyrir því að það sé ýmislegt á Landspítalanum sem ekki sé bein heilbrigðisþjónusta af því að fólk borðar þar t.d., en þetta hefur nú alla jafna verið skilgreint sem heilbrigðisþjónusta.

Menn flytja hér 20 milljarða þjónustu, þessa mikilvægu heilbrigðisþjónustu, yfir í annað ráðuneyti og ekki hefur komið ein einasta fagleg umsögn, engin umsögn.

Hér erum við með einn angann af þessu máli og gert ráð fyrir því að setja alla samningagerð undir einn hatt, þannig að menn væru með yfirsýn, þannig að menn gætu náð sem mestri hagkvæmni út úr þessu og þetta yrði unnið sem faglegast. Það var alveg heil hugsun í því, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fór í það mál og ég þekki það vel sem heilbrigðisráðherra í þeirri ríkisstjórn. Við horfðum til annarra norrænna landa í þeim efnum. Þetta er eitt besta dæmið um hvað það er mikilvægt að yfirsýn yfir þjónustu sem þessa, sem snýr að þeim einstaklingum, sérstaklega öldruðum einstaklingum, sem þurfa á heimahjúkrun og þjónustu hjúkrunarheimila að halda, sé á einum stað. Þetta er skólabókardæmi um hvað það skiptir miklu máli, bæði faglega og fjárhagslega, að yfirsýnin sé á einum stað.

Virðulegi forseti. Menn ætla í fullri alvöru að brjóta þetta kerfi upp, gera það flóknara og þeir ætla að láta ráðuneytin fara að bítast um fjármunina. Allir sem eitthvað vita um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig þeir vita að þannig verður það. Ég hvet hv. þm. Guðbjart Hannesson til að hlusta á þessa umræðu, hann mundi læra mikið á því af því hann er nú formaður fjárlaganefndar. Það heyrir undir heilbrigðisráðuneytið ef bæta á þjónustuna með hagkvæmari hætti, auka t.d. heimahjúkrun og vera með fjölbreyttari úrræði eins og skammtímaúrræðin — á meðan hjúkrunarheimilin eru undir félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Heilbrigðisráðuneytið þarf því að sækja til félags- og tryggingamálaráðuneytis fjármuni til þess að gera hluti sem eru, í því tilfelli, bæði faglega og fjárhagslega hagkvæmir. Þetta mun ekki bara hafa aukið flækjustig í för með sér, það mun þýða verri þjónustu og aukinn kostnað. Það liggur alveg fyrir.

Ég hef orðið var við að hv. þingmenn, sérstaklega Samfylkingar, líta svo á að þetta sé bara eitthvert smámál sem þurfi ekkert að ræða. Það sé bara nagg að velta þessari 20 milljarða tilfærslu fyrir sér. Ég hvet þá til þess að kynna sér þetta mál og í það minnsta að upplýsa okkur um hvað liggur að baki því að öll rök sem hér hafa verið nefnd standast ekki skoðun. Þetta snýst ekkert um að öldrun sé ekki sjúkdómur. Öldrun er ekki sjúkdómur. Fólk er misvel á sig komið óháð aldri. Sjötugur einstaklingur getur verið mjög heilsuhraustur og 30-35 ára eða fertugur einstaklingur getur verið mjög veikur. Þetta hefur ekkert með aldur að gera. Þetta hefur ekkert með búsetuúrræði að gera. Það fer enginn inn á hjúkrunarheimili nema hann sé búinn að fara í gegnum mjög strangt vistunarmat. Reyndar er það þannig að kvartað hefur verið undan því að matið sé of strangt, að fólk sé orðið mjög veikt þegar það fær að koma inn. Þetta hefur ekkert með það að gera að færa þennan hluta yfir til sveitarfélaganna. Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekkert með þann málaflokk að gera, það þarf enga stoppistöð áður en menn færa vissa þætti yfir til sveitarfélaga. Ef menn vilja flytja eitthvað yfir til sveitarfélaganna gera þeir það.

Grunnskólinn var enginn millileikur, menn komu ekkert við í sveitarstjórn og ráðuneytum áður en grunnskólinn fór yfir til sveitarfélaga. Það var bara samið beint um það. Reyndar var það menntamálaráðuneytið sem hélt utan um það á sínum tíma og það hefði ekki hvarflað að neinum að færa málefni grunnskólans til samgönguráðuneytisins þó svo að grunnskólinn sé hjá sveitarfélögunum. Að sjálfsögðu er grunnskólinn hjá menntamálaráðuneytinu.

Þetta er einn anginn af þessu sérkennilega máli. Ég mun gera hvað ég get til þess að vekja meiri hlutann í þessu máli því að ég vil trúa því (Forseti hringir.) að allt skynsamt fólk sem skoðar þetta mál komist að þeirri niðurstöðu að það leikur illilega af sér með þessu.